Stjórnarfrumvörp um stjórn fiskveiða og GATT

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 13:44:48 (154)


[13:44]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs að nýju í ætlan minni að svara forsrh. Auðvitað er það ljóst og við þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu gerum okkur fulla grein fyrir því hversu margir starfsdagar hafa verið hér frá því að við komum saman til setningar þings á þriðjudegi fyrir viku. En það lá að sjálfsögðu fyrir í upphafi hvernig virkir dagar yrðu fram undan og við höfðum þinghald á föstudeginum í síðustu viku þannig að það hefði undir venjulegum kringumstæðum talist löng vika. Það er alveg ljóst að ef þau frv. sem hér var vakið máls á hefðu legið fyrir á fyrsta degi þings sem eðlilegt og sjálfsagt hefði verið með góðum vinnubrögðum þá væru þau hugsanlega komin til nefndar núna og nefndir farnar að starfa með þau frv. og hefði verið hægt að senda þau út til umsagnar o.s.frv. Ég vek athygli á því að eftir 10 daga eru frv. ekki komin fram, umræða á eftir að fara fram í þingsal, mál eftir að fara til nefndar, það á eftir að leita umsagna og fá gesti á fundi nefnda til að fjalla um þau og síðan þarf 2. og 3. umr. að fara fram. Það er því ekki óeðlilegt að við höfum áhyggjur af því að þinghald muni dragast mjög frá því sem áformað var.