Ferill 59. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 59 . mál.


350. Svar



fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um end urgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa skógarbænda á aðföngum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1 .     Hvaða afstöðu hafa fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra til stöðu skógarbænda á Fljótsdalshéraði hvað það varðar að bændum þar sé eigi heimilt að telja til innskatts kaup á aðföngum til ræktunar nytjaskóga?
     2 .     Eru ráðherrarnir reiðubúnir að beita sér fyrir aðgerðum, jafnvel lagasetningu, til að breyta þessari stöðu mála þannig að nýsköpun sem þessi í atvinnulífi þurfi ekki að líða fyrir skattatæknileg atriði af þessum toga?


    Með lögum nr. 32/1991, um Héraðsskóga, var ákveðið að ríkið legði fram fé til ræktun ar nytjaskóga. Er þar gert ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði nægi til að greiða ákveðinn hundraðshluta af kostnaði við ræktun nytjaskóga samkvæmt nánari ákvæðum laganna.
    Í upphafi var framkvæmdin með þeim hætti að skógarbændur fengu afhentar skógarplöntur til ræktunarstarfsins. Á árinu 1994 verður hins vegar sú breyting í fram kvæmd að í stað þess að fá afhentar plöntur er skógarbændum veitt fé til kaupa á plöntum. Við úthlutun á fjármagni til skógarbændanna fyrir árið 1994 var gengið út frá því að starf semin fengist skráð í virðisaukaskattskerfinu og virðisaukaskattur fengist frádreginn sem innskattur.
    Þegar skattstjóra Austurlandsumdæmis fara að berast beiðnir um endurgreiðslu inn skatts og skráningu skógarbænda í virðisaukaskattskerfið gerir hann athugasemdir og telur að ekki sé um virðisaukaskattsskyldan rekstur að ræða. Byggir hann það m.a. á 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 en þær greinar fjalla m.a. um skattskylda að ila og innskatt. Einnig vísar skattstjóri til laga nr. 32/1991, um Héraðsskóga, og telur að uppbygging nytjaskógar „sé styrktarverkefni á vegum ríkisins í gegnum Héraðsskóga en ekki starfsemi þeirra aðila sem getið er um í 3. gr. virðisaukaskattslaga“.
    Ríkisskattstjóri hefur skrifað skattstjórum a.m.k. tvö bréf um skráningu aðila í virðis aukaskattskerfið. Síðara bréfið, sem er dagsett 6. september 1991, fjallar sérstaklega um skráningu skógræktarbýla. Þar tekur ríkisskattstjóri fram að eðlilegt geti verið að taka aðila á skrá þótt innskattur sé að staðaldri hærri en útskattur, t.d. þegar um nýstofnuð fyrirtæki er að ræða. Meginskilyrði er þó að ljóst sé að um sé að ræða atvinnustarfsemi, þ.e. starf semi sem miðar að hagnaði eftir eðlilegan uppbyggingartíma. Um skógrækt segir ríkis skattstjóri að nauðsynlegt sé „að greina á milli þeirra sem rækta skóg með atvinnusjónarmið í huga og hinna sem stjórnast af öðrum hvötum“. Hann telur rétt „að skráning verði að svo stöddu takmörkuð við þá aðila sem hafa a.m.k. eitt undanfarandi ár haft tekjur umfram gjöld af skógrækt sinni, enda sé skattskyld sala umfram lágmark skv. 3. tölul. 4. gr. virðis aukaskattslaga“. Þessi sjónarmið telur landbúnaðarráðherra ekki í samræmi við lög um virðisaukaskatt.
    Tilgangur laga um Héraðsskóga er að stuðla að ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir. Gerð er sérstök áætlun um nýtingu þess lands sem vel er fallið til skógræktar og gerður samningur við þá sem taka þátt í verkefn inu. Gert er ráð fyrir samkvæmt lögunum að skógræktin geti bæði farið fram á jörðum í ábúð og eyðijörðum. Ríkissjóður greiðir 97% kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð og 75% kostnaðar á eyðijörðum samkvæmt lögunum.
    Skattyfirvöldum er lögð sú skylda á herðar að ákveða hverjum sé rétt og skylt að skrá starfsemi sína sem skattskylda starfsemi. Leiðsögn laganna í þessu efni er mjög almenns eðlis. Við túlkun þeirra geta togast á þau sjónarmið að heimila skráningu í þeim tilgangi að tryggja raunverulegri atvinnustarfsemi eðlilega aðstöðu og varfærnissjónarmið þess efnis að koma í veg fyrir misnotkun á endurgreiðslum úr skattkerfinu. Álitamál þetta er ekki einangrað við skógarbændur en hefur komið mjög glöggt fram í máli þeirra.
    Enginn ágreiningur er um það grundvallaratriði virðisaukaskattsins að öll skattskyld framleiðsla, sala og þjónusta skuli njóta endurgreiðslu á innskatti á aðföng til fjárfesting ar og framleiðslu. Enn fremur er ljós sú nauðsyn að framkvæmdareglur skattkerfisins séu með þeim hætti að þær bjóði ekki upp á mismunun og misnotkun. Í ljósi fenginnar reynslu um rétt og skyldu til skráningar þykir rétt að gera á þeim breytingu í því skyni að taka af tvímæli og gera þau markvissari. Hefur því verið lögð fram tillaga um breyt ingar á lögunum.
    Samkvæmt tillögunni verða sett ákvæði í lögin sem heimila skráningu aðila sem ekki uppfylla þau skilyrði sem nú eru sett um veltu enda verði sýnt fram á að um sé að ræða raunverulega atvinnustarfsemi sem reiknað er með að skili arði síðar. Jafnframt er gert ráð fyrir að lögfesta núverandi framkvæmdareglur sem tryggja eiga að misnotkun eigi sér ekki stað.
    Lagabreyting þessi mun leiða til þess að sú starfsemi skógarbænda, sem miðar að því að undirbúa arðbæra og skattskylda starfsemi síðar, getur fengið skráningu og þar með rétt til innskatts af aðföngum. Breyting þessi gæti tekið gildi 1. janúar 1995 verði hún samþykkt á Alþingi.
    Skattstjóri Austurlands hefur nú fellt úrskurð í kærumálum skógarbænda á Héraði sem staðfestir fyrri afstöðu og hafnar endurgreiðslu innskatts fyrir árið 1994. Með hliðsjón af framangreindum áformum um lagabreytingu þykir ekki rétt að þeim úrskurði sé áfrýjað nú, heldur leitað heimildar Alþingis fyrir aukafjárveitingu sem samsvari endurgreiðslunni.