Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 19:11:18 (5214)


[19:11]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Um leið og ég þakka forseta sem stýrði fundi áðan, þegar ég gerði athugasemd við fundarsköp, fyrir að tryggja að umræðunni var haldið áfram um vegamálin þá ætla ég að mæla hér nokkur orð. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls, en vegna ræðu hæstv. samgrh. áðan og því sem bætt var við af hv. 3. þm. Austurl. þá sá ég mig knúinn til þess að koma hér örfáum athugasemdum á framfæri sem varða þeirra mál sérstaklega.
    Það liggur nú fyrir að fram er komin brtt. á þskj. 905 þar sem fæst allveruleg leiðrétting á því sem gagnrýnt var hér fyrr við umræðuna og ég hafði um nokkur orð í ræðu minni í morgun. Þetta ber að virða að það er viðleitni í þessa átt. Þó að þetta gangi ekki til fullnustu til móts við brtt. minni hlutans þá er hér veruleg bót fengin með þessari tillögu sem þarna liggur fyrir. Ég rek það fyrst og fremst til hv. 2. þm. Norðurl. v., formanns samgn., sem tók á málinu og kannaði hvort ekki væri hægt að verða við eindregnum óskum og áskorunum okkar stjórnarandstæðinga og ég hef ekki ástæðu til annars en gefa honum gott orð fyrir það. Hitt er svo miklu lakara þegar ráðherra samgöngumála kemur hér af tilefni þessarar brtt. og hefur uppi þann lestur sem menn heyrðu frá hæstv. ráðherra áðan. Það er allsérkennilegt og opinberar í rauninni enn betur en nokkur stjórnarandstæðingur hafði reynt að koma á framfæri í sínu máli hvers konar vinnubrögð hafa verið höfð í sambandi við þessi mál, skiptingu vegafjárins. Þó að þarna væri ekki um hina stóru drætti að ræða í máli hæstv. ráðherra þá sýndi sig í þessu sem hann lagði þarna inn varðandi skiptingu á þessu fé samkvæmt brtt. meiri hluta samgn. hvernig staðið er að málum þar á bæ og það sem hæstv. ráðherra var að segja að hann hefði setið á fundi með tilteknum þingmönnum Austurlandskjördæmis til þess að fjalla um það hvernig farið yrði með það fé sem meiri hluti samgn. er þarna að færa til samkvæmt brtt.
    Ég vil taka það fram að við þingmenn Austurl. sem nú erum í stjórnarandstöðu sóttum fundi með Vegagerð ríkisins til að byrja með og fórum yfir mál og það er ekki rétt sem gefið var til kynna af hv. 3. þm. Austurl. í umræðu fyrr í dag að við hefðum ekki viljað líta á málin. Það var nú síður en svo. En síðan urðu það eðlilega okkar viðbrögð þegar ljóst var hvernig fara átti með vegafé til okkar kjördæmis að við treystum okkur ekki til þess að standa frekar að skiptingu fjárins. Þegar hins vegar leiðrétting er fram borin af meiri hluta samgn. sem gengur allverulega til móts við okkar gagnrýni og okkar sjónarmið þá hefðu auðvitað hin eðlilegu viðbrögð verið og vinnubrögð átt að vera að kalla til þingmanna kjördæmisins og kanna það hvort þeir að fenginni þessari leiðréttingu vildu huga að þátttöku, vildu standa að þátttöku á skiptingu innan kjördæmisins. Ó, nei. Það er ekki gert. Það er kallað á tiltekna þingmenn, stuðningsmenn stjórnarliðsins, og síðan ætla þeir sér ásamt ráðherrum að túlka það í hvaða vegakafla og til hvaða framkvæmda þessu fjármagni, sem meiri hluti samgn. leggur til, á að ráðstafa.
    Það er dálítið talað um gruggug vinnubrögð víða um lönd, kennd við mafíu á stundum. Það er ekki alveg laust við, virðulegur forseti, án þess að ég ætli að fara að leggja það að jöfnu, að manni detti þetta í hug þegar maður horfir á starfshætti af þessum toga. Það er satt að segja mjög raunalegt þegar þannig málafylgja er komin inn á Alþingi Íslendinga eins og þetta sem ég er hér að rekja. Ég vil hins vegar í þessu samhengi benda á framsöguræðu eða það mál sem hv. 2. þm. Norðurl. v. flutti þegar hann mælti fyrir brtt. nefndarinnar. Þar kvað við allt annan tón heldur en hjá hæstv. ráðherra, að ekki sé talað um hv. 3. þm. Austurl. Þar var það alveg skýrt tekið fram að þetta fjármagn, 100 millj. kr. en ekki 50 millj., eins og hv. 3. þm. Austurl. talaði um, 100 millj. kr. væru færðar til Austurlandskjördæmis, afdráttarlaust að þetta sé orðið fé sem ekki verði af Austurlandi tekið. Eitthvað á þá leið tók hv. þm. til orða. Og það auðvitað gerist ekki að ráðherra, hvað þá einstakir stjórnarliðar, ætli sér að fara að ráðstafa vegafé með þeim hætti

sem tilburðir voru uppi um í tengslum við umræðuna og kom fram í þeirra máli.
    Virðulegur forseti. Ég tel að við höfum fengið fram leiðréttingu sem skiptir máli. Það er uppskeran úr okkar málafylgju hér, stjórnarandstæðinga. Það er vel svo langt sem það nær. Það er hins vegar langt frá því að breyta þeirri afstöðu að ekki er að mínu mati hægt að leggja nafn sitt við þessa vegáætlun í heild jafnóeðlilega og að henni hefur verið staðið í hinum stærri greinum, fyrir utan það sem hér hefur verið rætt varðandi einstök kjördæmi.