Hlutafélög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 21:13:43 (2911)



[21:13]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Varðandi það atriði sem brtt. snýst um fékk ekkert atriði í frv. til nýrra laga um hlutafélög og einkahlutafélög meiri umfjöllun. Sú tillaga sem lá fyrir, studd af meiri hluta nefndarinnar, var sú málamiðlun sem menn komust þar að og að mínu mati kemur hún best til móts við það sjónarmið sem ég tel að hafi vakað fyrir þeim sem sömdu frv., þ.e. að í lögum væri ákvæði sem væri hald í og sem væri hægt að beita til þess að stöðva þá aðila sem hefðu beitt gjaldþrotum ítrekað í rekstri sínum og valdið þar með því öðrum aðilum, þriðja aðila, ómældum skaða.
    Margt bendir til þess mjög erfitt hefði verið að framfylgja ákvæðinu eins og það var í frv. upphaflega. Það lá alveg ljóst fyrir að eins og hlutafélagaskrá vinnur í dag hefur hún ekkert bolmagn til þess að fylgja því eftir og halda utan um þær upplýsingar sem þar hefðu þurft að vera til staðar á hverjum tíma til þess að ákvæðið væri virkt. Hins vegar tel ég að með þeirri brtt. sem meiri hluti nefndarinnar lagði til og var samþykkt við atkvæðagreiðslu í 2. umr. sé komið það tæki sem þarf til að hægt sé að stöðva þá aðila sem menn vita að beita þessu vísvitandi og margítrekað. Þar er komin lagaheimild þannig að það liggur fyrir að verði þeir kærðir og hljóti þeir dóm verða þeir stöðvaðir. Það var túlkun í það minnsta hluta nefndarinnar enda þótt það væri ekki sett inn í textann. En þegar ákvæðið væri komið inn þá væri litið á það mjög alvarlegum augum þegar búið væri að kæra aðila og það hefði tilætluð áhrif. Það er því skoðun mín að eins og við vorum búin að ganga frá þessu við 2. umr. sé það ásættanleg lausn og þar væru komin inn í lög þau tæki sem framkvæmdarvaldið, skattyfirvöld og aðrir aðilar þurfa á að halda til þess að stöðva þá sem þurfa að nota gjaldþrot sem rekstrartæki og eru uppvísir að ítrekuðum gjaldþrotum.
    Ég ítreka einnig sem ég sagði við 2. umr. málsins að það sem ég tel að skipti mestu máli í þessu er samþykkt á þeirri heildarlöggjöf sem er að fara fram, bæði hvað snertir félagalögin, bókhaldslögin og ársreikningalögin og þær breytingar sem verða þar verða þess valdandi að viðskiptasiðferðið almennt hér á landi batni. En okkur vantar öllu öðru fremur að viðskiptasiðferðið batni. Það snýr ekki eingöngu að þeim aðilum sem endurreisa rekstur sinn með nýrri kennitölu hvað eftir annað. Það snýr ekki síður að þeim aðilum, bæði fjármálastofnunum, heildsölum og hvers kyns rekstraraðilum sem hleypa þeim aðilum í rekstur á ný hvað eftir annað. Mér finnst að ábyrgð þeirra aðila gleymist stundum í allri þessari umæðu. En eins og ég nefndi í þeirri umræðu er þessum aðilum ítrekað, það er alveg rétt, hleypt af stað en þeir komast ekki af stað öðruvísi en þeir fái ákveðna fjármálafyrirgreiðslu og þeir fái ákveðna fyrirgreiðslu hjá öðrum viðskiptaaðilum sem oft og tíðum eru með baktryggingu. Þeir eru að tryggja sig en skellurinn kemur svo niður á þeim sem fara í góðri trú í viðskipti við þessa aðila í framhaldinu. Það er því mín skoðun að eins og búið væri að ganga frá þessu máli við 2. umr. sé það í þeim farvegi að ekki þurfi að gera á því frekari breytingar.