Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 15:42:26 (3428)


[15:42]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Eins og málsskjöl bera með sér fjallaði landbn. um afgreiðslu þáltill. sem hér er til umræðu og hafði reyndar nokkurt samstarf við hv. utanrmn. um afgreiðslu þessa máls. Ég hlýt að þakka utanrmn. fyrir það samstarf og þá niðurstöðu sem hér hefur fengist um leið og ég þakka landbúnaðarnefndarmönnum fyrir gott samstarf við afgreiðslu þessa máls. Mér þykir rétt að vekja athygli á því að undir bréf landbn. hafa nefndarmenn allir skrifað sem viðstaddir voru. Það hefur reyndar fallið niður nafn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sem ég vona að verði bætt úr við frekari meðhöndlun þessa þingplaggs í þinginu. Hann fór yfir þetta mál að landbúnaðarnefndarfundi loknum og tjáði sig samþykkan því.
    Ég vek athygli á því sem kemur fram í textanum, sérstaklega þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Hyggja ber sérstaklega að því að landbúnaðurinn fái ráðrúm til að aðlagast þeim breytingum, annað mundi leiða til ófarnaðar.`` Og enn fremur: ,,Jafnframt er vakin athygli á að í GATT-samningnum felast sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað sem mikilvægt er fyrir Íslendinga að leggja rækt við.``
    Þetta eru að sjálfsögðu mikil grundvallaratriði og afar þýðingarmikið að þau séu áréttuð við umræður á Alþingi og skuli vera hér með þessum áherslum fylgiplagg með afgreiðslu utanrmn.
    Það hlýtur líka að vera afar þýðingarmikið og ber að fagna þeirri samstöðu sem hefur náðst um afgreiðslu þessa máls í þinginu og hefur það eitt út af fyrir sig mjög sannfærandi niðurstöðu í för með sér. Og einmitt sú niðurstaða er afar trúverðug, m.a. gagnvart landbúnaðinum, bændum landsins, og styrkir náttúrlega þessa niðurstöðu gífurlega mikið.
    Hér hafa menn talað nokkuð um það að æskilegra hefði verið að frumvörp að nýrri löggjöf lægju fyrir þegar þessi ákvörðun er tekin. Það má kannski til sanns vegar færa að það hefði verið betri kostur en ég sé ekki að það skipti neinu sérstöku máli í þessum efnum. Afstaða Alþingis liggur fyrir og ég sé ýmsa kosti í því að í framhaldsumræðuna, sem hlýtur að verða í þjóðfélaginu, m.a. í landbúnaðinum, hafi menn tök á að leggja sín ráð og sínar áherslur. Það tel ég afar þýðingarmikið nú þegar fyrir liggur að niðurstaða hefur verið fengin í afstöðu Íslendinga til GATT-málsins. Ég sé ekki að það breyti svo miklu hvort heldur menn ganga frá löggjöfinni aðeins fyrr eða aðeins síðar.
    Hér hafa ýmsir hv. þm. líka verið að tala um það í þessum ræðustóli að ekkert hafi í raun verið aðhafst í þessum málum. Ég held að það sé reyndar mikill misskilningur og meira að segja vill nú svo til að sá búvörusamningur sem í gildi er og landbúnaðarmálin hafa þróast eftir þetta kjörtímabil tekur æðimikið mið af því sem menn álitu að mundi gerast í sambandi við GATT. Og tilboð íslenskra stjórnvalda um tollígildi hafa verið staðfest og sú niðurstaða, eins og kunnugt er, liggur fyrir. Þetta eru að sjálfsögðu afar mikilvægar niðurstöður og þær eru í hendi eins og kunnugt er.
    Það er líka athyglisvert að landbúnaðurinn hefur náð ýmsum grundvallaratriðum meira að segja sem ekki þurfti að uppfylla fyrr en um næstu aldamót eins og t.d. niðurfærslu á framlögum til þess atvinnuvegar og má nú kannski reyndar segja að fullharkalega hafi verið gengið fram í þeim efnum, en eigi að síður liggur þó þessi niðurstaða fyrir að þeim árangri sem krafa var um að næði fram um næstu aldamót hefur þegar verið náð.
    Það má líka minna á það, ekki síst þegar verið er að tala um neytendasjónarmið og viðskipti neytenda og landbúnaðarins, að miklar verðlækkanir hafa þegar orðið á landbúnaðarafurðum á síðustu árum. Það sætir í rauninni undrun hve mikið hefur verið lagt á landbúnaðinn á síðustu árum, bæði að því er varðar samdrátt í framleiðslu og meira að segja við þær aðstæður á sér stað mikil verðlækkun á landbúnaðarvörum.
