Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 152 . mál.


164. Tillaga til þingsályktunar



um sumarmissiri við Háskóla Íslands.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Svavar Gestsson,


Guðrún J. Halldórsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því í samvinnu við Háskóla Íslands og stúdentaráð Háskóla Íslands að skapa skilyrði til þess að koma á fót sumarmissiri við Háskóla Íslands til að gera atvinnulausum námsmönnum kleift að stunda nám yfir sumartímann, svo og þeim stúdentum sem flýta vilja fyrir sér í námi. Einnig verði kannað hvort sumarmissiri geti orðið hluti af áætlun um endurmenntun fyrir atvinnulausa.
    Í tilraunaskyni verði á árinu 1995 komið á sumarmissiri við Háskóla Íslands sem síðan yrði lagt mat á hvort gera ætti að föstum lið í starfsemi Háskóla Íslands.
    Ríkissjóður standi straum af kostnaðinum, auk þess sem Háskóli Íslands beri fastan kostnað við verkefnið, þ.e. kostnað af húsnæði, ræstingu, skráningu og allri almennri umsýslu.

Greinargerð.


    Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur á undanförnum mánuðum kynnt athyglisverða hugmynd um að komið verði á sumarmissiri við Háskóla Íslands. Tillaga sú til þingsályktunar, sem hér er flutt, hefur það að markmiði að Alþingi lýsi yfir stuðningi við að gerð verði tilraun með sumarmissiri við Háskóla Íslands á árinu 1995 og í framhaldi af því verði lagt mat á hvort framhald verði á þessari starfsemi. Tilgangurinn er einnig sá að fyrir liggi viljayfirlýsing Alþingis um hvernig staðið verði að fjármögnun þessa verkefnis, en nauðsynlegt er að á fjárlögum 1995 verði tryggt til þess fjármagn.
    Í þeim kynningargögnum, sem stúdentaráð Íslands hefur sett fram um sumarmissiri, kemur fram að markmiðið með því sé að gera atvinnulausum námsmönnum kleift að stunda nám yfir sumartímann. Við Háskóla Íslands er einkum hugsað til stúdenta sem eru án atvinnu og vilja nýta tímann til náms, einnig að sumarmissiri nýtist þeim stúdentum sem flýta vilja fyrir sér í námi og létta sér róðurinn seinna meir eða taka sér frí til vinnu á öðrum árstímum. Þannig opnast barnafólki og öðrum þeim sem hafa átt erfitt með að mæta stórauknum kröfum LÍN um námsframvindu ný leið til að skila einingum til lokaprófs. Stúdentaráð hefur einnig sett fram þau mikilvægu rök fyrir sumarmissiri að með því að hvetja stúdenta til að taka sér leyfi til vinnu á öðrum árstíma mætti einnig létta nokkru álagi af vinnumarkaðnum yfir sumartímann og koma í veg fyrir að fimm þúsund manns flykkist út í atvinnulífið samtímis í leit að skammtímastarfi.
    Hugmyndin er einnig sú að nýta mætti sumarmissiri fyrir aðra hópa sem eru án atvinnu, en fyrir þá gæti sumarnámskeiðið í Háskólanum verið hluti af áætlun um endurmenntun fyrir atvinnulausa. Þar sem hlutur símenntunar og endurmenntunar í háskólastarfsemi mun vaxa í framtíðinni bendir stúdentaráð Háskóla Íslands á að sumarið sé vinnandi fólki að mörgu leyti heppilegri tími til endurmenntunar en þéttsetin vetrardagskrá.
    Nýsköpunarsjóður námsmanna, sem stofnaður var árið 1992 að frumkvæði stúdenta til að gefa námsmönnum færi á að nýta sér menntun sína yfir sumarmánuðina, hefur ótvírætt sannað gildi sitt. Það er skoðun flutningsmanna að hann beri að efla eins og kostur er. Með sama hætti er það skoðun flutningsmanna að Alþingi eigi að styðja það frumkvæði sem fram kemur í þessari athyglisverðu tillögu stúdentaráðs Íslands um sumarmissiri við Háskóla Íslands.
    Áætlaður kostnaður við verkefni er um 30 millj. kr., fyrir utan hlut Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að Háskólinn beri svonefndan fastan kostnað við verkefnið, þ.e. kostnað af húsnæði, ræstingu, skráningu og allri almennri umsýslu við námskeiðin. Framlagi ríkisins er hins vegar ætlað að mæta beinum kostnaði við kennslu og fyrirlestrahald, svo sem launum kennara. Einnig gæti komið til athugunar að sveitarfélögin legðu fram hluta af kostnaði sem tæki mið af fjölda nemenda eftir lögheimili þeirra.
    Því verður ekki haldið fram að hér sé um mikla fjármuni að ræða í ljósi þeirra kosta sem sumarmissiri fylgja. Það er skoðun flutningsmanna að kostir þess séu óumdeilanlegir til að mæta bágu atvinnuástandi og til að auðvelda stúdentum nám og endurmenntun sem er lykilinn að framþróun í íslensku efnahagslífi.
    Með þingsályktunartillögu þessari fylgir með sem sérstakt fylgiskjal yfirlit yfir helstu kosti sumarmissiris við Háskóla Íslands sem stúdentaráð hefur sett fram.


Fylgiskjal.

Stúdentaráð Háskóla Íslands:

Helstu kostir sumarmissiris við Háskóla Íslands.


    Ný leið til að mæta bágu atvinnuástandi:
        —    getur minnkað framboð á vinnuafli yfir sumartímann,
        —    getur verið liður í að mennta atvinnulausa,
        —    getur verið þáttur í endurmenntunarstefnu stjórnvalda.
    Sumarmissiri er sérlega fýsilegt fyrir háskólastúdenta:
        —    auðveldar námsmönnum að svara síauknum kröfum LÍN um námsframvindu,
        —    opnar leiðir til að dreifa vinnuálagi háskólanáms yfir allt árið; það getur skipt sköpum fyrir barnafólk,
        —    nám er góður valkostur í samanburði við atvinnubótavinnu,
        —    annað snið yrði á kennslunni; þróun í átt til nýrra kennsluhátta, enn sjálfstæðari vinnubragða háskólastúdenta og sjálfsnáms,
        —    flýtir fyrir útskrift, styttir námstíma og hraðar þar með ferðinni út á almennan vinnumarkað, getur lengt starfsævi.
    Framlög í sjóð fyrir sumarmissiri eru góður kostur:
        —    fyrir ríki og sveitarfélög, ódýr leið til að sannreyna sumarmissiri sem nýja leið í erfiðu árferði,
        —    fyrir ríkissjóð, annars tómt húsnæði háskólans nýtist yfir sumartímann líka,
        —    fyrir ríkissjóð, námsmenn ljúka lokaprófum fyrr og skila sér hraðar út á vinnumarkaðinn,
        —    fyrir sveitarfélög, vænlegur kostur í stað þess að sjá háskólastúdentum fyrir kostnaðarsamri atvinnubótavinnu.