Ferill 33. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 33 . mál.


152. Svarfélagsmálaráðherra við fyrirspurn Finns Ingólfssonar um heildarútlán og vanskil við Húsnæðisstofnun ríkisins.

    Hver eru heildarútlán í húsbréfakerfinu sem tók gildi 15. nóvember 1989, hve mikil eru vanskilin miðað við 1. október sl. og hve margir einstaklingar eru í vanskilum við stofnunina?
    Útlánin nema samtals um 57,1 milljarði króna. Fjöldi lántakenda er 16.670 og fjöldi lána er 20.638. Síðasti gjalddagi var 15. september 1994. Húsnæðisstofnun telur alvarleg vanskil ekki komin til sögunnar fyrr en þremur mánuðum eftir gjalddaga, enda er greiðsluáskorun send út þremur til fjórum mánuðum eftir hvern gjalddaga. Er mjög löng hefð fyrir því viðhorfi.
    Með þriggja mánaða vanskil eða eldri eru 3.416 lántakendur og nema þau um 700 millj. kr., innifaldir eru dráttarvextir og kostnaður.

    Hver eru heildarútlán í almenna húsnæðiskerfinu sem tók gildi 1. september 1986, hve mikið er í vanskilum og hve margir einstaklingar eru í vanskilum við stofnunina miðað við 1. október sl.?
    Útlánin nema samtals um 43,6 milljörðum króna. Fjöldi lántakenda er 16.504 og fjöldi lána er 29.865. Með þriggja mánaða vanskil eða eldri eru 1.661 lántakandi og nema þau um 337 millj. kr., innifaldir eru dráttarvextir og kostnaður.

    Hver eru heildarútlán í húsnæðiskerfinu sem var í gildi fyrir 1. september 1986, hve mikil eru vanskilin við stofnunina og hver er sá fjöldi einstaklinga sem er í vanskilum miðað við 1. október sl.?
    Útlánin nema samtals um 19,9 milljörðum króna. Fjöldi lántakenda er 30.480 og fjöldi lána er 73.289. Með þriggja mánaða vanskil eða eldri eru 1.727 lántakendur og nema þau um 175 millj. kr., innifaldir eru dráttarvextir og kostnaður.

    Hver eru heildarútlán Byggingarsjóðs verkamanna, hve mikil voru vanskilin við sjóðinn 1. október sl., hafa vanskil aukist sem hlutfall af heildarútlánum frá því vextir voru hækkaðir úr 1% í 2,4%?
    Útlánin nema samtals um 35,8 milljörðum króna. Fjöldi lántakenda er 5.460 og fjöldi lána er 7.813. Með þriggja mánaða vanskil eða eldri eru 1.299 lántakendur og nema þau um 371 millj. kr., innifaldir eru dráttarvextir og kostnaður. Vanskil hafa aðeins aukist frá því að vextir voru hækkaðir eða um 0,2 prósentustig.

    Hve lengi þurfa menn að bíða eftir afgreiðslu Húsnæðisstofnunar á húsbréfum?
    Samþykktur hefur verið nýr húsbréfaflokkur að fjárhæð 3,7 milljarðar króna. Hjá stofnuninni liggja um 600 umsóknir sem beðið hafa eftir þessum húsbréfaflokki. Afgreiðsla þeirra er hafin. Búast má við að umsækjandi, sem leggur inn umsókn í dag, fái afgreitt fasteignaveðbréf að um þremur vikum liðnum.

    Það skal tekið fram að í yfirliti Húsnæðisstofnunar um vanskil geta lántakendur verið með lán í fleiri en einum sjóði, t.d. bæði með lán úr Byggingarsjóði ríkisins og einnig í húsbréfakerfinu á sömu íbúðinni. Lántakendur eru allir sem fengið hafa langtímalán hjá stofnuninni, þ.e. einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög.
    Ef teknir eru saman liðir 1 til 4 í fyrirspurninni og lántakendur taldir einu sinni eru þeir 55.232 með 131.650 lán, þar af eru 54.565 einstaklingar eða um 98,8%. Útlán til allra lántakenda nema um 156,4 milljörðum króna. Með þriggja mánaða vanskil eða eldri eru 7.266 lántakendur og nema þau um 1.585 millj. kr., meðtaldir eru dráttarvextir og kostnaður.