Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:07:57 (3086)


[22:07]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir falleg orð í garð okkar meirihlutamanna í fjárln. og væntanlega í garð allrar fjárln. Við erum þessa dagana ekki vanir því að fá mikið hrós úr þessum stóli og þar af leiðandi þykir okkur lofið gott þó að geti auðvitað verið svolítið tvíeggjað að það komi frá hv. 9. þm. Reykv., alla vega okkur meirihlutamennina. ( GJH: Njótið þið þess bara.) En við reynum auðvitað að njóta þess eins og við mögulega getum yfir jólahátíðina alla vega á sama hátt og við reynum að skoða þau mál sem til okkar er vísað og leysa úr þeim að bestu getu.
    Hv. þm. nefndi einnig þau mál er varða Ríkisspítala og sérstaklega hvað varðar tækjabúnað. Um þau mál er það að segja að við könnumst vel við þau, við höfum fengið erindi þess efnis og vorum með þau mál til athugunar. En á meðan á þeirri athugun stóð var gert samkomulag milli stjórnenda Ríkisspítalanna, heilbrrh. og fjmrh. eða nánast var undirritaður samningur um hvernig fjármögnun Ríkisspítalanna skyldi háttað á næsta ári og reyndar hvernig leyst skyldi úr fjárhagsvanda spítalans á yfirstandandi fjárlagaári. Við gátum þar af leiðandi þegar þessi samningur var sendur til okkar ekki litið öðruvísi á heldur

en þetta væru sameiginlegar fjárveitingabeiðnir þessara þriggja aðila til handa Ríkisspítölunum og þar með væri öðrum beiðnum ýtt út af borðinu. Og ég hlýt því að gera ráð fyrir því að þeim vandamálum, sem hv. 9. þm. Reykv. nefndi, hafi stjórnendur spítalans hugsað sér að sjá fyrir á annan hátt en með þeim fjárveitingum sem við vorum beðnir um.