Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 15:18:35 (3372)

[15:18]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það liggur við að manni verði orðfall við upphaf þessa máls eftir þá umræðu sem hér átti sér stað áðan og eftir að hafa fylgst með þeim. vinnubrögðum sem hér hafa verið tíðkuð á undanförnum dögum. Eins og ég segi, manni verður nánast orðfall og það er erfitt að átta sig á því hvað á eiginlega að gera við þessum ósköpum því að mínum dómi þá er hér verið að ganga mjög nærri stjórnarskránni. Það er auðvitað erfitt að fella dóm um þetta lagasafn eða lagasamtíning sem er að finna í frv. Það er erfitt að fella dóm án þess að hafa skoðað það rækilega. En í mínum huga er það alveg ljóst að hér er verið að tína inn í þetta frv. alls óskyld mál milli 1. og 2. umr. við meðferð málsins í nefnd. Ég vil undirstrika það að ég tel að við séum hér komin inn á mjög hæpnar brautir.
    Menn eru að spyrja um það hvort nefndin hafi skoðað þetta og skoðað hitt. Ég verð bara að lýsa því hér yfir, hæstv. forseti, að það hefur einfaldlega ekki gefist tími til að skoða eitt eða neitt. Þetta frv. kom fram einhvern tímann upp úr miðjum desember og við höfum haft örfáa daga til þess að fara ofan í það. Einstakir kaflar voru sendir til viðkomandi nefnda sem héldu, að því er ég held, einn fund til að fara í gegnum málið og reyndu auðvitað sitt besta. En eins og við vitum liggur oft meira á bak við málin heldur en við sjáum við fyrstu sýn. Þannig að því miður er hér enn einu sinni verið að endurtaka þessi óvönduðu vinnubrögð.
    Þetta er okkur til vansa, því miður og ég verð að segja það að mér finnst alveg hörmulegt að þurfa að taka þátt í þessu.
    Ég ætla þá að mæla fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. --- Virðulegi forseti, ég óska þess að hæstv. heilbrrh. mæti til fundar. Ég þarf að leggja fyrir hann spurningar og það er eitt meginmál þessa frv. sem snertir hans ráðuneyti. Er hann í húsinu?
    ( Forseti (KE) : Forseti sér að hæstv. heilbrrh. er ekki í húsinu. Eftir þeim upplýsingum sem forseti hefur er hann ekki heldur í Reykjavík.)
    Virðulegi forseti, nú fellur mér allur ketill í eld. Er virkilega meiningin að við ræðum þetta frv., sem reyndar heyrir undir hæstv. forsrh., það var hann sem mælti fyrir þessu máli, en hann er ekki í salnum. En það er eitt meginefni þessa frv. og það mál sem hefur valdið hve mestum deilum og ég ætla að gera að umfjöllunarefni, snertir héraðslækna í Reykjavík og á Norðurlandi eystra og það er algjörlega óhugsandi að ræða þetta mál án þess að fá að heyra sjónarmið hæstv. heilbrrh. Ég fer þess á leit að fresta ræðu minni þangað til hæstv. heilbrrh. kemur hingað. Það er ekki nokkur leið að ræða þetta mál. Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta að það verði kannað hvenær von er á hæstv. heilbrrh. Ég ætla líka að biðja um staðgengil félmrh., sem ég reyndar veit ekki hver er. Ég óska bara eftir hléi á fundinum, ég vil fá að ræða þetta við forseta þingsins.
    ( Forseti (KE) : Hæstv. forsrh. er í húsinu og forseti skal gera honum viðvart að hans sé óskað.

Upplýst er að hæstv. heilbrrh. er væntanlegur milli kl. fjögur og fimm þannig að spurningin er hvort hv. þm. getur haldið áfram ræðu sinni og rætt við hæstv. forsrh. þangað til hæstv. heilbrrh. kemur í húsið.)
