Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 22:09:41 (3213)


[22:09]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég gagnrýndi ekki skýrsluna sem slíka, ég gagnrýndi þær ályktanir sem hæstv. ríkisstjórn dró af skýrslunni. Það er einmitt hárrétt hjá hv. þm. að það að menn sýna að þeir eigi ekki fyrir breytilegum kostnaði þarf ekki að dæma viðkomandi rekstur til dauða. Hann getur átt sér framtíðarvon ef möguleikarnir eru fyrir hendi en það var hins vegar ekki gert í þessu tilfelli. Afleiðingarnar eru kannski eins og hv. þm. man, að það munaði engu, offorsið var svo mikið, að öll lán Framkvæmdasjóðs ríkisins erlendis yrðu gjaldfelld á einu bretti vegna niðurstöðu þessarar skýrslu sem þegar hún barst til okkar lánardrottna eða það sem þeir lásu út úr þessu var það að þetta væri allt á hausnum og Framkvæmdasjóður kominn með öfugan höfuðstól. Það urðu að vera snöggar björgunaraðgerðir í þinginu til þess að forða því að svo færi. En varðandi þessar 300 millj. nefndi ég það í minni ræðu að fyrir tilverknað góðra manna hefði verið hægt að snúa eilítið ofan af þessu þannig að það tókst að grípa til lágmarksaðgerða til þess að atvinnugreinin tóri enn þá.