    Það liggur fyrir að í kindakjötsframleiðslunni nemur þessi verðlækkun á allra síðustu árum, líklega þremur síðustu árum, um 10% og þegar litið er til aðeins lengri tíma kemur upp sama tala í sambandi við mjólkurframleiðsluna. Landbúnaðurinn hefur vissulega verið að laga sig að breyttum háttum og ég segi: Geri aðrir betur.
    Að sjálfsögðu liggur fyrir að breyta löggjöfinni með tilliti til breyttra aðstæðna og ég fæ ekki séð að það sé neitt óskapaverk því að margt í íslenskri löggjöf, t.d. í búvörulögunum, tekur mið af þessum breyttu háttum. Það þarf að sjálfsögðu að breyta til á þeim vörulistum sem lögbundnir voru, listi 1 og listi 2, við síðustu breytingar á búvörulögunum. Það koma sérstaklega inn aðrar vörur í sambandi við lista 1 sem eru bannvörurnar núna, fersku kjötvörurnar og annað færist á lista 2 og trúlega fleiri vörutegundir. Fyrir liggur góður grundvöllur til þessara breytinga og eins er um annað það sem nú hefur verið staðfest að eigi að vera í vörslu landbrh. að tiltölulega auðvelt er að koma fyrir að svo miklu leyti sem það hefur ekki þegar verið gert. Það er út af fyrir sig eftirtektarvert að jöfnunargjöldin, sem eru nú lögð á og gefin hefur verið út reglugerð um, eru mjög svipuð og væntanleg tollígildi verða. Því verður ekki svo afskaplega mikil breyting í þessum efnum þegar litið er til þess sem fyrir liggur nú um þessar mundir. En þetta verk þarf auðvitað að vinna og menn hafa talað um að það muni bíða nýrrar ríkisstjórnar. Ég vil þá frekar segja að það muni bíða nýs Alþingis því að með því að samstaða um þetta mikilvæga mál hefur náðst með þessum hætti hlýtur það að verða þingsins að leiða það til lykta hverjir sem svo koma til með að stjórna landinu eftir næstu alþingiskosningar.
    En vissulega þarf að huga að fleiru og ég sakna þess að það hefur ekki verið í umræðunni, a.m.k. ekki að því marki sem ég hef getað fylgst með henni hér á þessum degi. En að því þarf náttúrlega sérstaklega að huga og á því vek ég athygli í lok ræðu minnar að landbúnaður á Íslandi þarf að fá sömu kjör við að búa eins og gerist meðal annarra þjóða. Í þeim efnum stöndum við höllum fæti í samanborið við það sem gerist erlendis. Þar á ég t.d. við græna stuðninginn eins og gjarnan er nefnt. Hann er víða og kannski víðast miklu meiri heldur en á Íslandi og mikið hagræði fyrir þá bændur í þeim löndum sem hans njóta. Auðvitað fer ekki hjá því að á það mál verði sérstaklega að líta í framhaldi af þeirri umræðu sem nú hlýtur að eiga sér stað.
    Ég minni í þessum efnum t.d. á jarðræktarlögin sem hafa verið gerð að stórum hluta óvirk en fela náttúrlega í sér grundvöll að því að hægt sé að reka hér menningarbúskap. Það er að sjálfsögðu alger grundvöllur þess að ræktuninni sé haldið í eðlilegu horfi. Það er mikil niðurlæging sem felst í því að gæta þar ekki sérstaklega að. Hér er t.d. um að ræða algert grundvallaratriði að því er varðar framgang á vistvænum landbúnaði sem takmarkar áburðarnotkun en gerir aftur á móti um leið kröfu um betri og vandaðri ræktun sem skilar betri árangri. Þetta eru að sjálfsögðu grundvallaratriði og verður ekki hægt að komast hjá því að taka þau inn í umræðuna um græna geirann sem felst í GATT-samkomulaginu. Eins er um jöfnunargjöldin sem a.m.k. í fyrstunni hljóta að verða tekin upp hjá okkur og það er mál fróðra manna að einmitt jöfnunargjaldakerfi EB muni lifa áfram. Að þessu og ýmsu fleiru verða menn að hyggja til þess að gera landbúnaðinum bærilegra að taka á móti þeim breytingum sem eru fram undan. Á þetta legg ég sérstaka áherslu um leið og ég lýk hér máli mínu, virðulegi forseti.