Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 12:46:55 (3016)

[12:46]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með þessari umræðu bæði í gær og í dag. Annars vegar ber hún þess vitni að það eru að koma kosningar og menn eru svona farnir að passa upp á sitt og farnir að láta í sér heyra, stjórnarþingmenn, sem hafa nú haft frekar hljótt um sig á þessu kjörtímabili. Hins vegar er auðvitað um það að ræða að við erum hér að glíma við ýmiss konar vandamál og menn eru ekki sáttir við þá afgreiðslu sem þau hafa fengið.
    Varðandi það frv. til fjáraukalaga sem hér er til umræðu þá er þess fyrst að geta að nú er að koma í ljós hver hallinn verður á þessu ári. Með þessu frv. er verið að auka hann um rúma 3 milljarða kr. og samkvæmt þeim upplýsingum sem hv. varaformaður fjárln. gaf mér þá er hallinn kominn eitthvað yfir 10 milljarða kr. á þessu ári. Og eins og kom fram í umræðum í gær um lánsfjárlögin þá leit út fyrir að hallinn gæti orðið miklu meiri, en því er ekki að neita að efnahagsbati, eins og það er kallað, hefur átt sér stað og tekjur ríkissjóðs hafa orðið mun meiri heldur en spáð hafði verið. Þetta hefur auðvitað orðið til þess að bæta stöðuna allverulega. En það breytir ekki því að þetta er gríðarlegur halli.
    Nú er það svo að hallinn á íslenska ríkissjóðnum er minni en hjá ýmsum öðrum ríkjum, en við stöndum hins vegar frammi fyrir kannski meiri vanda heldur en margar aðrar þjóðir, ekki síst vegna þess að okkar auðlindir eru takmarkaðar og þar hefur verið gengið of langt og við sjáum ekki fram á það að geta sótt í sjóinn eins og við höfum gert hingað til síaukinn afla til þess að standa undir öllum okkar þörfum, hversu nauðsynlegar sem þær svo eru. Þannig að framtíðin er nokkuð óviss þó að menn séu að spá töluverðum bata.
    Hér hefur orðið mikil umræða um jarðræktarlögin og í tengslum við það stöðu landbúnaðarins og ekki síst stöðu sauðfjárbænda og það kemur fram í þessum fjáraukalögum að það er verið að veita framlög til Byggðastofnunar vegna vanda sauðfjárbænda fyrst og fremst og eins liggur hér fyrir ákvörðun meiri hluta fjárln. þess efnis að veita 40 millj. kr. til jarðræktarframlaga. Í áliti landbn., sem hér hefur komið nokkuð við sögu, er að finna allt aðrar kröfur og við tókum þann pól í hæðina og ég vil láta það koma hér fram að það er mín grundvallarstefna, að það eigi að standa við lög og gerða samninga. Ef menn vilja rifta þeim þá á að breyta lögum, þá eiga menn að fara í það verk að breyta lögum, þá eiga menn að stokka upp spilin og breyta lögunum.
    Það kemur hér reyndar fram, sem rétt er, að á sínum tíma var sótt heimild til þess að takmarka framlögin til jarðræktar þannig að þau eru háð fjárveitingum Alþingis, en í rauninni gengur þetta þvert á tilgang laganna. Og þetta er auðvitað ekki góð aðferð sem hér er beitt hvað eftir annað og við upplifum ár eftir ár, að fyrst eru samþykkt þessi fínu lög, hvort sem þau eru um aldraða, fatlaða eða hver þau góðu málefni sem þingið ber fyrir brjósti og síðan koma menn með skerðingarákvæði og treysta sér ekki til að standa við samþykkt lög. Þá er miklu nær að endurskoða sjálfan lagabálkinn. Ég held að við stöndum einmitt frammi fyrir því hér á næsta kjörtímabili bæði að endurskoða ýmsa þá lagabálka sem snerta landbúnaðinn, það þarf að skoða skipulag landbúnaðarins í heild og það þarf að taka upp búvörusamninginn. Þetta er alveg augljóst mál og ekki síst í ljósi þeirra miklu vandræða sem a.m.k. hluti bænda stendur frammi fyrir. Rétt eins og við erum hér stöðugt að glíma við atvinnuleysisvandann í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð og það er verið að reyna að finna leiðir til atvinnusköpunar í gegnum átaksverkefni sveitarfélaganna og ýmislegt annað, þá verða menn auðvitað að taka landbúnaðinn og atvinnusköpun í sveitum inn í það dæmi, bæði hvað snertir karla og konur.
    Ég vil láta þetta koma hér fram, virðulegi forseti, að hér er mikið verkefni fram undan. Hins vegar er það svo spurningin í ljósi stöðunnar í landbúnaðinum hvaða þörf er þar fyrir jarðræktarframlög og fyrir fjárfestingar. Auðvitað eru þær sums staðar og annars staðar ekki. Sums staðar eru bændur mjög skuldugir. Við vorum einmitt hér í gær að fjalla um tillögu í lánsfjárlögum um 900 millj. kr. til skuldbreytinga á lánum bænda við Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þannig að það er verið að fást við þennan vanda . . .   (Gripið fram í.) lausaskuldir bænda. Það er auðvitað verið að fást við þennan vanda og einmitt þessi staðreynd, um þessar 900 millj., sýnir hver vandinn er. Þetta sýnir auðvitað í hnotskurn hvernig staðan er.
