Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 22 . mál.


22. Tillaga til þingsályktunar



um skipun nefndar um vatnsútflutning.

Flm.: Jón Helgason, Stefán Guðmundsson, Jóhann Einvarðsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd um vatnsútflutning. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar allra þingflokka. Hlutverk hennar verði að móta framtíðarstefnu um nýtingu á þessari miklu náttúruauðlind. Enn fremur geri nefndin í samstarfi við Byggðastofnun áætl­un um hvernig sú nýting megi verða til að efla byggð í þeim héruðum þar sem gnótt lindar­vatns er fyrir hendi. Þá veiti nefndin í samvinnu við Útflutningsráð þeim aðilum, sem nú eru að hasla sér völl á þessu sviði, ráðgjöf og stuðning, sérstaklega við markvissa markaðssetn­ingu.

Greinargerð.


    Þingsályktun þessi var flutt í lok síðasta þings í framhaldi af nefndaráliti flutningsmanns um þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–97. Í því nefndaráliti er bent á að þurft hefði að taka þá byggðaáætlun fastari tökum og setja fram markvissa áætlun um eflingu atvinnulífs, sérstaklega þar sem hægt er að byggja á þeim landgæðum sem eru fyrir hendi eins og úrvalsneysluvatni. Ekki hefur orðið vart við neina slíka vinnu á vegum ríkisstjórnar­innar og því ástæða til að flytja þessa þingsályktun á ný. Á síðasta þingi fylgdi tillögunni eft­irfarandi greinargerð:
    „Allmörg ár eru síðan menn fóru fyrst að kanna möguleika á útflutningi á vatni í neyt­endaumbúðum og á síðustu árum hafa nokkrir aðilar hafið slíkan útflutning. Róðurinn hefur þó verið þungur að komast inn á markaðinn með ný vörumerki. Þó að fyrstu skrefin hafi þannig reynst erfið má ekki fullyrða að þetta sé vonlaust.
    Í nýju hefti tímaritsins AVS er grein eftir ritstjórann, Gest Ólafsson, sem heitir „Íslenskt vatn — vanmetin auðlind“. Í niðurlagi hennar segir:
    „Hingað til höfum við horft á þetta neysluvatn renna til sjávar eins og „lati Geir á lækjar­bakka“ án þess að hafa uppi mikla tilburði til þess að gera okkur það að féþúfu. Þó hafa nokkrar ánægjulegar tilraunir verið gerðar til þess að vinna og flytja út vatn en af miklum vanefndum og án þess að nokkur stefna hafi verið mótuð um það hvernig æskilegt sé að standa að þessum málum þegar til lengri tíma er litið.
    Hugsanlegur útflutningur á íslensku neysluvatni í miklum mæli er ekkert flýtiverk heldur krefst hann mikils og vandaðs undirbúnings, stefnumótunar og rannsókna, bæði hér á landi og erlendis. Margt bendir nú til þess að eitt af því skynsamlegasta sem við getum tekið okkur fyrir hendur sé að verja nauðsynlegu fé til þess að átta okkur á þeirri leið sem heppilegust er að fara til þess að gera okkur mat úr þessari auðlind.“
    Í annarri grein í sama tímariti eftir Freystein Sigurðsson jarðfræðing er eftirfarandi kafli:
     „Hversu verðmæt er nytjavatnsauðlindin? Það er háð nýtingu vatnsins og unnu magni, hversu miklum verðmætum nytjavatnsauðlindin skilar. Vatnið í veitum og krönum lands­manna er virði nokkurra milljarða króna, eins og stendur, en verðmæti auðlindarinnar er margfalt meira. Allt lindarvatn í byggð, flutt út í dýrum neytendaumbúðum, skilaði tvö hundruð þúsund milljörðum íslenskra króna, eða fimmþúsundföldum þjóðartekjum okkar núna. Sjálfsagt á sú arðnýting langt í land. Til þess þyrfti hvert mannsbarn um víða veröld að drekka tvo lítra af íslensku drykkjavatni á degi hverjum.
    Veljum annað viðmið: Tökum 10% af lindarvatni í byggð og seljum það á sama verði og kranavatn í Kaupmannahöfn. Því samsvarar að um 10 milljónir manna notuðu íslenskt vatn til heimilishalds. Það gæfi um 300 milljarða króna eða svipaða stærð og þjóðartekjur okkar eru.“
    Með tilliti til þessara staðreynda hlýtur það að vera skynsamlegt og nauðsynlegt að ríkis­valdið hefji skipulega umfjöllun og marki framtíðarstefnu um nýtingu þessarar gífurlega miklu auðlindar þjóðarinnar. Þróunin í heiminum síðustu árin stuðlar að nýjum möguleikum á þessu sviði fyrir okkur. Gífurleg fólksfjölgun og mikil mengun víða um lönd veldur hrað­vaxandi eftirspurn eftir ómenguðum matvælum og æ erfiðara er víða að fá hreint drykkjar­vatn. Það hefur því mikla þýðingu fyrir okkur að skapa Íslandi þá ímynd að héðan komi hreinar vörur sem neytendur geta treyst. Þar er til mikils að vinna og því ærin ástæða til að ganga ekki af minni atorku og tilkostnaði að undirbúningi að útflutningi á neysluvatni heldur en gert hefur verið síðustu árin við árangurslausa leit að rekstraraðilum að nýju álveri. Ef við gerum það og berum gæfu til að halda rétt á þessu máli höfum við allar aðstæður til að byggja hér upp náttúruvæna stóriðju á komandi árum.“
    Á sl. sumri komu hingað nokkrir bandarískir krabbameinslæknar til að kynnast hinu ómengaða umhverfi. Eftir heimkomuna héðan sagði einn þeirra, Jonelle Reynolds, m.a. eftir­farandi í bréfi:
    „Ég vildi eiga kost á að fá íslenskt vatn hvar sem ég ferðast. Það er besta vatnið sem ég hef drukkið og þið megið vera viss um að ég mun kynna og auglýsa ykkar ágæta vatn hvar sem ég get. Til viðbótar við þann markað, sem þið hafið þegar leitað á, mundi ég leggja til að þið leituðuð fyrir ykkur á öllum stærri hressingarhælum. Hver sá sem líkar framleiðsla ykkar verður góður sölumaður hvar sem hann býr og vekur áhuga hjá fólki sem hugsar um heilsu sína.“