Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:26:18 (3094)


[22:26]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér láðist hreinlega að svara þessari spurningu hv. þm. Það er nú þegar farið að reyna á ákvæðin sem voru lögleidd um undirboð. Að vísu ekki gagnvart skipasmíðaiðnaði heldur gagnvart annarri starfsemi og mál skipasmíðaiðnaðarins í þessum efnum er nú til meðferðar. Kærur frá samtökum skipasmíðastöðva, ég vænti þess að úrskurður í þeim efnum komi mjög fljótt. Þarna er sem sagt um tvenns konar efni að ræða. Annars vegar þær aðgerðir sem ég greindi frá og gilda gagnvart aðilum innan hins Evrópska efnahagssvæðis þar sem íslenskur skipasmíðaiðnaður stendur nú á sömu stoðum og samkeppnisaðilarnir þar. Hins vegar eru það aðilar sem eru utan hins Evrópska efnahagssvæðis eins og skipasmíðastöðvar í Póllandi. Þar eru það hin nýju lög um aðgerðir gegn undirboðum sem koma til með að virka og þau munu gera það. Hins vegar tekur það einhvern tíma að marka upphafið að þeirri göngu sem verið er að vinna að í fjmrn. og í samvinnu við iðnrn. um þessar mundir. En ég er ekki í nokkrum vafa um að það kerfi mun virka til að bæta hag íslenska skipasmíðaiðnaðarins ekki síður en það samkomulag sem ég gerði grein fyrir hér áðan og varðar EES-svæðið.