Gjald af áfengi

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:18:50 (171)


[15:18]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var fallist á það hér af hálfu stjórnarandstöðunnar að mælt yrði fyrir þessu frv. þótt hæstv. fjmrh. væri fjarverandi. Ég leyfi mér þess vegna að bera fram þessar tvær fyrirspurnir til hæstv. forsrh. þótt það kunni kannski að koma honum á óvart miðað við það að hann er ekki ábyrgðaraðili yfir þessu ráðuneyti en við erum í þeirri stöðu að eiga ekki annan möguleika.
    Fyrri spurningin víkur að því að með þessu frv. er opnað á það að mikill fjöldi fyrirtækja verður innheimtuaðili fyrir ríkissjóð á þeim tekjum sem ríkissjóður hefur haft af áfengi til þessa. Því miður er það staðreynd við framkvæmd áður söluskatts og nú virðisaukaskatts að verulegar upphæðir hafa tapast vegna þess að fyrirtæki verða gjaldþrota og ríkissjóður tapar þannig verulegum upphæðum. Nú er með þessu frv. opnuð sú leið að fyrirtæki kaupi inn mikið magn af áfengi, selji það síðan til veitingahúsa sem jafnvel sömu aðilar eru eignaraðilar að en er annað fyrirtæki en innkaupafyrirtækið sé síðan gert gjaldþrota og svo stofnað nýtt í kjölfarið. Mér sýnist ekkert vera í þessu frv. sem kemur í veg fyrir það að með þessari nýju skipan sé verið að opna á ansi víðtæka svikamyllu fyrir fyrirtæki að stinga undan fjármunum allverulegum sem eru í raun og veru eign ríkisins. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. starfandi fjmrh. eftir því hvort ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að eitthvert sérstakt eftirlit verði haft með þessum fyrirtækjum eða hvort ætlunin sé bara að beita þeim almennu tækjum sem hingað til hafa reynst erfið og eru satt að segja frekar bitlaus þegar möguleikinn er opnaður með eina vörutegund, þ.e. áfengi, af þessu tagi sem auðvelt er að koma þess vegna beint í verð á fáeinum dögum til annars fyrirtækis sem sömu aðilar kunna að eiga.