Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 20:38:36 (3068)

[20:38]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég var þar komin í minni ræðu áðan að ég rifjaði upp nokkur atriði sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum meiri hluta hv. fjárln. og þaðan af síður líklega meiri hluta ríkisstjórnar. Ég nefndi áðan sjúkraþjálfara og framlög til sjúkratrygginga. Við kvennalistakonur höfum í framhaldi af þeim athugasemdum sem ég var þar að koma á framfæri flutt brtt. við fjárlagafrv. sem er á þskj. 496 og er í þá veru að bæta sjúkratryggingum upp þessa skerðingu sem fyrirhuguð er með 50 millj. kr. framlag, sem er nauðsynlegt til þess að þessar forvarnir og endurhæfing sem felst í þessari vinnu geti haldið áfram. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Ég var búin að lýsa því hér áðan og ég bara legg hér með fram þessa brtt.
    Í öðru lagi var einnig sótt um það frá Félagi einstæðra foreldra að fá 10 millj. kr. og sendu þeir bréf til fjárln. um það mál til þess að bæta við húsnæði félagsins, en það hefur ekki getað annað nema einum þriðja af þeirri þörf sem er fyrir húsnæði fyrir þá einstæðu foreldra sem enga möguleika eiga úti á húsnæðismarkaðnum. Það er mikil þörf fyrir þessa aðstoð og þeir fara fram á að fá framlag upp á 10 millj. kr. til þessa verks, ásamt því að styrkja 1--2 konur á hverju ári til náms. Ég tel að 10 millj. kr. séu mjög vægt farið í að biðja um aðstoð og hefði hugsanlega verið hægt að hliðra til og verða við þeirri beiðni. Eins og ég segi, það er mikil þörf á því að aðstoða Félag einstæðra foreldra í þessum málum. Þarna er mikið af konum með kornabörn sem hafa enga möguleika til að ná sér í húsnæði og hafa litla tekjumöguleika og þar hefur Félag einstæðra foreldra hlaupið undir bagga.
    Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. fyrir frhnál. minni hluta fjárln. þá skiptum við á milli okkar að gera grein fyrir nokkrum köflum í þessu nál. Ég ætla aðeins að nefna örfá atriði. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem hv. frsm. okkar í minni hlutanum ræddi hér áðan, en nefna hér aðeins svona --- það má kannski segja jafnvel til gamans, að það er í sambandi við framlög til vegamála.
    Því er mikið haldið á lofti nú að það eigi að auka framlög til vegamála á næsta ári með 1.250 millj. kr. Það hefur verið tilkynnt um nýjar framkvæmdir fyrir 3,5 milljarða á næstu fimm árum og það á sem sagt að framkvæma fyrir 1.250 millj. á næsta ári. Nú er búið að ákveða og hefur þegar verið hækkað bensíngjald og á að hækka þungaskatt um næstu áramót til þess að standa að nokkru leyti undir þessu átaki og eiga þær tekjur að gefa í kringum 310 millj. kr. Hins vegar hefur ríkisstjórnin skert vegafé á þessu ári um 265 millj. kr. og síðan ætlar hún að leggja fram núna í þetta nýja framkvæmdaátak 350 millj. og þá fer nú ekkert að vera mjög mikið bil þarna á milli þannig að þannig er alltaf hægt að leika sér með tölur. Það er hægt að segja að það eigi að leggja fram 350 millj., draga síðan frá framlaginu 275 millj. og þá fer að verða frekar lítið eftir.
    Eitt er það sem ég vildi einnig nefna hér og það er að í 6. gr. fjárlaga eru ýmsar breytingar núna frá meiri hluta fjárln. Ég ætla að lýsa ánægju minni með nokkrar breytingar sem þar eru inni. Þar er m.a. grein 3.79, sem kveður á um að afhenda Sambandi austur-húnvetnskra kvenna eignarhluta ríkissjóðs í húsum þeim sem Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi hefur haft til afnota undir starfsemi sína. Samband austur-húnvetnskra kvenna stóð að því að koma á fót þessu heimilisiðnaðarsafni á Blönduósi. Þetta er mjög merkilegt safn og hefur verið í húsnæðishraki, að vísu haft aðstöðu þarna í útihúsi frá húsmæðraskólanum á Blönduósi. Það er núna búið að stofna um þetta sjálfseignarstofnun og hugsanlega hefði kannski bara átt að afhenda sjálfseignarstofnuninni þetta, en það skiptir ekki öllu máli því að sjálfseignarstofnunin er afsprengi má segja Sambands austur-húnvetnskra kvenna. Þær höfðu forgöngu að þessu og munu þá örugglega koma þessu í réttar hendur þegar búið er að afhenda húsnæðið.
