Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 12:22:49 (3009)


[12:22]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða á grundvelli andsvara er nú býsna merkileg og ég hlýt að þakka sérstaklega öllum sem hér hafa komið upp því að það hefur verið staðfesting við málflutning minn og það er afar mikilvægt að hafa fengið úr því skorið með svo skýrum hætti sem nú liggur fyrir, bæði af hendi hæstv. fjmrh. og hv. varaformanns fjárln., að margrædd grein í nál. meiri hlutans hafi ekkert merkingargildi. Það er auðvitað grundvallaratriði.
    Vegna þess að mér er nú vel til þessara manna þá hefði það auðvitað verið góð ákvörðun að hreinsa hana burtu úr nál. því að þar er hún einungis til vansa fyrir þá sem hana hafa sett þar fram. En ég get verið þakklátur fyrir það að hún varð til þess að opna þessa umræðu og leiða þá mikilvægu niðurstöðu fram í dagsljósið sem hér hefur fengist.