Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 199 . mál.


301. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um lausagöngu búfjár.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur nefnd sú er landbúnaðarráðherra skipaði 9. september 1991 og fjalla átti um lausagöngu og vörslu búfjár lokið störfum og skilað tillögum?
    Sé svo, hverjar eru tillögur nefndarinnar?


    Nefndin ákvað að láta reyna á hlutverk sitt með því að vinna að friðun Reykjanesskagans fyrir ágangi búfjár. Þar var einungis um tvö sveitarfélög að ræða, Grindavíkurbæ og Vatnsleysustrandarhrepp, þar sem önnur sveitarfélög á svæðinu höfðu gengið frá samþykktum um búfjárhald. Haldnir voru fundir með hlutaðeigandi aðilum, svo sem sveitarstjórnum framangreindra tveggja sveitarfélaga, fulltrúum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, fjáreigendum, jarðeigendum, Landgræðslu ríkisins og Vegagerð ríkisins.
    Í framhaldi af þessari vinnu og tillögu nefndarinnar þar að lútandi ákvað Vatnsleysustrandarhreppur að banna lausagöngu búfjár í sveitarfélaginu og bændur samþykktu að hafa fé sitt í vörslu. Sú samþykkt var undirrituð af landbúnaðarráðherra 22. júní 1992.
    Til þess m.a. að mæta óskum Vatnsleysustrandarhrepps um að stöðva fjárrennsli að austan, vestur á Reykjanesskaga, gerði nefndin tillögu um að girt yrði úr höfuðborgargirðingunni í Kleifarvatn og er þeim girðingarframkvæmdum lokið. Ólokið er girðingu úr Kleifarvatni til suðurs sem loka mundi Reykjanesskaganum þar sem endanleg staðsetning hennar getur ráðist af samkomulagi við Grindavíkurbæ um framtíðarskipan beitarmála fyrir fjárbændur þar. Ítrekað hafa verið haldnir fundir með hlutaðeigandi aðilum í Grindavík en án árangurs enn sem komið er.
    Þar sem lausn er ekki enn fyrirsjáanleg á þessu máli er nefndin enn við lýði þótt formlegir fundir hafi legið niðri um nokkurn tíma.