Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:25:25 (3308)




[04:25]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hæstv. forseta fyrir það að hafa knúið á um

það að hæstv. viðskrh. kom hér til umræðunnar og ég vil nú beina því til stjórnarliðsins að læra af þessum atburðum hér ákveðna lexíu. Hæstv. fjmrh. og formaður þingflokks Sjálfstfl. og reyndar einnig í hliðarsölum hæstv. forsrh., voru að brigsla okkur stjórnarandstöðuþingmönnum um það að við ætluðum ekki að standa við samkomulagið. Ég held að framganga okkar hér í þessum umræðum bæði gagnvart hæstv. utanrrh., sem einnig var kallaður hingað til að veita ákveðin svör, og nú gagnvart hæstv. viðskrh., sýni að það er á engan hátt hægt að saka okkur um það, en við viljum hins vegar eiga orðastað við þá ráðherra sem málin snerta. Og ef hæstv. viðskrh. hefði einfaldlega verið hér viðstaddur fyrr í kvöld, þá hefði þessari umræðu geta lokið fyrr. Það er auðvitað ábyrgðarhluti hjá hæstv. ráðherrum að vera að halda þannig vöku fyrir þingmönnum að láta þá bíða lengi eftir sér hér þegar þeim þóknast að vakna og koma til fundarins eftir að hafa orðið hugsað til jólasveinanna heima hjá sér alveg sérstaklega.
    Það er svo efnislega innlegg ráðherrans í málið sem ég ætla ekki að ræða hér frekar, en verður auðvitað vikið að síðar, að hann hefur lýst því yfir hér að hann telji þessa tillögu hæpna, mjög umdeilanlega og kunni að koma ríkisstjórninni í koll og það er auðvitað mikilvægt að fá þá yfirlýsingu hæstv. viðskrh. til þessarar sérstöku tillögu sem flutt var hér við 3. umr.