Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 22:44:49 (35)


[22:44]
     Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Góðir Íslendingar. Annað ráðuneyti Davíðs Oddssonar er myndað til að tryggja traust, öryggi og festu á öllum sviðum þjóðlífsins. Að baki ríkisstjórninni stendur mikill meiri hluti þingmanna og hið sama má segja um stuðning hennar meðal þjóðarinnar, hann er ótvíræður.
    Hér á Alþingi standa stjórnarflokkarnir tveir, stærstu flokkar þjóðarinnar, frammi fyrir stjórnarandstöðu sem er sundruð og sundurleit þótt hún segist vilja sameinast. Umræðurnar hér í kvöld hafa sýnt okkur að þessir flokkar hafa lítið annað til mála að leggja þegar hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi en marklaus hnjóðsyrði í garð framsóknarmanna.
    Fráfarandi formaður Alþb., stærsta stjórnarandstöðuflokksins, hefði átt að beina umhyggju sinni að eigin flokki. Alþb. verður á næstu mánuðum bundið við innbyrðis átök. Í málgagni flokksins, Vikublaðinu, birtist í síðustu viku grein eftir ritstjóra þess þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Íslenskir sósíalistar eiga í erfiðleikum með fortíðina vegna þess að þeir höfðu ekki döngun í sér til að horfast í augu við eðli hugmyndafræðinnar sem elstu flokksfélagarnir ánetjuðust á þriðja áratugnum.``
    Í þessum orðum felst mikilvæg viðurkenning úr óvæntri átt á nauðsyn þess að Alþb. og óháðir geri upp við hina sósíalísku fortíð. Vegna klofnings er Alþfl. í sárum eins og fram kom í ræðu formanns hans.
    Herra forseti. Í ræðu sinni komst hæstv. forsrh. þannig að orði: ,,Fjárfesting í menntun og þekkingu er líklegri til að skila arði en fjárfesting í sumum öðrum þáttum hefðbundinnar framleiðslu og þjónustu.`` Undir þessi orð tek ég heils hugar. Þau vekja þá spurningu hvort við nálgumst ekki umræður um mennta- og skólamál, vísindi, rannsóknir og menningu á röngum forsendum með því að kenna ráðuneyti þessara mála við útgjöld. Í þeirri skilgreiningu felst að við séum að verja skattfé almennings með frekar neikvæðum hætti. Mörk eru dregin á milli atvinnuvegaráðuneyta sem kennd eru við sjávarútveg, iðnað, landbúnað og viðskipti og útgjaldaráðuneyta eins og menntmrn. Oft má skilja umræðu þannig að í fyrri flokknum séu ráðuneyti sem skapa tekjur og atvinnu en hinum síðari þau sem eyða opinberum fjármunum.
    Þessi flokkun er til marks um úreltan hugsunarhátt. Útgjöld til menntamál eru ekki eyðsla heldur fjárfesting. Góð menntun og þekking þjóðarinnar eru jafnvel mikilvægari auðlindir en þær sem finnast til lands og sjávar. Menntmrn. er eitt helsta atvinnuvegaráðuneyti okkar þegar grannt er skoðað. Þar vísa ég ekki aðeins til þeirra þúsunda eða tugþúsunda sem starfa í skólunum heldur til hins mikla gildis sem menntun og þekking hefur fyrir atvinnu hér og hvarvetna annars staðar. Er brýnt að skólar og menningarstofnanir almennt tileinki sér starfshætti sem eru í samræmi við kröfur tímans. Þetta á við um innra starf og nýjar hugmyndir um rekstrarform, framtak einkaaðila og aðferðir til að tryggja að opinberir fjármunir nýtist sem best.
    Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein. Í Viðskiptablaðinu í gær birtist úttekt á henni. Blaðið kemst að þeirri niðurstöðu að öll upplýsinga- og rannsóknavinna vegna ferðaþjónustu sé í molum, nánast engin tölfræði sé til og ekkert vitað um þá ferðamenn sem hingað koma. Upplýsingar séu þó undirstaða alls, markaðssetningar, áætlunargerðar, skipulagningar og fjárfestingar. Ekki er vitnað til þessara orða hér til að taka undir dóminn sem í þeim er felldur. Á hinu er vert að vekja rækilega athygli að lausnin á vandanum felst að mati blaðsins í auknum rannsóknum og þekkingu. Þetta á ekki aðeins við um ferðaþjónustuna heldur alla atvinnustarfsemi. Hún fær ekki þrifist sem skyldi nema hugað sé að þessum grundvallarþáttum. Við blasir að taka stefnumarkandi ákvarðanir um sjávarútvegsfræði og matvælarannsóknir. Þar á að hafa að leiðarljósi að Íslendingar verði í forustu á heimsmælikvarða og með hliðsjón af því hlýtur að koma til álita að stofna hér sjávarútvegsskóla í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.