    Nú er úr vöndu að ræða, hæstv. forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið fyrir þá kafla sem ekki heyra undir hæstv. heilbrrh. Ég ítreka það að þetta er eitt stærsta málið hér sem að honum snýr og þó það sé ekki um mikla peninga að ræða þá er þetta mál sem snertir m.a. alla borgarbúa og það hafa komið fram mótmæli bæði frá Reykjavíkurborg og borgarráði og heilsugæslustöðvum Reykjavíkur. Það er algjörlega óhugsandi að ljúka 2. umr. um þetta mál án þess að hæstv. heilbrrh. komi hér í salinn. Ég skal verða við því að halda áfram ræðu minni og taka fyrir þá þætti sem snúa að öðrum liðum, en ég verð síðan að fá að fresta ræðunni.
    Ég lýsi því yfir, hæstv. forseti, að þetta er algjörlega óviðunandi. Hvernig stendur á því að það er verið að gera samkomulag um afgreiðslu mála? Ríkisstjórnin leggur áherslu á það að þessi mál séu afgreidd á milli jóla og nýárs, það er verið að kalla fólk hingað utan af landi í þessa umræðu og svo geta hæstv. ráðherrar ekki verið viðstaddir þessa umræðu. Þetta er frv. sem er samsett úr mörgum lagabálkum. Þetta heyrir undir menntmrh., félmrh., heilbrrh., samgrh. og fleiri ráðherra, það eru kannski smærri mál. En hvernig dettur mönnum í hug að halda þessari umræðu áfram með þessum hætti? Það gengur alveg yfir mig, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson.
    Ég ætla að verða við því að fara yfir þessa kafla og fresta þá því sem snýr að hæstv. heilbrrh., en ég óska eftir því að hæstv. forsrh. láti svo lítið að vera við umræðuna.
    ( Forseti (KE) : Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að gera hæstv. forsrh. viðvart og væntir þess að hann muni koma fljótlega í salinn.)
    Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég ætla ekki að óska hér eftir menntmrh., ég hef svo oft rætt þennan kafla við hann. Hér er verið að endurtaka og framlengja þær skerðingar til skólamála sem hófust í byrjun árs 1992 og fela það í sér að því er frestað að koma á skólamáltíðum í grunnskólum landsins og því er frestað að fækka nemendum í bekkjum og því er frestað að fjölga kennslustundum. Hér er verið að endurtaka þetta ár eftir ár. Í þessum kafla frv. er um það að ræða að verið er að spara 180 millj. kr. Þetta er að mati okkar stjórnarandstæðinga dýr sparnaður sem hér er á ferð. Hér er verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, þ.e. grunnskólabörnin. Þetta kemur fyrst og fremst niður á þeim. Og það er afar sérkennilegt og nöturlegt að það skuli enn einu sinni verið að fresta þessum ákvæðum á sama tíma og við erum í hv. menntmn. að fjalla um grunnskólafrv. eða frv. til laga um grunnskóla, þar sem á að færa grunnskólann yfir til sveitarfélaganna og gera á honum margvíslegar breytingar sem munu kosta milljarða til viðbótar við þann kostnað sem nú er lagður í skólakerfið. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að gera þetta og þegar á að færa eitthvað yfir til sveitarfélaganna þá er hægt að breyta og bæta. En þegar ríkið á í hlut þá er nú ekki aldeilis hægt að gera nokkurn skapaðan hlut. Þá er bara skorið og skert. Ég veit ekki hvort sveitarfélögin hafa áttað sig á því hversu mikill kostnaður fylgir frv. til grunnskólalaga, en það er ríkisstjórninni til skammar hvernig að þessum málum er staðið. Við í minni hlutanum mótmælum þessum áformum harðlega enn eitt árið og munum greiða atkvæði gegn þessum tillögum, enda er þetta í hrópandi ósamræmi við yfirlýsta skólastefnu núv. ríkisstjórnar.
