Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:09:08 (3299)


[04:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. treystir sér ekki til að svara þeirri meginspurningu sem til hans var beint. Það var enginn að draga það í efa að viðskrh. gæti ekki veitt bankastofnunum fyrirmæli og ég sagði það meira að segja gagngert í minni ræðu hér áðan, að það hefði verið skiljanleg afstaða ef hæstv. viðskrh. hefði þá látið staðar numið. En það gerði bara hæstv. viðskrh. ekki. Og spurningin sem hér var borin fram, ástæðan fyrir því að hæstv. viðskrh. er knúinn til að mæta hér til umræðunnar, er krafa um að fá svar við því hvers vegna hæstv. viðskrh. stendur núna að því með sérstakri tillögu frá ríkisstjórninni að taka eitt fyrirtæki út úr. Það er spurningin sem beint er til hæstv. viðskrh. og henni svaraði hann ekki hér áðan. Hann má flytja hér eins margar jólasveinasögur og hann vill, en það breytir ekki því að hann hefur ekki svarað spurningunni. Og hún er endurtekin hér, hæstv. viðskrh.: Hver eru rökin fyrir því að hæstv. viðskrh. stendur nú að því að taka eitt fyrirtæki út úr? Hafna öllum hinum. Öllum hinum er hafnað. En í fyrsta skipti í mörg ár flytur hæstv. viðskrh. ásamt öðrum ráðherrum tillögu um sérstaka ríkisábyrgð upp á 50 millj., sem er hærri upphæð en þau fyrirtæki sem hér er um rætt hefðu þurft á að halda til þess að geta enn þá verið í eðlilegum rekstri. Spurningin er þess vegna endurtekin, hæstv. viðskrh.: Hvers vegna stendur ráðherrann að því að taka eitt fyrirtæki hér út úr?