Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:42:11 (3426)


[14:42]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er að mínu mati eitt af þeim mikilvægari sem Alþingi fjallar um á þessu þingi og hugsanlega á þessu kjörtímabili. Það samkomulag sem náðist í gær er þess vegna að mínu mati afar mikilvægt og ég hlýt að fagna því því það er einu sinni þannig að það er að mínu mati æskilegt að í stærri utanríkismálum nái menn sem breiðastri samstöðu.
    Ég hrökk svolítið við fyrir nokkrum vikum þar sem ég var staddur vestur í Washington í kjölfar kosninga þar til þings og fylgdist þar nokkuð með þeirri umræðu í sjónvarpi. Sú umfjöllun náði m.a. til þess að það var viðtal við starfsmannastjóra Hvíta hússins, sem ég á reyndar alltaf jafnerfitt með að skilja og átta mig á að sé einn af valdamestu mönnum Bandaríkjanna. Þetta var sömu dagana og hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. voru á Norðurlandaþingi í Tromsö og við sem vorum þarna fyrir vestan vorum að fá í fréttaskeytum yfirlýsingar þeirra um utanríkismál, mikilvæg utanríkismál, sem gengu út og suður. Maður gat eiginlega ekki áttað sig á því eða skilið að þetta væru aðilar sem sætu saman í ríkisstjórn. En þetta ber upp á sama tíma og ég horfi á þetta viðtal við starfsmannastjóra Hvíta hússins og hann segir að það sé engin nýlunda að það standi ekki sami meiri hluti á bak við bandaríska þingið og forsetann, þetta hafi þeir lifað við oftsinnis og komist bara þokkalega frá. En hann bætti síðan við: Það er hins vegar eitt sem má ekki gerast og það er það ef við hættum að tala einum rómi út í frá í mikilvægum utanríkismálum.
    Þetta viðtal hefur setið dálítið fast í mínum huga og ekki síst af því að þetta féll einmitt í tíma saman við fræga ferð þessara tveggja ráðherra, sem eru náttúrlega þeir sem eiga að leiða utanríkismálaumræðuna, fræga ferð þeirra á Norðurlandaþing í Tromsö. Og leiðir hugann að því að við erum núna, og náðum samkomulagi í gær, kannski fyrst og fremst fyrir forgöngu stjórnarandstöðunnar og ef ég veit rétt þá er það að tillögu hv. 2. þm. Suðurl. að sú leið var farin sem þarna var gert varðandi það að breyta sjálfum tillögutextanum í staðinn fyrir þá yfirlýsingu sem annars lá í loftinu og yrði gefin samhliða þessari staðfestingu. Þá stöndum við í þeirri stöðu að vegna stöðugs ósamkomulags, ekki milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur milli stjórnarflokka og einstakra ráðherra, þá er þetta ár að fara í súginn án þess að menn hafi unnið heimavinnuna sína vegna GATT-samkomulagsins. Okkur var tilkynnt á síðasta vetri að það væri búið að setja á laggirnar fimm ráðuneyta nefnd sem ætti að vinna heimavinnuna og nú vil ég ekki gagnrýna þá nefnd eða þá embættismenn því að sjálfsögðu geta þeir ekkert unnið nema þeir fái hina pólitísku forskrift eftir hverju á að vinna. Sú pólitíska forskrift kom aldrei. Það kom rækilega í ljós við 1. umr. þessa máls. Þegar gengið var eftir einstökum atriðum, til að mynda varðandi lágmarksaðgang í landbúnaði og fleiri atriði, þá voru ráðherrar ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh., algjörlega blankir í málinu. Það eina sem kom þó fram bitastætt var frá hæstv. utanrrh. sem var í þá veru að þetta ætti að leysa með einhvers konar bingó-lottói og færi það kannski vel á því að það yrði gert á laugardagskvöldum á Stöð 2. En því miður stöndum við frammi fyrir þessu. Að mínu mati er það hins vegar skylda Alþingis að bregðast við á þann hátt sem nú er verið að gera og að ganga frá samþykkt samningsins því ég tel það afar mikilvægt að við verðum með sem stofnaðilar að nýju alþjóðatollamálastofnuninni.
    En forsagan er þessi að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um málið. Ég ætla í sjálfu sér ekki að feta í fótspor þeirra sem hér hafa talað og skellt þeirri skuld alfarið á hæstv. utanrrh. Að sjálfsögðu ber hann mikla ábyrgð í utanríkismálum og fer með þau en menn skulu ekki gleyma því að það er hæstv. forsrh. sem leiðir ríkisstjórnina og að mínu mati er það fyrst og fremst á ábyrgð hans að þetta mál er ekki komið lengra en raun ber vitni þegar við staðfestum GATT-samkomulagið hér vonandi á þessum degi.
