Um fundarstjórn forseta.

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 23:23:21 (3231)


[23:23]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Nú er búið að ræða utan dagskrár um fundarsköp og stjórn fundarins í nokkuð langan tíma. Ég vil minna á það í upphafi að samkomulag var gert fyrir jól um meðferð málsins og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við það samkomulag verði staðið og málið klárað í kvöld og atkvæðagreiðslunni síðan frestað sem ákveðin var miklu fyrr í kvöld heldur en sú ósk sem kom fram um þingfrestun sjálfstæðismanna.
    Það er rétt sem hefur verið sagt að það var samkomulag í ríkisstjórninni um að fara með málið þessa leið og mér og hæstv. landbrh. var falið að rita nefndinni bréf sem var gert og dagsett 21. des. til formanns efh.- og viðskn. Orðrétt segir þar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér með er leitað eftir því að þingnefndin taki inn í lánsfjárlög fyrir árið 1995 eftirfarandi heimildargrein`` eins og hún birtist í þskj.
    Ástæðan var m.a. sú að sett eru skilyrði með þeim hætti að í sjálfri lagagreininni er sagt að skilyrðin verði sett af fjmrh. og landbrh. en eðlilegt þótti að lýsa þessum skilyrðum bréflega til nefndarinnar þannig að ljóst væri út á hvað þau gengju.
    Ég stóð í þeirri meiningu að þetta hefði verið kynnt í nefndinni fyrir jól. Það er sjálfsagt minn misskilningur að hafa haldið það. Annað hefur komið í ljós. Hún var hins vegar ekki kynnt í þingflokki sjálfstæðismanna þá og sjálfsagt ekki í þingflokki Alþfl. heldur, ég á ekki von á því. Hins vegar hefur hún núna verið rædd í þingflokki sjálfstæðismanna. Það er ekkert því til fyrirstöðu að ræða það mál sem er á dagskrá áfram í kvöld. Það hefur engin beiðni komið frá sjálfstæðisþingmönnum um að fresta umræðunni um það mál sem hér er á dagskrá. Það hefur aðeins verið beðið um að halda þingflokksfund og beðið var um þinghlé og þingflokksfundinum er lokið. Fjórir þingmenn eru formlegir flutningsmenn þessarar tillögu. Þeir hafa ekki afturkallað tillöguna eins og hér hefur verið spurst fyrir um. Það liggur fyrir að staðið verður að tillögunni og engin slík beiðni hefur borist. Þetta liggur allt saman fyrir og ég sé ekki að neitt sé því til fyrirstöðu að þetta mál geti verið rætt áfram. Það hefur engin beiðni komið frá neinum þingmanni Sjálfstfl. um að fresta málinu. Þetta held ég að hljóti að skýra málið nægilega vel til þess að umræða geti haldið hér áfram og henni lokið.