Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:54:19 (3361)


[14:54]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Varðandi þetta mál kom það fram í hv. nefnd að það voru efasemdir um hvort það stæðist stjórnarskrána og okkar ágæti ritari samdi fyrir okkur stutta greinargerð um málið sem varð þess valdandi að nefndin fór fram á það að forsætisnefnd úrskurðaði í málinu. Og ég vil ítreka að það var ávallt talað um að forsætisnefnd úrskurðaði í málinu en ekki forseti sem slíkur.
    Nú hefur það komið fram að það var ekki farin sú leið heldur var það forsetinn einn og sér sem úrskurðaði og það var einfaldlega ekki það sem nefndin fór fram á. Ég vil þá ítreka þá ósk mína að það verði forsætisnefnd sem geri það enda hefur komið núna fram í máli eins varaforseta þingsins að skiptar skoðanir eru innan forsætisnefndarinnar. Ég tel því grundvallaratriði að nefndin sem slík fjalli um málið og komist að niðurstöðu. Síðan hefur forseti þingsins lokaorðið í því efni ef menn ná ekki saman.
    Þá vil ég einnig gagnrýna að þegar málið var afgreitt út úr hv. nefnd var það með því fororði að niðurstaða væri fengin frá forsætisnefnd áður en þingskjölum yrði dreift hér inni þannig að hægt væri að

fjalla frekar um málið í ljósi þeirrar niðurstöðu sem þá kæmi fram. Við þetta var ekki staðið. Þingskjölunum var dreift strax og þess vegna erum við núna komnir í þá stöðu sem blasir við okkur. Ég tek því undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að eðlilegt sé að það gefist núna kostur fyrir nefndina að hittast, að halda stuttan fund og gert yrði þá hlé á fundinum eða farið í einhver önnur mál á dagskránni.