Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 17:13:58 (3443)


[17:13]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég var satt að segja mjög undrandi þó að ekki sé tekið sterkar til orða þegar hæstv. ráðherra tók til við lestur sinn sem var nú æðilangur, líklega hálftími eða eitthvað slíkt gæti ég trúað. Ég sá ekki hvaða tilgangi hann hafði að þjóna. Þarna var eiginlega meiri og minni botnleysa, endurtekningar. Ég held að fæstir hér inni gætu sagt mér hvað raunverulega var í ræðunni. Var eitthvað í henni? Hafði hún einhvern tilgang? Þurfti ráðherrann að koma hingað til þess að segja okkur það sem var í þessari ræðu hans? Ég held að það væri ágætt að fá hana óslitna í útvarpi einhvers staðar þar sem hann getur sjálfur metið það hvers virði slíkur málflutningur er. En ég ætla ekki neitt að orðlengja það frekar. Það er búið að skora á formann utanrmn. og ég held að það sé ágætis hugmynd að hann staðfesti hvað sé rétt og hvað sé a.m.k. óþarft eða raunar rangt.