Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:03:18 (167)


[15:03]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að eftir því sem ég best veit hafa Norðmenn lýst því yfir að þeir muni afgreiða sambærilegt frv. sem lög frá Stórþinginu fyrir lok þess þings sem stendur yfir í Noregi. Það má vel vera að ýmsir hafi gengið út frá því að ekki yrðu neinar breytingar hér á landi vegna EES-samningsins. Ég tel að það hafi ekki verið rétt mat og kom aldrei fram hjá utanrrn. á þeim tíma. Það kom fram á sínum tíma að utanrrn. hélt því fram að ÁTVR gæti haldið einkasölu til smásölu en ráðuneytið hefur jafnframt tekið það skýrt fram í gegnum tíðina að ekki megi mismuna á grundvelli þjóðernis við innflutning á áfengi. Í 16. gr. EES-samningsins um ríkiseinkasölu segir að tryggja verði að hún geri ekki greinarmun á grundvelli ríkisfangs hvað snertir skilyrði til aðdráttar og markaðssetningar. Jafnframt segir í sömu greinargerð að taka verði tillit til þess hvernig ákvæðið er túlkað innan ESB þannig að það kom alveg fram af hálfu utanrrn. á þessum tíma að þarna gæti þurft að verða breyting á. Ég tel að allir hafi viljað reyna að haga því þannig að óbreytt skipan gæti að miklu leyti staðist áfram. En nú liggur þessi úrskurður fyrir. Hann er málefnalegur, hann byggir m.a. á dómi sem var kveðinn upp í desember að því er varðar finnskt mál og hvað svo sem líður fortíðinni stöndum við frammi fyrir því hvort ber að fara eftir þessum úrskurði eða ekki. Vel má vera að einhverjir séu þeirrar skoðunar að það beri að láta á hann reyna fyrir dómstóli en ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel rangt að gera það.