Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 236 . mál.


277. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    2. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 43. gr. laga nr. 111/1992 og 34. gr. laga nr. 122/1993, orðast svo:
    Í sérstökum gjaldflokki skulu vera fiskveiðar, iðnaður, landbúnaður, hugbúnaðariðnaður, hótelgisting, veitingarekstur og útleiga bifreiða, sbr. upptalningu atvinnugreinanúmera í viðauka I við lög þessi.

2. gr.


    3. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 37. gr. laga nr. 122/1993, orðast svo:
    Auk launaframtals launamanna skal maður, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skila sérstöku launaframtali vegna vinnu hans sjálfs og eftir atvikum maka og barna við atvinnureksturinn eða hina sjálfstæðu starfsemi. Á það launaframtal skal færa fjárhæð skv. 3. mgr. 6. gr.

3. gr.


    Við lögin bætist svofelldur Viðauki I sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Viðauki I.


    Í sérstökum gjaldflokki tryggingagjalds skulu vera eftirtaldar atvinnugreinar samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands:
    01.1         Jarðyrkja og garðyrkja.
    01.2         Búfjárrækt.
    01.3         Blandaður búskapur jarðyrkju og búfjárræktar.
    01.5         Dýraveiðar og tengd þjónusta.
    02             Skógrækt, skógarhögg og tengd þjónusta.
    05.01    Fiskveiðar.
    05.02    Rekstur seiða-, fiskeldis- og hafbeitarstöðva.
    10             Kolanám og móvinnsla.
    11              Vinnsla á hráolíu, jarðgasi o.fl.
    12              Nám á úran- og þórínmálmgrýti.
    13              Málmnám og málmvinnsla.
    14              Námugröftur og vinnsla annarra hráefna úr jörðu.
    15              Matvæla- og drykkjarvöruiðnaður.
    16              Tóbaksiðnaður.
    17              Textíliðnaður.
    18              Fataiðnaður; sútun og litun loðskinna.
    19              Leðuriðnaður.
    20              Trjáiðnaður.
    21              Pappírsiðnaður.
    22              Útgáfustarfsemi og prentiðnaður.
    23              Framleiðsla á koxi, olíuvörum og kjarnorkueldsneyti.
    24              Efnaiðnaður.
    25              Gúmmí- og plastvöruframleiðsla.
    26              Gler-, leir- og steinefnaiðnaður.
    27              Framleiðsla málma.
    28              Málmsmíði og viðgerðir.
    29              Vélsmíði og vélaviðgerðir.
    30              Framleiðsla á skrifstofuvélum og tölvum.
    31              Framleiðsla og viðgerðir annarra ótalinna rafmagnsvéla og -tækja.
    32              Framleiðsla fjarskiptabúnaðar og -tækja.
    33              Framleiðsla á lækningatækjum, mæli- og rannsóknartækjum, úrum o.fl.
    34              Framleiðsla vélknúinna ökutækja annarra en vélhjóla.
    35              Framleiðsla annarra farartækja.
    36              Húsgagnaiðnaður, skartgripasmíði, hljóðfærasmíði, sportvörugerð, leikfangagerð og annar ótalinn iðnaður.
    37              Endurvinnsla.
    52.7         Viðgerðir á hlutum til einkanota og heimilisnota.
    55.1         Hótel.
    55.3         Veitingahúsarekstur.
    55.52    Sala á tilbúnum mat.
    71.1         Bílaleiga.
    72.2          Hugbúnaðargerð. Ráðgjöf og sala á hugbúnaði fellur ekki hér undir.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu tryggingagjalds frá þeim tíma og við álagningu tryggingagjalds á árinu 1996 á gjaldstofn ársins 1995. Þó skal 2. gr. gilda um skil launaframtala frá og með árinu 1995.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Allt frá því að tryggingagjald kom fyrst í lög hefur það verið lagt á í tveimur gjaldflokkum, annars vegar almennum gjaldflokki þar sem hlutfallið er 6,35% af gjaldstofni og hins vegar í sérstökum gjaldflokki, en þar er hlutfallið 3% af gjaldstofni. Í lögunum er skilgreint almennum orðum hvaða atvinnugreinar tilheyra hinum sérstaka gjaldflokki. Um nánari skilgreiningu hefur verið vísað til atvinnugreinaflokkunar Hagstofu Íslands. Sú atvinnugreinaflokkun hefur eigi verið birt með formlegum hætti. Hagstofa Íslands hefur unnið að útgáfu nýrrar atvinnugreinaflokkunar og mun hún verða birt á næstunni. Það þykir engu að síður eðlilegt að í viðauka við lögin verði tilgreindar þær atvinnugreinar sem greiða eiga lægra tryggingagjald og er því lagt til að við lögin bætist viðauki þar sem þessar atvinnugreinar eru tilgreindar.
    Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á launaframtalsskilum sjálfstætt starfandi manna með hliðsjón af breytingum sem gerðar voru á lögunum með lögum nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, en í þeim lögum var breytt ákvæðum tryggingagjaldslaga um ákvörðun á gjaldstofni vegna launa manns sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er lögð til breyting á 2. mgr. 2. gr. laganna þar sem skilgreint er hvaða atvinnugreinar skuli vera í sérstökum gjaldflokki tryggingagjalds. Hér er ekki lögð til breyting á efni greinarinnar heldur er eingöngu um formbreytingu að ræða. Í greininni er gerð almenn grein fyrir þeim atvinnugreinum sem greiða eiga lægra tryggingagjald, en síðan er í viðauka við lögin, sbr. 3. gr. frumvarpsins, nákvæm upptalning á þeim atvinnugreinum sem falla í hinn sérstaka gjaldflokk. Ástæður þessarar breytingar eru þær að nýverið gekk dómur Hæstaréttar í málinu nr. 281/1991: Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gegn Sveini Jónssyni er fjallaði um launaskatt blikksmiðju. Þar var deilt um launaskattsskyldu, en því var haldið fram af gjaldkrefjanda að starfsemi blikksmiðjunnar væri launaskattsskyld og var vísað til atvinnugreinaflokkunar Hagstofu Íslands. Með vísan til þess að sú atvinnugreinaflokkun hafði eigi verið birt með lögformlegum hætti komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gjaldskylda blikksmiðjunnar yrði eigi á henni byggð. Sömu rök eiga að vísu ekki við um tryggingagjald og áttu við um launaskatt á sínum tíma. Samt sem áður er æskilegt að það liggi fyrir í lögunum með nákvæmum hætti hverjir skuli teljast til hins sérstaka gjaldflokks. Í viðaukanum er byggt á nýrri atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands sem bráðlega mun taka gildi og verður væntanlega birt innan tíðar sérstaklega á vegum Hagstofunnar.

Um 2. gr.


    Í þessu ákvæði er lögð til breyting á launaframtalsskilum manna sem eru í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Lagt er til að kveðið verði á um að þeir skuli skila inn tveimur launaframtölum. Það byggist á því að gjaldstofn vegna launa mannsins sjálfs liggur ekki fyrir fyrr en hann hefur gert upp til skatts. Því getur hann ekki skilað inn launaframtali vegna eigin launa innan fyrra tímamarks. Eftir sem áður ber honum þó að skila inn launaframtali vegna launa launamanna á sama tíma og annar atvinnurekstur.

Um 3. gr.


    Um skýringar vísast til athugasemda við 1. gr.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.