    Þá kem ég að kaflanum um málefni fatlaðra, sem felur það í sér að það er verið að taka sífellt meira fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og verja því til reksturs á stofnunum fatlaðra í stað þess að þeir peningar fari í framkvæmdir. Hér er um allverulegar upphæðir að ræða og það er ekki hægt annað en að vara við þeirri stefnu sem hér er verið að taka upp og er reyndar verið að innleiða hér í hverjum málaflokknum á fætur öðrum. Þar sem um markaða tekjustofna er að ræða þá er farið þar inn og þeir peningar teknir í rekstur í stað framkvæmda og þetta verður auðvitað að skoða í samhengi við stöðu mála í viðkomandi málaflokkum. Það sama gildir um málefni aldraðra. Hér á eftir kemur kafli sem snertir flugmálaáætlun og þannig mætti lengi telja. Í stað þess að afla fjár þá eru þessir mörkuðu tekjustofnar teknir og þeim varið til annarra mála.
    Á kaflanum um atvinnuleysistryggingar verða nokkrar breytingar samkvæmt tillögum meiri hlutans. Það stóð til að stöðva styrkveitingar til varanlegrar atvinnusköpunar en það var frá því horfið og í stað þess er sett ákveðið þak á styrkveitingar, sem m.a. snerta námskeið sem haldin eru fyrir atvinnulausa. Hér er einnig um að ræða nokkuð furðulegt mál í þessu frv. þar sem er loksins verið að leita heimilda til að greiða atvinnulausu fólki uppbætur samkvæmt kjarasamningum sem gerðir voru á árinu eða í samræmi við kjarasamninga. Þetta er nú enn eitt dæmið um þessi furðulegu vinnubrögð, að ákvörðun sem tekin var og framkvæmd hér á miðju ári, að heimild Alþingis er sótt rétt undir lok ársins. Það er erfitt að átta sig á því hvað þarna veldur og skýring fulltrúa fjmrn. var heldur sérkennileg, en í henni fólgst reyndar að það væri bara ekki seinna vænna.
    Ég ætla þá að hlaupa yfir kaflann um heilbrigðisþjónustuna og geyma mér hann þar til hæstv. heilbrrh. þóknast að heiðra okkur með nærveru sinni. Ég vík þá að flugmálaáætlun sem er býsna umdeilt mál og felur það í sér, sem ég nefndi áðan varðandi málefni fatlaðra, að hér er verið að taka 70 millj. af mörkuðum tekjustofni og það á að verja þeim peningum í rekstur flugvalla og til annarra hluta.
    Þetta mál var sent hv. samgn. til skoðunar og þar kemur í ljós að það er ekki einu sinni meiri hluti í nefndinni sem mælti með þessu heldur sat hv. þm. Egill Jónsson hjá. Það segir í umsögn samgn., með leyfi forseta: ,,Egill Jónsson tekur ekki afstöðu til málsins þar sem ekki liggur fyrir hvaða áhrif breytingar á lögum hafa á flugmálaáætlun og aðrir nefndarmenn, Jóhann Ársælsson, Jón Kristjánsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Stefán Guðmundsson, leggja til að greinar þessar verði felldar brott.``
    Það var því ekki einu sinni meiri hluti í samgn. sem mælti með þessum breytingum og það er hægt að taka undir það sem þarna kemur fram, að það er alls ekki ljóst hvaða áhrif þessar breytingar hafa á flugmálaáætlun. Hvar á að skerða, hvaða framkvæmdum á að seinka. Því það er augljóst mál að þessar breytingar munu hafa áhrif á flugmálaáætlun og valda seinkun á þeim framkvæmdum sem þegar var búið að ákveða. Maður spyr sig nú hvað þetta eigi að þýða. Þetta er auðvitað sparnaðarráðstöfun, en spurningin er hvort hún sé skynsamleg. Það verður fróðlegt að heyra í ýmsum þingmönnum sem hafa gagnrýnt þetta harðlega, en það verður að segjast eins og er að þetta er eitt af þessum málum sem hv. efh.- og viðskn. kannaði ákaflega lítið og í mínum huga er það engan veginn ljóst hvaða afleiðingar þetta ákvæði mun hafa.
