Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:25:04 (3262)


[01:25]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var út af fyrir sig ágætt að fá það fram hjá hv. þm. að hann væri í stjórnarliðinu. Hv. þm. ku ekki sitja þingflokksfundi hjá Sjálfstfl. þannig að á þessu hefur verið nokkur vafi, en þó ekki því ég bendi hv. þm. á að þingmaðurinn hefur umyrðalaust greitt öllum öðrum brtt. stjórnarmeirihlutans í efh.- og viðskn. sitt jáyrði. Umyrðalaust. Ég man ekki betur heldur en hv. þm. hafi einnig greitt atkvæði með öllu bixinu sem var í 6. gr. fjárlaga, tekið þar ábyrgð á öllum veituframkvæmdum á Vesturlandi með einu pennastriki sem enginn veit hvað kostar. Það þýðir ósköp lítið að koma síðan núna upp allt í einu út af þessu máli eftir að vera búinn að taka ábyrgð á hverju einasta atriði í fjárlagagerð og efnahagsráðstöfun þessarar ríkisstjórnar fram að þessu. Ég ætla í sjálfu sér ekkert að fara að verja þessa tillögu því það er búið að koma skýrt fram að þetta er stjórnartill. og hv. þm. segist styðja þessa ríkisstjórn. En ég hlýt þó að benda á það og leiðrétta það sem kom varðandi málflutning aðstoðarmanns landbrh. sem er ekki þekktur að því að fara með fleipur. Aðstoðarmaðurinn taldi sér skylt að vekja athygli á því að þarna væri áhættfé og að sjálfsögðu er þetta áhættufé. Það væri ekki verið að biðja um ábyrgðina öðruvísi. En aðstoðarmaður ráðherra sagði aldrei að þetta væri glatað fé því hann lagði áherslu á það að þetta væri með

bakábyrgð í fiski sem gengi í stöðina árið 1996. Verði rekstrinum haldið áfram út þetta ár þá er það nánast tryggt að það verður sú fiskgengd í stöðina 1996 að það geti dekkað þessa ábyrgð.