    Menntun er sífellt að verða alþjóðlegri. Ótti við að aukið alþjóðasamstarf sé menningu okkar hættulegt er með öllu ástæðulaus. Að mínu mati á hið gagnstæða við. Við höfum gaman af því að bera saman kjör okkar og annarra þjóða. Slíkur samanburður byggist yfirleitt á fjárhagslegu mati. Lífskjörin ráðast þó af miklu fleiru, m.a. af grósku í menningar- og listalífi og aðstöðu til að stunda það. Sem betur fer viljum við Íslendingar aðeins líta til hins besta og þess sjást víða merki. Ísland er ekki verstöð heldur þrífst í landinu þjóðfélag sem stenst miklu strangari kröfur. Þar ræður menning og menntun úrslitum. Í þessu tilliti má ekki heldur einblína á útgjöld sem eyðslu. Framlög til menningarmála eru fjárfesting í betra og fjölbreyttara þjóðfélagi.
    Samkeppni um vinnuafl er alþjóðleg. Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu opnuðum við ekki aðeins íslenskan vinnumarkað fyrir íbúum annarra landa, við opnuðum einnig þennan stóra, evrópska vinnumarkað fyrir Íslendingum. Til að menn geti nýtt sér hin nýju tækifæri þurfa þeir að vera vel menntaðir. Til að Ísland geti haldið í þá einstaklinga sem eiga greiða leið til góðra starfa hvar sem er þarf íslenskt þjóðfélag að standast alþjóðlega samkeppni við þá sem eru í fremstu röð. Í þessari skilgreiningu felst mikil áskorun, ekki síst á hendur þeim sem standa að menntun og menningu þjóðarinnar. Hún snertir einnig fjölmarga aðra þætti er lúta sérstaklega að yngri kynslóðunum og má þar nefna íþróttir. Fátt er þjóðum meira til framdráttar heima fyrir og út á við en öflugt íþróttastarf bæði til keppni og heilsuræktar.
    Á síðasta kjörtímabili fór fram endurskoðun á lögum um grunnskóla og framhaldsskóla. Mótuð var ný menntastefna. Grunnskólastarf verður flutt af höndum ríkisins til sveitarfélaganna fyrir 1. ágúst 1996. Það tekst ekki nema í góðri samvinnu við sveitarfélög, kennara og foreldra. Ekki er unnt að framfylgja grunnskólalögunum án náinnar samvinnu við foreldra. Þeir hljóta næst á eftir börnum að teljast stærsti hagsmunahópur sem skólakerfið þjónar. Þeim ber í raun skylda til að láta skólamál sig varða.
    Einnig verður unnið að því að hrinda í framkvæmd lögunum um listnám á háskólastigi og vænti ég góðrar samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna um það mál. Frv. til laga um framhaldsskóla verður endurflutt næsta haust. Unnið verður að því að koma á fót uppeldisháskóla og þannig mætti áfram telja. Skólastarf og allt atvinnulíf þrífst ekki nema á grundvelli rannsókna og upplýsinga. Nýta á nýja tækni til upplýsingaöflunar og miðlunar. Er fagnaðarefni hve íslenskir skóla- og vísindamenn hafa verið ötulir við að tileinka sér nýja tækni á þessu sviði. Verður að gæta að því að hið tæknilega umhverfi þeirra standist kröfur tímans og sé í samræmi við hina miklu notkun. Ég tel óhjákvæmilegt að stjórnvöld marki skýra og víðsýna stefnu varðandi upplýsingatæknina og hljóta yfirvöld menntamála að koma þar mjög við sögu því að stærstu notendurnir eru einmitt á þeirra starfsvettvangi.
    Áður var minnst á ferðaþjónustuna og vaxandi gildi hennar. Hvergi dafnar hún betur en þar sem hún þróast í blómlegu menningar- og listalífi. Að þessu þarf ekki aðeins að huga í þéttbýli heldur um land allt. Menningarstofnanir eiga þannig að vera lifandi þáttur í atvinnulífinu án þess að slegið sé af fræðilegum og faglegum kröfum. Við þurfum að búa þessum stofnunum sómasamlega aðstöðu. Taka þarf ákvarðanir í því efni vegna gamalla bygginga og einnig nýrra, eins og að því er varðar tónlistarstarfsemi í höfuðborginni.
    Allt kostar þetta peninga, mikla peninga. Markmið á þessum sviðum þarf að samræma því höfuðmarkmiði ríkisstjórnarinnar að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins á kjörtímabilinu.
    Í kosningabaráttunni lögðu allir stjórnmálaflokkar meiri áherslu á menntamál en oftast áður. Ég vona að sú áhersla njóti sín í verki þegar teknar verða ákvarðanir um ráðstöfun takmarkaðra fjármuna ríkissjóðs. Mikilvægt er að í því efni líti menn til þess sem skilar mestum árangri til lengdar en láti ekki stjórnast af stundarhagsmunum.
    Herra forseti. Góðir Íslendingar. Minnumst þess að það eru engir aðrir en Íslendingar sem hafa þeirri skyldu að gegna um gjörvalla heimsbyggðina að gæta íslenskrar tungu og menningar. Við vörpum þeirri ábyrgð ekki af herðum okkar með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Á hinn bóginn mun það auðvelda okkur alhliða sókn út á við ef við sinnum heimavinnu okkar vel. Ríkisstjórn sem leggur áherslu á traust, öryggi og festu á öllum sviðum þjóðlífsins er stjórn sem vill öflugt og agað skóla- og menntakerfi og standa vörð um íslenskan menningararf.