Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:37:21 (131)


[18:37]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið hér fram vegna þess að hún náttúrlega skýrir mjög mikilvæga hluti og það er nauðsynlegt að hv. forsætisnefnd fari yfir þessi mál mjög rækilega, þau grundvallaratriði sem hér er verið að fjalla um, þ.e. þau grundvallaratriði að menn noti ekki aðstöðu sína til þess að gerbreyta niðurstöðum Alþingis í þágu sinna hagsmuna eða þeirra sem þeir eru að starfa fyrir með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan að gæti átt við hv. þm. Vilhjálm Egilsson. Ég held að það sé þeim mun nauðsynlegra að umræða fari fram um þetta mál og menn átti sig á þessum grundvallaratriðum sem það hefur komið fram að menn hér leggja að jöfnu annars vegar viðhorf og stöðu hv. 17. þm. Reykv., Ögmundar Jónassonar, og hins vegar stöðu framkvæmdastjóra Verslunarráðsins í þessu máli, hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Ég tel að það sé nauðsynlegt að menn fari mjög rækilega yfir það hvar á að draga mörkin. Ég held að það sé nauðsynlegt núna að hv. forsætisnefnd og forseti fari yfir þessi mál og felli úrskurð, felli prinsippúrskurð í þessu máli. Vegna þess að hérna mega hlutirnir ekki vera í neinni þoku.
    Það er náttúrlega alveg ljóst að það er ekki hægt að gera þá kröfu til þingmanna að þeir eigi aldrei neina hagsmuni af neinu tagi í þeim málum sem um er fjallað. Mér finnst satt að segja stundum eins og menn tali eins og hér eigi að vera fulltrúar utan úr geimnum, geimverur sem eiga engin tengsl við eitt eða neitt í þjóðfélaginu. Auðvitað eru menn fulltrúar ákveðinna sjónarmiða, stétta og hagsmuna í mörgum tilvikum. T.d. er hér einn stjórnmálaflokkur sem telur sig sérstaklega vera fulltrúa hagsmuna kvenna svo ég nefni dæmi. Það er því nauðsynlegt að horfa á það annars vegar og hins vegar hitt þegar menn beita sér fyrir því að kæra sjálfa sig fyrir alþjóðastofnun og knýja þannig fram tillögu frá hæstv. ríkisstjórn um breytingar á lögum landsins, á því er býsna mikill munur, hæstv. forseti.
    Ég held þess vegna að það sé óhjákvæmilegt bæði að þakka fyrir umræðuna og frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í henni og hvetja um leið til þess að forsætisnefndin noti þetta tækifæri og komist að niðurstöðu í málinu áður en umræðunni lýkur því það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu öðruvísi en að þessi niðurstaða forsætisnefndarinnar eða forsetans, sem er úrslitaaðili í málinu en ekki nefndin, liggur fyrir.