Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 11:12:11 (2996)


[11:12]
     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki kominn hér upp til að svara fyrir um samkomulag vegna þeirrar uppákomu sem hér varð í gær sem var náttúrlega alveg makalaus en eðlileg út frá því sem svokallaður meiri hluti fjárln. hafði gengið frá.
    Það er eiginlega merkilegt, þessi lokaði klúbbur sem meiri hluti fjárln. er, kannski hefur það verið alla tíð en það er aldrei eins og nú, að hv. fjárln. eða meiri hlutinn virðist ekki þurfa að ræða við hinn almenna þingmann og gerir þess vegna þau axarsköft sem hér voru rædd í gær sem nú er búið að bjarga að hluta með því að taka út það sem sagt var um Byggðastofnun en hitt stendur alveg óhreyft varðandi landbúnaðarþáttinn. Það er sem sagt búið, meiri hluti fjárln. virðist vera búinn að setja þarna inn í greinargerð og telur að það séu víst nánast lög að ákveða með þessum orðum að Jón Baldvin, hæstv. ráðherra, ráði í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Það virðist vera búið að ganga frá því og enn aukast nú völd þess ágæta manns og ef þeir koma þessu fram eins og þeir vona. En furðulegt er ef núv. meiri hluti getur gengið frá því hvað gert verður í jarðræktarlögum á næsta kjörtímabili. Að sjálfsögðu þarf að breyta jarðræktarlögum. Það er eðlilegt í dag að það sé dregið úr þeim stykjum en það verður ekki gert með þessum hætti. Það þurfa hins vegar að verða styrkir til ákveðinna greina. Það þarf að styrkja upphreinsun skurða vegna kornræktar og fleira.
    Ég vildi aðeins undirstrika afstöðu mína í þessu máli. Það er með ólíkindum hvernig hv. meiri hluti fjárln. hefur hagað sér í þessu máli.