Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 16:58:52 (3177)


[16:58]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. er hinn 27. des. að tala um tilboð við sjúkraliða sem átti að ná til áramóta og það er enn verið að bíða eftir svörum. Þetta gengur náttúrlega ekki. Ábyrgð ríkisins í þessum málum sem atvinnurekanda og eiganda sjúkrastofnana í borginni, sem þetta verkfall bitnar harðast á, er náttúrlega alveg gífurleg. Það er ekki hægt að vera bara í einhverju skák og mát og að bíða endalaust eftir svörum. Ég skora á hæstv. fjmrh. að eiga frumkvæði að nýju tilboði í samvinnu við borgina. Það er alveg augljóst að þetta tilboð sem liggur fyrir getur ekki gengið. Árið er að verða búið. Þetta mál er af þeirri stærðargráðu og er svo alvarlegt og bitnar svo illa á gömlu og veiku fólki að þetta getur ekki gengið lengur. Ég skora á hæstv. fjmrh. að skoða málið enn einu sinni og í samráði við borgina að leita nýrra leiða. Það eru komnar hátt í sjö vikur. Þetta getur ekki gengið svona lengur.