    Auk þess sé ég ekki ástæðu til þess að eyða mörgum orðum á hæstv. utanrrh. út af þessu máli því mér sýnist að sá maður með sínum kostum og göllum sé að spila sig út úr íslenskri pólitík innan nokkurra vikna. Ég sé því ekki ástæðu til þess að vera hér að velta honum upp úr þessu máli frekar en bendi á að ábyrgðin á því að ekki er komið lengra varðandi nauðsynlegar lagabreytingar hlýtur að vera á herðum verkstjóra ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh.
    Ég flutti nokkuð ítarlega ræðu um viðhorf mín gagnvart alþjóðaviðskiptum og GATT við 1. umr. þessa máls og þarf í sjálfu sér ekki að endurtaka það. Ég ætla þó að fara hér orðum um nokkra þætti sem að þessu lúta.
    Það er þá fyrst gagnvart landbúnaðinum. Það er alveg rétt að þessi lota GATT-viðræðnanna hvað okkur snertir hefur væntanlega mest áhrif hérlendis gagnvart landbúnaði. Það er hins vegar annað mál að tollasamkomulagið sem slíkt í heild hefur á umliðnum árum lagt grunninn að okkar utanríkisverslun og okkar útflutningi. Ég er ekki alveg sammála því sem hæstv. forsrh. sagði í dag í stuttri en annars ágætri ræðu að hér væri fyrst og fremst um að ræða hagsmunamál neytenda á Íslandi. Ég býst við að hæstv. forsrh. hafi sett þetta fram í ákveðnum pólitískum tilgangi og það hafi átt að þjóna tilgangi sem slíkt, en mín skoðun er sú að GATT-samkomulagið sé fyrst og fremst fyrir okkur Íslendinga, svo mikil útflutningsþjóð sem við erum, fyrst og fremst hagsmunamál okkar útflutningsatvinnuvega. Ég hef ekki séð enn þá hvernig hið nýja GATT-samkomulagi um landbúnaðarmál og matvælaframleiðslu snertir verðlag á matvöru hér á landi. Að vísu snertir það þannig nú þegar að innlend matvælaframleiðsla, innlendur landbúnaður, hefur á síðustu fjórum árum stórlækkað sitt verð og það hefur komið neytendum til góða nú þegar. En ég er ekki búinn að sjá það enn þá hvaða áhrif þetta hefur á þau 50% af matvælum okkar Íslendinga sem við flytjum inn af því sem við neytum. ( SJS: Hækka þau nokkuð örugglega.) Hv. 4. þm. Norðurl. e. grípur hér fram í að það muni hækka þau nokkuð örugglega. Ef sá tilgangur sem ég sé í GATT-samkomulaginu að færa verð á landbúnaðarvörum í milliríkjaverslun nær raunverulegu kostnaðarverði þá muni þetta hækka þennan hluta matvælareiknings íslenskra neytenda. Það liggur ekkert fyrir enn þá hvort þetta muni hækka eða lækka í heild matvælaverð á Íslandi. Vonandi næst það markmið að hætt verði að versla með landbúnaðarvörur milli landa á því svokallaða heimsmarkaðsverði í dag sem eru spottprísar sem í fæstum tilfellum eru í nokkru samhengi við framleiðslukostnaðinn.
    Það kemur að einu dæmi sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tók í annars á margan hátt ágætri ræðu um áhrifin á þróunarlönd eins og Indland. Sú röksemdafærsla fannst mér ekki ganga upp því að hv. þm. sagði að þetta samkomulag mundi gera það að verkum að þar mundu, eins og þingmaðurinn sagði, hundruð milljóna indverskra bænda flosna upp. En hvaðan eiga öll þau matvæli að koma á þessu lága verði sem eiga að geta leyst af hólmi hundruð milljóna indverskra bænda?
    Sá litli markaður með þessar vörur milli landa sem er í gangi í dag á því lága verði sem kallast heimsmarkaðsverð mun ekki geta annað þessu. Og hvar á að framleiða þetta? Þannig að svona röksemdafærsla fellur um sjálfa sig. Ég er vægast sagt hissa á því að jafn vel lesinn og gjörhugull maður og hv. þm. er skuli bera svona málflutning á borð.
    Hitt er svo annað mál að markaðurinn sem er með þessar vörur á lágu verði í heiminum er þó það stór að hann getur lagt íslenskan landbúnað, landbúnað þessarar litlu þjóðar, í rúst á nokkrum missirum ef honum er hleypt hér að óheftum. En að þvílíkt magn sé þarna á ferðinni á þessu lága verði að það geti

leyst af hólmi mikinn hluta matvælaframleiðslu Indlands er náttúrlega algjör bábilja.