    Þá kem ég að þeim kafla sem gengur undir heitinu ,,þrátt-fyrir``-greinarnar, þar sem ægir saman skerðingum af ýmsu tagi úr ýmsum áttum og einnig þar hafa orðið verulegar breytingar frá frv. Þá er það fyrst að nefna að eftir að framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs heimsótti fjárln. og lét um þá falla ummæli sem greinilega höfðu nú áhrif þá var ákveðið að hækka framlagið um 20 millj. kr. til Kvikmyndasjóðs. ( Gripið fram í: Hver voru þau?) Ummælin? Hún kallaði þá sveitalubba, sagði að það væru eintómir sveitalubbar sem sætu í fjárln. og það dugði á þá. Þeir tóku það nærri sér og hækkuðu framlögin til Kvikmyndasjóðs. Að vísu er sagt að þeir hafi ætlað að hækka framlögin enn þá meira en að ummælin hafi haft þau áhrif að þeir hafi lækkað þau og hv. 1. þm. Vesturl. getur kannski upplýst okkur um hvað satt er í þessu. ( StB: Það skal ég gera með glöðu geði.) En svo mikið er víst að horfið var frá því að skerða Kvikmyndasjóð jafnmikið og áætlað hafði verið og við fögnum að sjálfsögðu þessari breytingu því kvikmyndagerð í landinu skiptir verulegu máli. Hún er atvinnuskapandi, hún er framlag til okkar menningarlífs og hún er gott innlegg í að kynna Ísland og íslenska menningu fyrir öðrum þjóðum. Þannig að það ber að fagna því að horfið var frá þessari skerðingu.
    Við í hv. efh.- og viðskn. létum kalla á fulltrúa menntmrn. til að fræðast um bókhlöðuskattinn og hvað ætti nú að gera við hann. Það kemur hér fram að í fyrsta lagi á að verja 40 millj. kr. af þessum skatti til reksturs Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns. Þarna er um að ræða enn einn markaðan tekjustofn sem áætlað var að verja til ákveðinna hluta og hér er farin sú leið að taka hluta af þeim peningum í rekstur safnsins. Það er auðvitað spurningin hvort menn ætla að halda því áfram því það er alveg ljóst að þörfin fyrir þennan sjóð og til endurbóta á menningarbyggingum er alveg gífurlega mikil. Við vitum að Þjóðminjasafnið þarf hundruð millj. til sinnar endurreisnar, Þjóðskjalasafnið þarf hundruð millj. til að því verði komið í horf og loks hefur hinn nýi listaháskóli verið nefndur í þessu samhengi og verið bent á þennan sjóð sem hugsanlegan stað þar sem hægt væri að leita peninga til þeirra endurbóta. Þannig að þörfin er gríðarlega mikil. ( Gripið fram í: Þarf ekki lagabreytingu?) Jú, ég hygg að það þurfi lagabreytingu. Að vísu heita lögin lög um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga og það hefur verið gengið í þennan sjóð áður og m.a., ég hygg að það hafi verið fyrir tveimur árum, var hluta þessa fjár varið til endurbyggingar á Bessastöðum. Þannig að þetta er ekki undantekningalaust. En auðvitað á Alþingi að skoða þessi lög og huga að því hvernig eigi að beita þessum sjóði.
    Fjárln. varð líka við beiðnum um að skerða ekki listskreytingasjóð. Hann fékk nokkrar bætur á fjárlögum, en áætlað var að leggja framlög til hans algjörlega niður.
    Að þessu sinni höfðum við ekki tíma til að skoða málefni útvarpsins eins og vert hefði verið. Við kölluðum fulltrúa útvarpsins á fund efh.- og viðskn. í fyrra og þá kom í ljós að heldur betur var þörf fyrir Framkvæmdasjóð útvarpsins sem ríkissjóður hefur gleypt ár eftir ár og Ríkisútvarpið þar af leiðandi fengið lítið fjármagn til framkvæmda. En það er alveg ljóst að það þarf að bæta dreifingarkerfið og það stendur til að Ríkisútvarpið yfirtaki mastrið á Gufuskálum og það kostar auðvitað allt mikla peninga.
