Útflutningur hrossa

71. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 21:36:29 (3391)

[21:36]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki sökkt mér niður í þetta frv. sem hér er á dagskrá um útflutning hrossa. En þegar ég varð þess var að þeir menn í landbn. sem ég treysti jafnvel enn betur en formanni nefndarinnar voru fjarri afgreiðslu málsins þá fannst mér ástæða til að renna aðeins yfir textann áður en hann yrði afgreiddur sem lög frá þinginu. Ég verð að segja það að mér finnst ýmislegt í þessu frv. allkynduglega orðað og fram sett og vil koma því áliti mínu á framfæri. Ýmislegt af því sem hér er verið að lögleiða finnst mér þarflaust að leiða í lög. Og það er ekki svo, að ég best fæ séð, að það sé hið títtnefnda EES hér á Alþingi Íslendinga sem skyldar okkur til þess að færa þetta í lög sem hér er sett á blað, eins og er um margt af því og meiri hlutann af því sem er borið hér fyrir Alþingi á þessu haustþingi og raunar enn frekar á síðasta þingi, heldur er þetta sjálfdæmi um þetta að ég best fæ séð.
    Mér virðist vera mikið álitamál hvort þurfi að lögleiða t.d. ákvæði um útflutning, hvort hann er með skipum eða flugvélum og dagsetningar í því sambandi. Er mér þó ljóst að þar er um að ræða dýraverndarsjónarmið sem menn eru að halda til haga og síst skal ég hafa á móti því að bærilega sé með skepnurnar farið. Hér er tiltekið nákvæmlega aldur hrossanna sem flytja megi úr landi og hvað þá kynbótahross sem einungis má flytja í flugvélum samkvæmt ákvæðum 1. gr.
    Það er líka torvelt að skilja, virðulegur forseti, ákvæði í 2. gr., þ.e. hverjir það eru sem eiga að kveða upp úr um það hvort hross séu heilbrigð og rétt sköpuð. Ég fæ ekki séð að það sé í rauninni neinn tilkvaddur til að skera úr um þau atriði og spurning hver á að hafa sjálfdæmi um það eða hver á að taka að sér að skera úr um slíkt. Síðan er sagt að þau skuli merkt með þeim hætti að ekki verði um villst. Hvað er verið að segja hér? Hver á að meta það? Hvers konar merkingar eru það? Það þarf væntanlega reglugerðarákvæði um þetta atriði þó að ekki sé nánar á því tekið hér samkvæmt frv.
    Síðan er í 4. gr. frv., ég læt nú vera 3. gr. Fyrir mér er að vísu flutningsfar ekki mjög gagnsætt orð en það er sjálfsagt títt notað í sambandi við þennan útflutning. Ég ætla ekki að finna að því út af fyrir sig. Það er enginn sérstakur agnúi á því sem nýyrði eða sem orði í íslensku máli. En í 4. gr. er verið að lögleiða vottorðakerfi frá Búnaðarfélagi Íslands, sem ég veit ekki betur en verið sé að leggja af núna um áramótin, Búnaðarfélagið, sjálfviljugt að afmunstra sig og á að stofna ný samtök. Þannig að þetta mál þarf greinilega að taka upp þegar í byrjun næsta árs til þess að færa það til samræmis við þá ákvörðun sem bændasamtökin hafa tekið. Það er verið að leggja til að það fylgi hrossum sem flutt eru úr landi vottorð frá Búnaðarfélagi Íslands sem staðfesti uppruna hrossins og ætterni. Innlendir hrossaræktendur og samtök þeirra eigi forkaupsrétt að úrvalskynbótagripum sem áformað er að flytja úr landi og Búnaðarfélagið á að hlutast til um að eftir forkaupsréttinum sé óskað og að það sé við það staðið eða að það sé hægt að óska eftir því að frestað verði útflutningi, af Búnaðarfélaginu, sem á að leggja af núna um áramótin.
    Síðan er gjaldakerfið samkvæmt 5. gr. með útflutningsgjald sem verið er að kveða á um hversu hátt megi vera og deila á milli tveggja sjóða, stofnverndarsjóðs íslenska hestakynsins. Það er mikið orð og merkilegt heiti á þeim sjóði, stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins, en hlutverk hans er sjálfsagt ágætt og á að skipta því milli hans og Búnaðarmálasjóðs. Síðan segir í niðurlagi 5. gr.: ,,Reikninga sjóðsins skal birta árlega í Stjórnartíðindum og þeir endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun.`` Það er ekki sagt hvað eigi að gerast á undan, hvort það séu endurskoðaðir reikningar sem eigi að birta í Stjórnartíðindum eða hvort Ríkisendurskoðun á að taka til við þetta eftir að þeir hafa verið birtir.
    Þetta er svona dæmi, virðulegur forseti, um ýmsa vansmíð og fljótaskrift í þessu máli, fyrir utan það að ég neita því ekki að mér finnst að sitthvað af því sem hér er verið að lögbjóða þurfi tæpast að lögleiða og væri betur að því verði ráðið á milli þeirra sem að þessu standa og ekki ástæða til þess að færa það í lög og þar á meðal að kveða á um hlutverk fyrir Búnaðarfélag Íslands, sem verður væntanlega ekki til á næsta ári og þyrfti málið þá að takast upp.

    Ég er með þessum orðum, virðulegi forseti, ekki að leggjast gegn því að hér séu sett lög um þau efni sem nauðsynlegt er í sambandi við útflutning hrossa. En þegar ég fór að skoða málið frekar vegna þess að fulltrúi Alþb. í landbn. var ekki við athugun málsins, var fjarverandi afgreiðslu þess úr nefndinni, þá finnst mér að þarna hefði mátt betur að standa í vissum atriðum og vildi láta þetta koma fram hér.