Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 444 . mál.


761. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, nr. 54/1992, með síð ari breytingu.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar (MB, VE, IP, ÁRÁ, GHall, StG, GunnS).



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða:
     a .     1. málsl. orðast svo: Skipum, sem hafið hafa fullvinnslu botnfiskafla fyrir gildistöku laga þessara og skipum sem veitt hefur verið veiðileyfi í þeirra stað skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sbr. 1. gr. laga nr. 87/1994, skal veittur frestur til að full nægja kröfum laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim.
     b .     2. málsl. fellur brott.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með reglugerð nr. 44/1981 um stjórn botnfiskveiða 1984 var í fyrsta sinn sett það skilyrði fyrir veitingu veiðileyfis til nýs eða nýkeypts skips að annað af svipaðri stærð væri tekið úr rekstri. Reglurnar um það hvers konar skip skuli hverfa úr rekstri fyrir nýtt eða nýkeypt skip hafa breyst nokkuð og nú gildir sú regla að falli veiðileyfi skips niður má veita nýju eða ný keyptu sambærilegu skipi veiðileyfi í þess stað enda hafi réttinum til endurnýjunar ekki verið afsalað, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Sú regla að í stað skips eða skipa, sem úr rekstri hverfa, megi veita nýju eða nýkeyptu skipi veiðileyfi hefur alla tíð frá árinu 1984 verið grundvallarregla við stjórn fiskveiða. Þá er samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða unnt að flytja flest réttindi sem fiskiskip hefur til nýs eða nýkeypts skips, svo sem aflahlutdeild ir. Með lögum nr. 54/1992 var ekki gert ráð fyrir að unnt væri að flytja leyfi skips til fullvinnslu botnfiskafla um borð til nýs eða nýkeypts skips sem fengi veiðileyfi í þess stað.
    Með lagafrumvarpi þessu er ætlunin að sú breyting verði að skip, sem fær veiðileyfi í stað skips sem hefur leyfi til fullvinnslu botnfiskafla um borð, hafi sama frest til að uppfylla skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og það skip sem hverfur varanlega úr rekstri hafði. Rétt þykir að þeir útgerðaraðilar sem höfðu hafið fullvinnslu um borð í veiðiskipi við gildistöku laganna hafi sama frest og þeir höfðu við setningu laganna til að uppfylla skilyrði þeirra þó að þeir endurnýi skip sín með nýjum eða nýkeyptum skipum.
    Í frumvarpinu er þannig lögð til sú breyting að til viðbótar þeim skipum sem höfðu hafið fullvinnslu botnfiskafla við gildistöku laga nr. 54/1992 hafi skip sem veitt hefur verið veiðileyfi í þeirra stað skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 einnig frest til að uppfylla kröfur laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim. Með 1. gr. laga nr. 87/1994 var 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 breytt á þann hátt að heimilt er að veita fleiri en einu skipi veiðileyfi í stað skips sem úr flotan um hverfur. Verði fleiri en einu skipi veitt veiðileyfi í stað skips sem hefur leyfi til fullvinnslu skal einungis eitt þeirra skipa sem veiðileyfi hlýtur hafa frest til að fullnægja ákvæðum laga nr. 54/1992 og reglugerða settra samkvæmt þeim.
    Með því að fella 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða brott er heimilað að skip sem áður hafði leyfi til að fullvinna afla um borð samkvæmt einni vinnsluaðferð geti breytt um eða bætt við fullvinnsluaðferð. Þannig getur t.d. skip, sem hefur leyfi til að frysta fullunn inn afla um borð, fengið leyfi til að salta aflann um borð og öfugt.
    Frumvarp þetta er flutt af meiri hluta sjávarútvegsnefndar. Minni hlutinn mun gera grein fyrir afstöðu sinni við umræðu málsins. Anna Ólafsdóttir Björnsson sat fundi nefnd arinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk flutningi þess.