Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 14:07:45 (4261)


[14:07]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ræðumaðurinn sem hér var að tala áðan, hv. þm. Petrína Baldursdóttir, var að mæla fyrir meirihlutaáliti umhvn. Alþingis fyrir breytingum á lögum um náttúruvernd. Ræðumaðurinn hafði ekki fyrir því að gera grein fyrir tillögum meiri hlutans, hvað þá að reyna að rökstyðja þessar tillögur sem meiri hlutinn leggur fyrir, heldur fór hún hér yfir málið á 3--4 mínútum um það bil, að mæla fyrir brtt. sem liggja hér fyrir í mörgum liðum af hálfu meiri hluta umhvn. sem og nefndaráliti sem fylgir þessu. Ég hef ekki í annan stað nema kannski einu sinni orðið jafnundrandi á málafylgju eins og hér um ræðir að það sé ekki haft fyrir því af hálfu frsm. meiri hluta að reyna að gera efnislega grein fyrir máli sínu. Að reyna það ekki. Af þessu verður ekki annað ráðið heldur en það að þetta mál skipti meiri hluta nefndarinnar sem leggur það hér fram í þinginu nánast engu. Þetta er að sjálfsögðu slík lítilsvirðing við Alþingi sem birtist í þessari framsögu framsögumanns nefndarinnar að ég get ekki orða bundist. Og þetta er gert eftir að svo mikið lá við að sami frsm. reif málið út úr nefnd og henti brtt. jafnhliða samtímis í samnefndarmenn sína sem ekki voru í stjórnarmeirihlutanum og tók málið út úr nefndinni. Þetta eru slík vinnubrögð að það er móðgun við hv. Alþingi að mínu mati og segir auðvitað það eitt um þetta að stjórnarmeirihlutanum hlýtur að vera nákvæmlega sama um afdrif málsins.