Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 210 . mál.


290. Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um umhverfismál tengd sinkframleiðslu.

    Hefur umhverfisráðuneytið eða stofnanir þess kynnt sér umhverfisáhrif hugsanlegrar sinkverksmiðju hérlendis, svo sem mengun frá slíkri verksmiðju og í innra umhverfi hennar?
    Svarið er nei. Hins vegar hefur fulltrúi ráðuneytisins ásamt fulltrúa Hollustuverndar ríkisins rætt óformlega við fulltrúa Zinc Corporation of America þar sem að ósk hins erlenda aðila voru kynnt gildandi lög og reglur um slíka framleiðslu hér á landi, svo sem um mat á umhverfisáhrifum, umhverfisvöktun og starfsleyfi.
    Málefni, er snerta innra umhverfi, eru hins vegar á verksviði félagsmálaráðuneytisins og Vinnueftirlits ríkisins, sbr. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

    Ef svo er, hvert er þá álit ráðuneytisins á umhverfisþáttum er tengjast slíkri verksmiðju?
    Þótt umhverfisráðuneytið hafi ekki kynnt sér áhrif slíkrar verksmiðju á umhverfið, enda málið á algjöru frumstigi, liggur fyrir að sú framleiðsla, sem hér um ræðir, er vinnsla á sinki og sinkafurðum úr sinkoxíði og endurunnu hráefni til sinkvinnslu. Þau gögn, sem Zinc Corporation of America hefur lagt fram til þessa, gefa til kynna að mengun frá umræddri vinnslu sé innan þeirra almennu marka sem sett eru í mengunarvarnareglugerð. Þessi gögn hafa þó ekki verið könnuð til hlítar og verða ekki nema sótt verði um starfsleyfi fyrir sinkframleiðslu hér á landi.
    Um byggingu og rekstur sinkframleiðslu hér á landi fer samkvæmt lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, og mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum, hvað umhverfisráðuneytið varðar.