Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 19:02:33 (3195)


[19:02]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er alveg rétt að það liggur ekki beint við að leggja saman þessa 11 milljarða og þessa 7 milljarða. (Gripið fram í.) Hæstv. fjmrh. skal nú bara vera rólegur augnablik. En tölurnar báðar eru hins vegar ágætur mælikvarði um það að annars vegar hefur ríkið þurft að sækja sér 11 milljarða á erlendan vettvang og hins vegar hafa streymt úr landi 7 milljarðar vegna verðbréfakaupa erlendis og það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra að það sé allt til þess að greiða niður skuldir. Ég veit ekki betur en t.d. í þeirri tölu séu m.a. kaup á verðbréfum ríkissjóðs erlendis og væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra vildi ekki staðfesta það að í 7 milljarða tölunni eru m.a. kaup á verðbréfum ríkissjóðs erlendis. Ef það er rétt er það auðvitað miklu skarpari gagnrýni á það að leggja tölurnar saman en það sem hæstv. ráðherra var að fullyrða hér áðan og virðist hann ekki sjálfur einu sinni gera sér grein fyrir því hvað er falið í þessari 7 milljarða kr. tölu. Að því leyti væri auðvitað rétt að rifja það upp sem hæstv. utanrrh. sagði við stefnuumræðuna 1993 að þótt Svíar séu með meiri halla hjá sér en við fjármagna þeir hallann alfarið hjá sjálfum sér og það var meginkenning Sjálfstfl. meðan hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hélt á efnahagsmálum fyrir flokkinn að það væri grundvallaratriði fyrir íslenska þjóð að fjármagna hallann á ríkissjóði hjá sjálfri sér með lántökum innan lands. En það virðist sem núverandi forusta Sjálfstfl. hafi ekki áttað sig á þeim mun og geri engan greinarmun á því hvort ríkissjóður fjármagnar sig með erlendum lánum eða innlendum lánum. Staðreyndin er sú að hvort tveggja hefur mistekist, bæði það að fjármagna ríkissjóð innan lands á markaði vegna þess að markaðurinn hefur ekki viljað kaupa verðbréf ríkissjóðs og svo hitt að treysta atvinnulífið þannig í landinu að þeir sem hafa yfir peningum að ráða, einstaklingar og lífeyrissjóðir, kjósi frekar að fjárfesta í íslenska hagkerfinu en að fjárfesta erlendis.