    Varðandi síðan umhverfisþáttinn þá tek ég undir og deili áhyggjum með þeim sem talað um að í Úrúgvæ-lotunni sé ekki tekið á umhverfismálunum. Ég get hins vegar ekki tekið undir að það geri það að verkum að við eigum að hafna þessu samkomulagi. Það gerir það hins vegar að verkum að við sem matvælaútflytjendur hljótum að berjast fyrir því á þessum vettvangi að sú umræða sé þar tekin upp af fullum krafti. Það verður að gerast því það gengur ekki til lengdar að það sé knúin fram ódýr matvælaframleiðsla og kostnaðurinn við það sé skuldfærður á komandi kynslóðir sem því miður er verið að gera víða í heiminum í dag með því að ganga nær landinu en það þolir með því að nota við framleiðsluna hjálparefni sem við vitum orðið að eru óæskileg og hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar varðandi framtíðarnot landsins sem er undir landbúnaðarframleiðslu. Á þessu verður að taka og ég sé enga aðra leið til þess en að gera það í formi alþjóðasamninga. Ég sagði við 1. umr. að það væri mín skoðun að það yrði að gerast að einhverju leyti á svipaðan hátt og farið var með hafréttarmál á Alþjóðlegu hafréttarráðstefnuna --- af því að ég horfi framan í hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson sem í þeirri umræðu allri átti mikinn þátt og skipaði stórt hlutverk. Ég er þeirrar skoðunar að það verði að fara hliðstæða leið varðandi umhverfisþáttinn hvað snertir matvælaframleiðslu í heiminum. Menn verða að ná samkomulagi sem verður að mínu mati að byggjast á markaðslausnum. Við náum þessu aldrei fram öðruvísi. Sem verður þá að byggjast á því að ágangurinn á landið verði verðlagður þannig að það komi inn í matvælaverð á hverjum tíma. Ef menn eru að fara þar út fyrir velsæmismörk, ganga á landið, þá verði menn að borga fyrir það á þeim tíma sem sú framleiðsla fer fram en sá reikningur verði ekki geymdur til komandi kynslóða.
    Þetta hlýtur að verða eitt af stóru verkefnunum í utanríkismálum og alþjóðamálum á næstu árum og hagsmunir Íslands í þessum málum eru þeir að við hljótum að berjast fyrir því að innan GATT verði þessi umræða tekin upp af fullum þunga.
    Hitt er annað mál varðandi umhverfismál almennt að þar er ég að nokkru leyti ósammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Ég get ekki tekið undir það að efnahagsframfarir séu í andstöðu við framfarir í umhverfismálum. Kannski þvert á móti að slíkt hljóti að fara saman og það reyndar segir sagan okkur. Sagan segir okkur það að iðnbyltingin í Evrópu, sá efnahagsbati sem þar kom, leysti Evrópuþjóðirnar undan mjög erfiðum umhverfismálum, að vísu í þeirra nærumhverfi. En það færði okkur hins vegar önnur vandamál sem við verðum að takast á við og ég sé ekki að við getum tekist á við þau vandamál með því að hverfa til fortíðar. Ég sé ekki að þau verði leyst öðruvísi en með nýjum framförum. Ég hlýt að treysta því að nýjar tækniframfarir muni á næstu árum leysa okkur að verulegu leyti undan viðjum þeirrar mengunar sem vissulega stefnir heimsbyggðinni í hættu í dag. Forsenda þess er það að efnahagurinn sé traustur. Að við höfum efni á því að vinna á þann hátt.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ræddi mikið um vanda þróunarlandanna og hann er mikill. Eitt af stóru vandamálunum þar eru einmitt umhverfisspjöll þar sem menn í fátækt sinni eru að ganga svo nærri umhverfi sínu, þar sem menn eru líkt og við gerðum á fyrri öldum að höggva niður sitt umhverfi til eldsneytis. Þetta mál verður að mínu mati ekki leyst öðruvísi en með framförum, ekki afturhvarfi til fortíðar.
    Virðulegur forseti. Mín samandregna niðurstaða er því sú að okkur sé mikilvægt að vera í hópi þeirra þjóða sem skrifa undir þennan samning fyrir áramót og vera þar af leiðandi í hópi stofnfélaga. Ég held að það hafi komið fram í þessari umræðu, meira segja hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni í andsvari við þann sem hér stendur, að við hljótum að vera þátttakendur í hinu alþjóðlega tollasamstarfi áfram. Við, þessi mikla útflutningsþjóð, eigum þar engra annarra kosta völ. Þess vegna eigum við að gera okkur gildandi með því að vera stofnþátttakendur í þeirri lotu sem nú er að ljúka og láta síðan rödd okkar heyrast þar af fullum krafti á næstu árum. Við getum haft áhrif ef við viljum. Það sannar hafréttarráðstefnan og sú niðurstaða sem þar fékkst. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum í framhaldinu núna að láta rödd okkar heyrast kröftuglega varðandi umhverfismálin innan alþjóðatollastofnunarinnar og vinna af krafti með þeim þjóðum sem vilja og sjá nauðsyn þess að umhverfismálin verði tekin inn af fullum þunga. En það verður hins vegar, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að byggjast að verulegu leyti á markaðslegum grunni þannig að við getum virkjað viðskiptaöflin í heiminum í þágu þessa markmiðs.