Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 325 . mál.


493. Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 78/1993, um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)1. gr.


    2. gr. laganna hljóðar svo:
    Verndar samkvæmt lögum þessum nýtur sá sem hannað hefur svæðislýsingu smárása í hálfleiðara eða sá aðili eða lögaðili er öðlast hefur rétt hans.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í núgildandi lögum um vernd svæðislýsinga smárása er kveðið á um í 2. gr. að verndin samkvæmt lögunum nái aðeins til íslenskra ríkisborgara og lögaðila. Undantekningu frá þessu er síðan að finna í 2. mgr. sömu greinar en þar segir að ráðherra geti með reglugerð veitt sama rétt til ríkisborgara þeirra ríkja sem veita íslenskum ríkisborgurum sams konar rétt. Þetta skilyrði um gagnkvæmni sem skilyrði verndar er undantekning í hugverkarétti sem vernd svæðislýsinga smárása telst falla undir. Ástæða þess að ákvæðið um gagnkvæmni var tekið upp í okkar löggjöf var sú að flest önnur ríki sem höfðu löggjöf um vernd smárása byggðu á gagnkvæmni. Var það gert til að knýja á um að sem flest ríki settu lög sem tryggðu vernd svæðislýsinga smárása. Nú liggur fyrir að þegar nýgerður GATT-sáttmáli, sem tekur m.a. til flestra hugverkaréttinda, tekur gildi mun skylt að veita vernd á sviði allra hugverka réttinda, þar með talinna svæðislýsinga smárása, á grundvelli „national treatment“. Það þýðir að veita verður þegnum erlendra ríkja sama rétt og þegnum þess ríkis sem löggjöfina set ur. Með tilliti til þess að Ísland hefur undirritað þennan nýja alþjóðasáttmála er hér með lagt til að vernd samkvæmt íslenskum lögum um svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum nái til allra sem hannað hafa slíka svæðislýsingu eða þeirra aðila sem öðlast hafa rétt hönnuðar án tillits til ríkisborgararétts.
    Ástæða þess að lagt er til að þessi breyting taki gildi nú þegar er sú að vegna skuldbind inga okkar samkvæmt EES-samningnum liggur fyrir að við þurfum að veita ríkisborgurum ýmissa ríkja, sem ESB hefur komist að samkomulagi við um að veita vernd á gagnkvæmnis grundvelli, sams konar vernd. Eins og okkar löggjöf er háttað er aðeins hægt að veita slíka vernd eftir tímafrekum og flóknum leiðum, þ.e. formlegar bréfaskriftir þarf til að fá form lega staðfestingu á gagnkvæmni og síðan þarf að setja reglugerð. Þar sem fyrir liggur að við gildistöku nýja GATT-sáttmálans verði okkur skylt að taka upp þann hátt sem hér er lagður til verður að telja hagkvæmast að þessi breyting verði gerð svo fljótt sem unnt er.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


nr. 78/1993, um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.


    Frumvarpið miðar að því að rýmka heimildarákvæði í 2. gr. laganna til að veita vernd þeim fyrirtækjum og lögaðilum sem hanna svæðislýsingu smárása í hálfleiðara. Eins og nánar er rakið í athugasemdum við frumvarpið leiðir þessi lagabreyting af þátttöku Ís lands í erlendu samstarfi eins og GATT og samningnum við EES. Núgildandi lagaákvæði miðast við að vernda íslenska ríkisborgara og þá sem hafa fasta búsetu hér á landi en verði þetta frumvarp að lögum verður að veita þeim þegnum erlendra ríkja sama rétt og þegnum þess ríkis sem setur löggjöfina.
    Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps leiði af sér kostnaðarauka fyrir ríkis sjóð.