Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



194. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 130 . mál.


135. Frumvarp til laga


um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)


1. gr.

    Við 2. mgr. 45. gr. laga nr. 93/1994 bætast tveir nýir málsliðir, sem verða 3. og 4. málsl., svohljóðandi: Einnig eru undanskilin ákvæði IX. kafla lyfjalaga, nr. 108/1984, 32.–38. gr., ásamt 4. tölul. 50. gr., er fjalla um verðlagningu lyfja og lyfjaverðlagsnefnd og ákvæði í II., III. og VI. kafla laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, 2.–6. gr., 9.–13. gr. og 27.–34. gr., er fjalla um stofnun lyfjabúða, lyfsöluleyfi og undirstofnanir lyfjabúða. Þessi ákvæði lyfjalaga og laga um lyfjadreifingu falla úr gildi 1. nóvember 1995, sbr. 3. tölul. ákvæða til bráðabirgða.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Um frumvarp þetta, sem lagt er fyrir Alþingi skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, vísast að öðru leyti til meðfylgjandi fylgiskjals.



Fylgiskjal.

Bráðabirgðalög

um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994.


FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur tjáð mér að við þingmeðferð lyfjalaga, nr. 93/1994, hafi verið ákveðið að fresta gildistöku VII. kafla laganna um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi og XIV. kafla laganna um lyfjaverð til 1. nóvember 1995, sbr. 3. tölul. ákvæða til bráðabirgða. Á hinn bóginn láðist að framlengja gildistíma sambærilegra ákvæða í IX. kafla lyfjalaga, nr. 108/1984, um verðlagningu lyfja og lyfjaverðlagsnefnd, og ákvæða í II., III. og VI. kafla laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, um stofnun lyfjabúða, lyfsöluleyfi og undirstofnanir lyfjabúða.
    Lyfjalög, nr. 93/1994, öðlast gildi 1. júlí 1994. Að óbreyttum þeim lögum munu við gildistöku þeirra engin lagaákvæði gilda um lyfjaverð, stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi fram til 1. nóvember 1995.
    Því ber brýna nauðsyn til að breyta 45. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, þannig að gildistími ákvæða lyfjalaga, nr. 108/1984, um lyfjaverð og laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, um stofnun lyfjabúða, lyfsöluleyfi og undirstofnanir lyfjabúða, framlengist þar til ákvæði VII. og XIV. kafla laga nr. 93/1994 koma til framkvæmda 1. nóvember 1995.
    Fyrir því eru hér með sett svofelld bráðabirgðalög skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar:
    

1. gr.

    Við 2. mgr. 45. gr. laga nr. 93/1994 bætast tveir nýir málsliðir, sem verða 3. og 4. málsl., svohljóðandi: Einnig eru undanskilin ákvæði IX. kafla lyfjalaga, nr. 108/1984, 32.–38. gr., ásamt 4. tölul. 50. gr. er fjalla um verðlagningu lyfja og lyfjaverðlagsnefnd og ákvæði í II., III. og VI. kafla laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, 2.–6. gr., 9.–13. gr. og 27.–34. gr. er fjalla um stofnun lyfjabúða, lyfsöluleyfi og undirstofnanir lyfjabúða. Þessi ákvæði lyfjalaga og laga um lyfjadreifingu falla úr gildi 1. nóvember 1995, sbr. 3. tölul. ákvæða til bráðabirgða.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994.
    

Gjört í Reykjavík 28. júní 1994.


    

Vigdís Finnbogadóttir.


(L.S.)



_________________________

Guðmundur Árni Stefánsson.