    Þá kem ég að 14. gr. þessa frv., um framlög ríkissjóðs í Húsafriðunarsjóð. Það fékkst reyndar nokkur hækkun á upphæðum til húsafriðunar á fjárlögum. Þeim peningum á fyrst og fremst að verja til endurbóta á Húsinu á Eyrarbakka. Það er auðvitað af hinu góða, en það er alveg ljóst að þörfin til húsafriðunar og til endurbygginga á gömlum húsum er gríðarlega mikil og við hljótum að benda á það í því samhengi að þarna er um verkefni að ræða sem eru gríðarlega atvinnuskapandi. Þarna er hægt að verja tiltölulega litlum peningum til mikillar atvinnusköpunar. Þannig að hér er nú heldur betur verið að fara rangar leiðir, auk þess sem við vitum að mörg gömul hús liggja undir skemmdum og Þjóðminjasafnið og Húsafriðunarsjóður hafa alls ekki nægjanlegt fé til að sinna þeim verkefnum sem þeim ber að sinna. Ég get enn einu sinni rifjað upp stöðu torfbæjanna úti á landi og það er hægt að nefna hús víða um land og við fengum einmitt í hendur skýrslu Húsafriðunarsjóðs þar sem bent er á mörg þau verkefni sem þarf að sinna.
    Ég ætla ekki að nefna hér mörg fleiri mál. Ég vil þó ítreka enn einu sinni þessa undarlegu pólitík sem speglast í 25. gr., þar sem um það er að ræða að skerða fjármagn til Ferðamálasjóðs þrátt fyrir gífurlega þörf hans og þrátt fyrir þann vaxtarbrodd sem er í ferðaþjónustu á landinu. Það er ljóst að þarna er gríðarlega mikilla úrbóta þörf og einnig þarna er um verkefni að ræða sem geta haft í för með sér mikla atvinnusköpun. Að vísu var samþykkt örlítil aukafjárveiting, 5 millj. kr., á fjárlögum, til ferðamála, til gerðar göngustíga og vissulega ber að fagna því. En það er auðvitað sáralítið og mætti beina þeim tilmælum til hæstv. forsrh. þegar farið verður að skoða atvinnusköpun og það hvernig á að verja þeim peningum sem bensínskatturinn á að skila og aðrar fjárveitingar til atvinnusköpunar, hvort ekki er hægt að skoða í því samhengi ýmislegt sem tengist ferðamálum og ferðamannastöðum.
    Virðulegi forseti. Eins og komið hefur skýrt fram í dag þá er hér einnig um að ræða brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. sem ekki var að finna í frv. og hafa komið inn á milli 1. og 2. umr. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa aðferð sem hér er beitt og orkar mjög tvímælis séð út frá stjórnarskránni en aðeins að koma inn á þessi mál efnislega. Við í minni hluta efh.- og viðskn. erum fylgjandi þeim breytingum sem verið er að gera á almannatryggingunum en megininntak þessara breytinga er það að þær húsaleigubætur sem teknar verða upp á næsta ári verði ekki til þess að skerða aðrar bætur, nóg er nú samt. Að vísu kom fram á fundi nefndarinnar að það fólk sem nú þegar nýtur húsaleigustyrks og fær húsaleigubætur þar verður skerðing á, það er ekki meiningin að fólk fái tvöfaldan húsaleigustyrk. Síðan er um það að ræða að verið er að leiðrétta uppæðir í samræmi við breytingar á verðlagi og einnig að færa til dagsetningar við greiðslur bóta til fyrsta dags hvers mánaðar sem vissulega er til bóta fyrir þá sem fá sínar bætur frá almannatryggingunum. Þær breytingar sem hér er verið að gera á lögum um félagslega aðstoð eru einnig samhljóða. Þar er sama málið á ferð. Síðan er hér nýr kafli sem varðar breytingu á lögum um skipulag ferðamála og ræðst af þessari hækkun sem ég nefndi áðan sem samþykkt var við 3. umr. fjárlaga. Síðan kemur þessi nýi kafli og alveg óskyldur og kemur ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekkert við, um breytingu á lögum um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Eftir því sem ég best fæ séð þá er hvergi neitt um þetta að finna í fjárlögunum. Þarna er um það að ræða að innheimta gjald þegar dýralæknar eru að skoða sláturafurðir. Hér er verið að kveða á um það í lögum en þetta kemur ríkissjóði ekki nokkurn skapaðan hlut við eftir því sem ég best fæ séð.
    Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi áðan þá neyðist ég til að fresta ræðu minni vegna fjarveru hæstv. heilbrrh. En ég vil þó aðeins fara í þetta mál sem ég vil ræða við hann fyrst hæstv. forsrh. er mættur þar sem svo vill til að hann er 1. þm. Reykv. Nú veit ég ekki hvort hæstv. forsrh. hefur sett sig inn í þetta mál en það er þannig vaxið að meiningin er að leggja niður embætti héraðslæknis í Reykjavík og héraðslæknisins á Norðurl. e. Það hefur komið í ljós við skoðun á þessu máli að ekkert samráð hefur verið haft við borgaryfirvöld um þetta mál. Það hefur ekkert samráð verið haft við heilsugæsluna í Reykjavík og samkvæmt þeim bréfum sem við þingmenn Reykjavíkur höfum fengið þá leggst bæði borgarstjórn eða borgarráð, sem hefur sent frá sér samþykkt um þetta mál, gegn þessari breytingu og það sama gildir um heilsugæslulæknana í Reykjavík og samráð heilsugæslusöðvanna hér í borginni svo og þann mann sem nú gegnir embætti yfirlæknis eða héraðslæknis í Reykjavík.
    Málið er það, hæstv. forsrh., að hér er á ferð rétt ein tillagan ættuð úr heilbr.- og trmrn. þar sem verið er að stinga upp á einhverjum handahófskenndum niðurskurði án þess að málið hafi verið kannað og án þess að nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma þeim verkefum fyrir annars staðar sem þessi embætti sinna. Það er ekkert lítið sem þessi embætti sinna. Héraðslæknirinn í Reykjavík er t.d. fulltrúi í almannavarnanefnd borgarinnar, hann hefur umsjón með sóttvörnum í borginni, hann tekur á málefnum einstaklinga sem hér koma upp, t.d. geðsjúkra, áfengissjúklinga, þegar um nauðungarvistun er að ræða. Hann er kallaður til þegar dauðsföll verða úti í bæ og samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á nefndarfundi þá fer slíkum dauðsföllum fjölgandi, m.a. vegna þess að fólk er útskrifað fyrr af sjúkrahúsum en áður og því miður kannski stundum of snemma. Það er náttúrlega ýmislegt fræðilegt sem héraðslæknirinn sinnir, skýrslugerð og samantekt um heilsufar í borginni. Hann er kallaður til þegar um einhvers konar réttarlæknisfræði er að ræða og það er alveg ljóst af þessari upptalningu að hér er um viðamikið starf að ræða. Það er ekkert hægt bara að leggja þetta embætti niður og ætla að ráða einhvern heilsugæslulækni í 20% starf til að sinna þessu. Við hljótum að spyrja: Hvaða sparnaður næst í raun? Það hefur ekki verið sýnt fram á að það náist nokkur einasti sparnaður. Fulltrúar heilbrrn. segja: Við viljum gjarnan að hluti af þessu fari til landlæknis. Við viljum gjarnan að lögreglan taki yfir þau verkefni sem undir hana heyra og hún ráði sér lækni sem sinni t.d. dauðsföllum eða mannsdrápi eða slíku sem upp kemur í borginni og þar sem kalla þarf á úrskurð. Ég hef reyndar gleymt að nefna það hér að héraðslæknirinn í Reykjavík úrskurðar hvenær þurfi t.d. að opna líkkistu, hvenær megi brenna lík o.s.frv. Þetta er býsna sérhæft. Ég átti samtal við einn af heilsugæslulæknum borgarinnar, sem reyndar er formaður stjórnar læknavaktarinnar í Reykjavík, því ein af hugmyndum