Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 387 . mál.


623. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu glasafrjóvgunardeildar Landspítalans.

Flm.: Ingibjörg Pálmadóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Guðrún J. Halldórsdóttir,


Petrína Baldursdóttir, Svavar Gestsson, Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir.



    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að sjá til þess að nú þegar verði hafinn undirbúningur að því að efla glasafrjóvgunardeild Landspítalans og tryggja nauðsynlegar fjárveitingar á fjáraukalög um ársins 1995 í því skyni. Markmiðið verði að tvöfalda afkastagetu deildarinnar með bættum tækjabúnaði og húsnæði þannig að unnt verði að stytta langan biðtíma.

Greinargerð.


1. Staðan á glasafrjóvgunardeild Landspítalans.
    Stofnsetning glasafrjóvgunardeidar við Landspítalann árið 1991 var mikið framfaraspor og hafa nú á þriðja hundrað börn fæðst hér á landi fyrir tilstuðlan deildarinnar. Fram að þeim tíma þurftu konur að fara í tæknifrjóvgun erlendis og árlega fóru héðan á annað hundrað pör í því skyni. Tryggingastofnun ríkisins greiddi sjúkrakostnað samfara aðgerðunum og námu greiðslur stofnunarinnar að jafnaði rúmlega 20 millj. kr. á ári.
    Í upphafi var gert ráð fyrir að á glasafrjóvgunardeild Landspítalans yrðu gerðar 100– 150 aðgerðir á ári og öll aðstaða og tækjabúnaður voru við það miðuð. Þrátt fyrir að aðgerðum hafi fljótlega verið fjölgað í um 250 á ári vegna mikillar eftirspurnar og árangur deildarinnar sé með því allra besta sem þekkist hefur myndast þar mjög langur biðlisti sem sífellt lengist. Nú bíða um 650 pör eftir því að komast í aðgerð. Þau pör sem eru á biðlistanum nú þurfa að bíða í rúm lega tvö ár og þeir sem nú eru skráðir geta vænst þess að komast að vorið 1997. Mikilvægt er að benda á að einungis eru um þriðjungs líkur á því að fyrsta aðgerð takist. Tölfræðilega þurfa því um 400 pör af þeim 650, sem í dag eru á biðlista, að fara aftur í aðgerð og komast þá ekki að fyrr en árið 2000 miðað við óbreytt afköst deildarinnar.

2. Nauðsynlegar úrbætur.
    Nefnd á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Ríkisspítala hefur metið hvaða kostnaður er því samfara að tvöfalda afkastagetu glasafrjóvgunardeildarinnar. Samkvæmt frum athugun nefndarinnar er áætlað að 9 millj. kr. þurfi til kaupa á fósturvísafrysti og til smásjár glasafrjóvgunar og um 31 millj. kr. til breytinga á húsnæði. Þar er annars vegar um að ræða 13 millj. kr. til breytinga á Fæðingarheimilinu við Eiríksgötu, þannig að unnt verði að flytja mæðraskoðun þangað úr kjallara kvennadeildar Landspítalans, og hins vegar 18 millj. kr. til að koma þar upp aðstöðu fyrir glasafrjóvgunardeildina. Auk þess er talið að ráða þurfi þrjá nýja starfsmenn. Heildarkostnaður er því metinn um 40 millj. kr. og mun hann ekki einungis nýtast glasafrjóvgunardeild heldur einnig framtíðarstarfsemi kvennadeildar Landspítalans. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hér er um stofnkostnað að ræða en tekjur glasafrjóvg unardeildarinnar nema nú um 20 millj. kr. á ári og munu aukast í réttu hlutfalli við fjölgun að gerða. Þá er rétt að geta þess að áætla má að með tilkomu fósturvísafrystis sparist milljóna króna lyfjakostnaður árlega. Það byggist á því að í um 125 af þeim aðgerðum sem gerðar eru á ári hverju er afgangs fósturvísum hent í stað þess að frysta þá og nota í aðra aðgerð. Ef unnt yrði að geyma þá yrði komist hjá lyfjameðferð sem kostar um 40 þús. kr., auk þess sem aðgerðin sjálf yrði mun ódýrari en ella. Þá er rétt að benda á að gera má ráð fyrir sparn aði með tilkomu smásjárfrjóvgunar sem gerir kleift að aðstoða pör þar sem aðalorsök ófrjósemi er hjá manninum. Nú leita pör til útlanda í þessu skyni og Tryggingastofnun ríkisins greiðir um 240 þús. kr. fyrir hverja meðferð, auk þess sem hún kostar sjúklinga um 500 þús. kr. Sérfræðingar Landspítalans áætla að framkvæma þurfi nú um 50 smá sjárglasafrjóvganir á ári.

3. Atbeini Alþingis.
    Fyrir liggur að með tiltölulega litlum stofnkostnaði, eða um 40 millj. kr., má bæta til langframa úr stöðu hundruða íslenskra hjóna. Er þá hvorki tekið tillit til aukinna sér tekna glasafrjóvgunardeildar né hugsanlegs sparnaðar sjúkratrygginga. Afar brýnt er að þegar sé bætt úr hinni miklu þörf sem fyrir hendi er á þessu sviði þar sem fyrirsjáanlegt er að vandinn mun aukast á komandi árum verði ekki að gert. Þar er atbeini heilbrigð is- og tryggingamálaráðherra og stuðningur Alþingis nauðsynlegur þannig að fjárveit ing verði tryggð og sú framúrskarandi starfsemi sem nú fer fram á glasafrjóvgunardeild inni verði styrkt.