    Í öðru lagi vil ég einnig lýsa yfir ánægju yfir því að í lið 5.13 er Ríkisútvarpinu heimilað að kanna kaup á langbylgjusendi og loftneti, enda taki Ríkisútvarpið við mastri lóranstöðvarinnar á Gufuskálum. Það hefur lengi staðið í stappi um það hér á hv. Alþingi hvernig ætti að bæta það tjón sem varð þegar langbylgjusendirinn hrundi á Vatnsenda og þetta er alla vega spor í þá átt að leysa það mál og verður vonandi framhald á því að það komist í gagnið.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá er hér ein grein sem mér finnst a.m.k. ekki nægilega skýr, grein 5.10, að semja við orkusölufyrirtæki um aðgerðir til að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er dýrastur og greiða allt að 50 millj. kr. í mótframlag úr ríkissjóði umfram það sem þegar hefur verið gert af hálfu stjórnvalda með niðurgreiðslum og yfirtöku skulda orkufyrirtækja. Ég hef margoft rakið það hér að ríkisstjórnin ætlaði sér að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er hæstur. Henni fórst það nú ekki betur úr hendi en svo að fyrir tæpum tveimur síðan, hinn 1. jan. 1993, lagði hún 14% virðisaukaskatt á húshitun og hann hefur auðvitað aukið kostnað þeirra sem greiða þetta þó að það hafi verið tekin sú ákvörðun að endurgreiða hluta af því aftur. Ég hef fengið upplýsingar um það í dag frá fjmrn. að innheimtan í þessum virðisaukaskatti er í kringum 620 millj. fyrir árið 1993. Heimilin greiða af því 400 millj. kr., en atvinnuvegirnir greiða rúmar 200 millj. Innheimtan er sem sagt 620 millj. þegar búið er að draga endurgreiðsluna frá sem greidd er til baka aftur til orkuveitnanna. Síðan eru á fjárlögum ársins eða næsta árs og einnig ársins í ár 397 millj. kr. til niðurgreiðslu á rafhitun á köldum svæðum, en á sama tíma, eins og ég sagði, þá fær ríkissjóður 400 millj. kr. í beinar tekjur af þessum virðisaukaskatti sem lagður var á fyrir tæpum tveimur árum síðan. Það er því alveg augljóst að ríkisstjórnin hefur ekki aukið niðurgreiðslur á þessu tímabili heldur hefur hún lagt á virðisaukaskatt og hann stendur undir þeim niðurgreiðslum sem ríkisstjórnin notar í dag.
    Þar að auki hef ég einnig fengið upplýsingar um það frá Rafmagnsveitum ríkisins að ef miðað er við byggingarvísitölu þá er kostnaður neytandans við rafhitun mjög svipaður og hann var í upphafi árs 1991. Og þó það hafi náðst ákveðin lækkun á þessu tímabili miðað við byggingarvísitölu, þ.e. hér er nú reyndar átt við lengra tímabil, þeir taka hér tímabilið alveg frá árinu 1982 og til ársins í ár, þá hefur í raun og veru ekki orðið nein lækkun miðað við byggingarvísitölu og það hefur alls ekki náðst það markmið sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi, að lækka verulega þennan kostnað. Niðurstaða Rariks er sú að orkuverðsjöfnun geti ekki talist staðreynd. Hins vegar má segja að verðið í dag sé kannski með því lægra sem það hefur verið ef við tökum öll 12 árin, en eftir stendur að lækkunin er nánast engin, hefur ekki náðst á þessu tímabili sem ríkisstjórnin hefur starfað og eins og ég sagði áðan, hún hefur lagt á á sama tímabili, haft í tekjur 400 millj. kr. af virðisaukaskatti og það er það sem notað er til þess að greiða niður.