Áfengislög

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 16:02:44 (181)


[16:02]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 8. þm. Reykv. að ég hygg að umræða um þessi efni sem

hér eru til umfjöllunar sé jafnan til góðs og hafi almenn varnaðaráhrif í þjóðfélaginu því að hér erum við vissulega að fjalla um mjög viðkvæmt viðfangsefni. Að því er varðar spurningu hv. þm. um fjölda vínveitingahúsa þá hef ég þær tölur ekki tiltækar hér en það er alveg ljóst, eins og fram kom í máli hv. þm., að það hefur orðið mjög mikil fjölgun vínveitingaleyfa á undanförnum árum. En það er bæði eðlilegt og sjálfsagt að afla nákvæmra upplýsinga um þetta efni þannig að þær staðreyndir liggi fyrir þegar hv. nefnd fær málið til meðferðar.
    Að því er varðar þátt löggæslunnar, þá er það svo, eins og fram kom hjá hv. þm. að lítils háttar niðurskurður hefur orðið á framlögum til löggæslunnar sem fyrst og fremst kom fram á árunum 1989 og 1990 en að mestu haldist í horfinu síðan.
    Það er alveg rétt að með vissum hætti hafa málefni löggæslunnar setið á hakanum þó að það þýði ekki að þau mál hafi verið í stöðnun. Þvert á móti hafi verið að gerast talsvert miklar breytingar í löggæslumálum, bæði að því er varðar málefni rannsóknarlögreglu og forvarnastarf og þróun grenndarlöggæslu. En í öllum þessum efnum er mikið verk að vinna og á síðasta kjörtímabili var lagður nokkur grunnur að nýskipan þessara mála með því að byrjað var að vinna frv. til nýrra lögreglulaga um nýskipan lögreglumála. Þá vannst ekki tóm, m.a. líka vegna skiptra skoðana, til þess að vinna þeim hugmyndum frekar brautargengi en á fundi með sýslumönnum og yfirmönnum lögregluliða í landinu á fimmtudag í síðustu viku, þá greindi ég frá því að það væri ákvörðun dómsmrn. að gefa endurskipulagningu lögreglumálanna forgang á því kjörtímabili sem nú er að hefjast. Það hefur verið skipaður sérstakur starfshópur til þess að vinna að endurskoðun þess lagafrv. sem unnið hafði verið á sínum tíma og kynnt var á Alþing. Ætlunin er að leggja það fram á komandi hausti og þar er gert ráð fyrir ýmsum viðamiklum breytingum á löggæslunni.
    Hv. þm. innti svo eftir því hvort ætla mætti að þessi breyting sem hér er verið að mæla fyrir mundi auka löggæslukostnað. Ég er ekki þeirrar skoðunar að breyting á innflutningi á áfengi muni leiða til aukinnar drykkjuskaparóareglu eða valda auknum starfa hjá löggæslunni. Auðvitað þarf hún að fylgjast með breytingum sem eiga sér stað á þessum sviðum eins og öðrum, en það er ekkert sem gefur tilefni til að ætla að sú breyting sem hér er verið að kveða á um varðandi innflutning á áfengi leiði til aukins umfangs löggæslu í landinu vegna víndrykkju.
    Hv. þm. spurðist fyrir um 3. gr. frv. en þar er verið að tryggja heimildir til þess að gera upptæk sérstök áhöld til þess að eima áfengi. Það hefur valdið nokkrum erfiðleikum í baráttunni gegn landaframleiðslu að sönnunarfærsla hefur oft verið erfið þar sem komið er að tækjum eða tækjum í smíðum og er fyrst og fremst verið að auðvelda löggæsluaðilum að takast á við þessi verkefni með því að gera þessi ákvæði svo skýr sem hér er verið að kveða á um, en mjög erfitt um vik að geta sér til um hversu víðtæk áhrif þetta kunni að hafa í framtíðinni.
    Að því er varðar álit fjárlagaskrifstofu fjmrn. þá vil ég aðeins segja það af löngum kynnum við fjmrn. að ég þekki menn þar á bæ ekki af öðru en að halda vel utan um kassann og hafi þeir minnsta grun um að breytingar sem fram eru bornar hafi neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs, þá hafa þeir jafnan verið fljótir að gera viðvart í þeim efnum. Ég hef því ekki haft ástæðu til að vefengja mat fjárlagaskrifstofunnar að þessu leyti eins og það kemur fram á því fskj. sem prentað er með frv.