    Virðulegi forseti. Erindi mitt hingað í ræðustólinn var annars vegar það að ég ætla að mæla hér fyrir brtt. sem er að finna á þskj. 380, en flm. ásamt mér er Jóhanna Sigurðardóttir. Hins vegar ætla ég aðeins hér á eftir að fjalla um kaflann um heilbr.- og trmrn. Ég ætla aðeins að minnast á hann, en reyndar voru ekki gerðar neinar breytingar á þeim kafla milli 2. og 3. umr.
    Sú brtt. sem ég mæli hér fyrir gengur út á það að það verði til nýr liður, 07-795 Framkvæmdasjóður fatlaðra, og til hans fari 85 millj. í liðinn stofnkostnaður. Þetta á sér þá skýringu að samkvæmt lögum eiga óskertar tekjur Erfðafjársjóðs að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Óskertar tekjur. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið frá Ríkisbókhaldi þá stefnir í það að tekjur Erfðafjársjóðs verði allmiklu meiri heldur en gert er ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 1995 eða að þær verði um það bil 85 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir. Þeir peningar eiga lögum samkvæmt að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra og hér er því gerð tillaga um að það komi fram á aukafjárlögum þessa árs að þessar tekjur fari þangað. Þetta er samkvæmt áætlun, að þetta verði 85 millj. kr. Menn geta rétt ímyndað sér hver þörfin er fyrir þetta fjármagn hjá Framkvæmdasjóði fatlaðra. En það er allt á sömu bókina lært hér í þessum þingstörfum og lagabreytingum að það er á öðrum stað verið að fjalla um það að breyta lögunum um Framkvæmdasjóð fatlaðra og að gera þá breytingu að nú megi verja 40% af því fé sem þangað kemur í rekstur á stofnunum fatlaðra og í ýmis sérverkefni á þeirra vegum. Þannig er sífellt verið að ganga á þá peninga sem eiga að fara til framkvæmda og verið að taka þá í rekstur. Þetta er auðvitað dæmi sem veldur áhyggjum. Hið sama hefur verið að gerast varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Örfá orð um heilbrigðis- og tryggingamálin. Eitt af þeim málum sem voru til umræðu og hafa verið óleyst til skamms tíma var það sem snýr að Ríkisspítölunum, Borgarspítalanum og Landakoti þar sem hefur verið við gífurlegan rekstrarvanda að stríða. Ég er nú að nefna þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að ég fæ ekki betur séð en að það eigi að endurtaka nákvæmlega sama leikinn á næsta ári. Fyrst er sett í fjárlögin að spítölunum beri að spara svo og svo mörg hundruð millj. kr. Síðan kemur að aukafjárlögum og þá þarf að setja þessar upphæðir inn þar vegna þess að þessi sparnaður nær ekki fram að ganga, hann er óhugsandi. Síðan liggur hér fyrir að það hefur verið gerður samningur milli Borgarspítalans og Landakots um sameiningu, samvinnu og endurskipulagningu af ýmsu tagi. Það á að veita til þess 250 millj. kr. og síðan 100 millj. til viðbótar vegna launahækkana sem reiknað er með á næsta ári, en á sama tíma liggja fyrir þær tölur að Borgarspítalinn einn telur sig þurfa 372 millj. til þess að geta haldið óbreyttum rekstri. Þar að auki vitum við það að þessi sameining spítalanna mun kosta tugi millj. ef ekki hundruð millj. vegna mikillar endurskipulagningar sem þarf að eiga sér stað. Þannig að ég fæ ekki betur séð, virðulegi forseti, en hér sé verið að leika nákvæmlega sama leikinn ár eftir ár. Þetta eru ekkert annað en bókhaldskúnstir til þess að reyna að fá út aðra útkomu úr fjárlögunum og að reyna að blekkja okkur varðandi hallann á ríkissjóði, en svo verða menn að koma á eftir og sækja þessa peninga með lánsfé, að sjálfsögðu, því ekki er til fyrir þeim hjá ríkissjóði. Þetta segir mér einfaldlega að svona vinnubrögð ganga ekki. Við náum ekki sparnaði í heilbrigðiskerfinu öðruvísi en að þar eigi sér stað uppstokkun. Þetta eru engar smáupphæðir sem við erum að tala um í heilbrigðis- og tryggingamálum og ég vil bara minna á það að hér er verið að sækja 400 millj. til viðbótar í lífeyristryggingar, 800 millj. í sjúkratryggingar, 294 millj. til Ríkisspítalanna, 212 millj. til Borgarspítlans og 100 millj. til Landakots. Þetta eru þvílíkar gífurlegar upphæðir og ég vil taka það skýrt fram að ég veit það að spítalarnir eru búnir að hagræða og endurskipuleggja í sínum rekstri eins og þeir treysta sér til og segja að lengra verður ekki gengið í sparnaði, en við stöndum auðvitað frammi fyrir því að heilbrigðis- og tryggingakerfið tekur til sín lungann af tekjum ríkisins þannig að það er von að menn líti þangað í leit að peningum til að spara. En það er mín sannfæring að okkur takist það ekki með neinum viðhlítandi árangri öðruvísi en að við skoðum þetta kerfi í heild og það verði hætt við svona illa grundaðar hugmyndir og breytingar sem augljóslega kosta stórfé en svo á ekki að ætla neina peninga til þeirra á fjárlögum. Hvernig á svona lagað að ganga upp?[Fundarhlé. --- 13:00]