heilbrrn. er að koma hluta af þessu yfir á læknavaktina. Þeir hjá læknavaktinni í Reykjavík segja að þessi verkefni sem héraðslæknirinn í Reykjavík hefur sinnt falla ekki að því sem þeir eru að gera. Læknavaktin er þannig skipulögð að læknar skiptast á og menn eru kannski á örfáum vöktum á mánuði og hér er um slík sérverkefni að ræða að menn væru alltaf byrjendur. Auk þess hefur verið bent á að það er bara ekki við hæfi að landlæknisembættið fari að sinna einhverjum úrskurðarmálum og sérstökum málum sem upp koma í Reykjavíkurlæknishéraði. Landlæknir er æðsta úrskurðarvald í málefnum lækna og í ýmsum heilbrigðismálum og þessi breyting, ef verkefnin yrðu færð yfir til landlæknis, þýddi það einfaldlega að hann sæti beggja vegna borðsins. Það verður ekki annað séð en að með þessu yrði að koma einhvers staðar upp bakvakt eða einhvers staðar yrði að vera bakvakt allar nætur til að sinna þessum verkefnum. Minni hluti efh.- og viðskn. leggur til að þessu máli verði frestað. Þarna er um sáralítinn sparnað að ræða, það hefur á engan hátt verið gengið frá því hvar þessum verkefnum verði sinnt, þetta er gert í andstöðu við borgaryfirvöld, sama hvort þar er um minni hluta eða meiri hluta borgarstjórnar að ræða, og þetta er gert í andstöðu við þá sem stjórna heilbrigðismálum í borginni, heilsugæslulækna. Ég ætla að geyma mér það að fara í gegnum öll þessi bréf sem okkur hafa borist þangað til hæstv. heilbrrh. mætir til fundarins. En það er alveg ljóst að hér er um vanhugsaða tillögu að ræða og það getur ekki verið ætlun okkar með einhverjum smá sparnaði að rýra þjónustu við borgarbúa. Það er það sem málið snýst um. Það verður algjörlega óljóst hvar þessari þjónustu verður komið fyrir. Það er mergurinn málsins. Það má vel vera að það sé réttlætanlegt að endurskoða þetta skipulag læknisþjónustunnar í borginni en það er verið að gera þetta algjörlega vanhugsað og óundirbúið. Við þingmenn Reykjavíkur hljótum líka að spyrja: Hvar á yfirsýnin í heilbrigðismálum borgarinnar að vera? Ef þetta embætti verður lagt niður þá er hún einfaldlega hvergi. Hugsanlega í þessu samráði heilsugæslustöðva sem ég reyndar þekki ekki til og veit ekki hvaða verkefnum sinnir nákvæmlega eða hvað oft það hittist. En það er alveg augljóst mál að verði þetta embætti lagt niður þá verður auðvitað að endurskoða skipulag heilbrigðismála í borginni.
    Allra síðast, hæstv. forseti, vil ég undirstrika að það gildir allt annað um 100.000 manna borg heldur en bæi úti á landi með kannski nokkur þúsund íbúa þar sem menn vita hver heilsugæslulæknirinn er og menn vita hvert á að leita ef aðstoðar er þörf en málið horfir allt öðruvísi við hér. Hér er engin bakvakt á heilsugæslustöðvum. Það eru bara læknavaktir sem hægt er að leita til og hingað til hefur verið hægt að leita til héraðslæknis, áður borgarlæknis. Þannig að hér er um stórt mál að ræða. Það er ekki um miklar fjárupphæðir að ræða og við eigum að fresta þessu, skoða þetta mál miklu betur og sjá hvernig við getum komið heilbrigðisþjónustunni í Reykjavík betur fyrir.