Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:35:32 (3027)


[14:35]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki víst að ég geti svarað nákvæmlega þeirri fyrirspurn sem hefur komið hér og nú en það gefst þá tækifæri síðar og í síðasta lagi þá í umræðunni um fjárlög að svara þessum spurningum. Ég veit ekki betur en að á undanförnum árum hafi allt verið gert upp á milli Erfðafjársjóðs og Framkvæmdasjóðs fatlaðra á þann veg að skili Erfðafjársjóður og skatturinn meira þá sé það gert upp og fært til Framkvæmdasjóðs fatlaðra.
    Það er rétt sem kom fram í ræðu hv. þm. að það er hugmyndin að meira fari til reksturs en áður úr sjóðnum og það er vissulega stefnubreyting sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og er skiljanleg því auðvitað er ekki sífellt hægt að byggja ný og ný hús án þess að hafa fjármuni til að standa undir þeim rekstri sem fer fram í viðkomandi húsum. Ég kannast ekki við að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi staðið í hörðum innheimtuaðgerðum. Ég get ekki svarað því öðruvísi. Ég hélt satt að segja að það væri sæmilegur friður um þessi mál á milli ráðuneytanna, það hefur a.m.k. verið það á undanförnum árum. Þegar spurt er síðan af hvaða tölu skerðingin er reiknuð þá verð ég að viðurkenna að ég get ekki heldur svarað því og verð að hryggja hv. þm. með því að það verður að skoða orðalagið en það er hægt að fá upplýsingar um þetta í umræðunni um fjárlög enda tilheyrir það nú kannski frekar fjárlagaumræðunni en umræðunni um fjáraukalögin, því skerðingin verður á næsta ári.