Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 115 . mál.


118. Tillaga til þingsályktunar



um fréttaflutning og upplýsingaskyldu um slysfarir og harmraunir fólks.

Flm.: Gunnlaugur Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til þess að móta starfsreglur um fréttaflutning og upplýsingaskyldu stofnana um slysfarir og harmraunir fólks.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 115., 116. og 117. löggjafarþingi en varð þá eigi útrædd.
    Tilgangur þessarar tillögu er að koma á fót samráðsvettvangi þeirra aðila og stofnana sem næst koma upplýsingamiðlun af slysförum og harmraunum fólks. Mikilvægt er að samræmdar viðmiðunarreglur eða leiðbeiningar geti ríkt við slíkar aðstæður er taki mið af mannhelgi, virðingu og hluttekningu en um leið af nauðsynlegri upplýsingaskyldu svo að ekki verði vegið að fjölmiðlafrelsi í landinu.
    Fréttaflutningur af slysförum og harmraunum fólks er vandmeðfarið og viðkvæmt mál. Íslenskir fjölmiðlar hafa í áranna rás leitast við að fjalla um slík mál af tillitssemi og varkárni. Þó má greina þá þróun að ágengni fjölmiðla gagnvart einstaklingum, sem hlut eiga að máli, björgunarsveitum að störfum og öðrum viðkomandi aðilum verði æ meiri og óvægnari. Aukin samkeppni fjölmiðla um fréttaöflun af atburðum og málavöxtum getur orðið til þess að misbjóða mannvirðingu og siðrænum gildum. Hér er hvorki verið að leggja til lagasetningu né opinbera reglugerð heldur að þeir aðilar og stofnanir, sem nærri aðstæðum koma, geti sameinast um samræmdar starfsreglur. Þá er einnig mikilvægt að greina betur upplýsingaskyldu viðkomandi stofnana, samtaka og starfsstétta gagnvart fjölmiðlum.
    Í tillögunni er lagt til að dómsmálaráðherra sjái um skipan slíkrar nefndar er lagt gæti grundvöll að samráðsvettvangi og styrkt og eflt gagnkvæman trúnað og skilning viðkomandi aðila og stofnana. Í starfi nefndarinnar er eðlilegt að hafa náið samráð m.a. við eftirtalda aðila: Slysavarna- og björgunarsveitir, Blaðamannafélag Íslands, Félag fréttamanna, Prestafélag Íslands, Lögreglufélag Íslands, Rannsóknastofnun Háskólans í siðfræði, Samtökin um sorg og sorgarviðbrögð, Læknafélag Íslands og barnaverndarráð.