Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 194 . mál.


217. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.

Flm.: Elínbjörg Magnúsdóttir, Sturla Böðvarsson,


Guðmundur Hallvarðsson, Árni Johnsen.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa sérstaka nefnd til að endurskoða lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Endurskoðunin miði einkum að því að lögin tryggi betur en nú atvinnuöryggi verkafólks með því að takmarka rétt atvinnurekenda til tilefnislausra uppsagna og rétt þeirra til að vísa fólki úr vinnu vegna hráefnisskorts. Nefndin verði skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, auk fulltrúa félagsmálaráðuneytis og Atvinnuleysistryggingasjóðs og ljúki hún störfum fyrir þinglok.

Greinargerð.


    Eins og fram kemur í 1. gr. laga nr. 19/1979 er atvinnuöryggi íslensks verkafólks ekki annað en sá uppsagnarfrestur sem fyrir er mælt í lögunum. Almennt njóta íslenskir launþegar ekki tryggingar fyrir vinnunni að öðru leyti en því að segja ber þeim upp störfum með eins, tveggja eða þriggja mánaða uppsagnarfresti hið mesta ef litið er til laganna, en þar að auki hafa aðilar vinnumarkaðarins samið um sérstakan viðbótaruppsagnarfrest þegar um lengri starfsaldur er að ræða og starfsmenn hafa náð vissum aldri. Íslenskt verkafólk hefur því engan lagalegan rétt til þess að krefjast skýringa á uppsögnum eða vita ástæður fyrir þeim. Uppsagnarrétturinn er allur í höndum atvinnurekanda og þar af leiðandi er uppsögnin alfarið að hans geðþótta.
    Í annan stað felur 3. gr. laganna í sér að falli vinna niður hjá atvinnurekanda þegar hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu eða fyrirtæki verða fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skipstapa, er honum heimilt að fella niður vinnu án launa samkvæmt þeim aðferðum og með þeim skilyrðum sem lögin greina. Þessi grein laganna er einkum harkaleg gagnvart fiskvinnslufólki því að túlkun atvinnurekenda á því hvað sé hráefnisskortur hefur alla tíð verið ákaflega frjálsleg. Fyrir alllöngu hafa aðilar vinnumarkaðarins samið um nánari útfærslu á þessari grein með svokölluðum kauptryggingarsamningum í fiskiðnaði. Hins vegar hefur komið í ljós að þau ákvæði virðast harla haldlítil. Þrátt fyrir ákvæði kjarasamninga og reglugerða er nú svo komið að atvinnurekendur sniðganga með ýmsum aðferðum þá skyldu sína að bjóða verkafólki kauptryggingarsamning að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Flutningsmenn telja ljóst að verkalýðshreyfingin muni í komandi samningum krefjast nýs og endurbætts samnings um kauptryggingu í fiskiðnaði en hins vegar sé ljóst að á meðan 3. gr. laga nr. 19/1979 veiti atvinnurekendum nánast óheftan rétt til þess að senda fiskvinnslufólk heim án launa muni aldrei fást viðunandi lausn í kjarasamningum. Grunninn sé að sækja í umrædda lagagrein og þar sé vandans að leita. Nauðsynlegt sé að gera þær umbætur á 3. gr. laganna að sett verði nánari skilyrði fyrir þeirri aðferð sem atvinnurekendum er þar heimiluð. Skilgreina þarf nánar hráefnisskort og setja skorður við því að hugtakið sé ofnotað, en einnig þarf nauðsynlega að afnema rétt atvinnurekenda til þess að vísa fólki fyrirvaralaust úr vinnu af þessum ástæðum. Einhver uppsagnarfrestur verður að vera ef við eigum á annað borð að viðurkenna rétt fólks til einhvers lágmarksatvinnuöryggis í þjóðfélaginu.