Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 12:44:35 (3015)


[12:44]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er hægt að vera með frómar óskir um hvað ráðherra vill gera. En það sem ég var að leggja áherslu á var ákvæði laganna. Og meðan þeim hefur ekki verið breytt lít ég svo á að eftir þeim verði að fara því að aðeins Alþingi hefur heimild til þess að breyta lögum.
    Hæstv. ráðherra vék síðan að því að það þyrfti að spara og þá væri það gott að vega í þann knérunn sem hv. 3. þm. Austurl. benti hér á áðan, þ.e. sauðfjárbændur. Hann rakti þær tölur sem reiknað hafði verið út að tekjur sauðfjárbænda mundu dragast saman um 47% og þegar hæstv. landbrh. þarf að svara, þá er það kjörinn hópur til þess að láta sparnað ríkissjóðs bitna á. Það er það sem hægt var að lesa út úr hans orðum, en eftir stendur það að það sem hér stendur í þessu nefndaráliti er stefna ríkisstjórnarinnar. Hæstv. fjmrh. sagðist standa við þessi orð og hæstv. landbrh. tók undir það þannig að í þessu nefndaráliti er stefna Sjálfstfl. sem þeir ætla að koma fram hvort sem það samrýmist lögum eða ekki.