Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:06:09 (200)


[18:06]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér kveður sér hljóðs hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir vegna vanda sem skapast kann við lokanir deilda á sjúkrahúsum á Reykjavíkursvæðinu. Upplýsingar í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum þess efnis að sumarlokanir Ríkisspítala kæmu sérstaklega og alvarlegast niður á geðdeild hafa að vonum vakið athygli og ugg í brjóstum manna því sá erfiði sjúkdómur er ekki aðeins erfiður sjúklingnum heldur aðstandendum öllum og þolir því meðferð erfiðra tilfella oft á tíðum enga bið og mikilvægt er að grípa inn í strax við upphafseinkenni sjúkdómsins.
    Spurt er hvort ráðherra muni grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir það ófremdarástand sem skapast kann.
    Svar: Heilbr.- og trmrn. bárust fyrr á þessu ári tillögur stjórnarnefndar um hvernig ná skyldi sparnaði að upphæð 220 millj. kr. á árinu 1995. Í framhaldi af viðræðum heilbrrh. og fjmrh. í fyrrv. ríkisstjórn var samþykkt að heimila stjórnarnefnd að hverfa frá þeim áformum um sparnað sem erfiðastur yrði. Þannig var ákveðið að hætta við að loka öldrunarlækningadeild og gera ráðstafanir til að lokanir á öðrum deildum yrðu aðeins helmingur þess sem ella hefði orðið. Til þess að svo mætti verða var fallist á að gera tillögu um 80 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til spítalans. Þegar þetta lá fyrir var því orðið samkomulag um að sumarlokanir yrðu svipaðar og undanfarin ár.
    Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú hafa komið fram hefur ráðherra farið yfir sumarlokanir með forráðamönnum Ríkisspítala. Niðurstaða þeirra er að ekki eigi að skapast það ófremdarástand vegna sumarlokana. Ég sem heilbrrh. er hins vegar tilbúin að taka upp viðræður við fjmrh. í ljósi þeirra upplýsinga sem

liggja fyrir.
    Spurt er: Telur ráðherra að sumarlokanir á geðdeildum, þar sem sjúklingar fá ekki nauðsynlega þjónustu og eftirmeðferð vegna mikils samdráttar í endurhæfingu vera í samræmi við þær áherslur sem hæstv. ráðherra hefur lagt á forvarnir?
    Svar: Ég mun sem ráðherra beita mér fyrir því að sumarlokanir á geðdeildum komi sem allra minnst niður á nauðsynlegustu þjónustu og eftirmeðferð sjúklinga enda tel ég mig nú þegar hafa fengið fullnægjandi tryggingu fyrir því frá forsvarsmönnum Ríkisspítalanna að svo muni ekki verða. Ég er hins vegar reiðubúin til að skoða málið. Því skal við bæta að það á ekki að draga úr starfsemi geðdeildar Borgarsjúkrahússins.
    Svo spyr hv. þm.: Er ráðherra tilbúinn að endurskoða sérstaklega fjárveitingar til sjúkrahúsanna á hér í Reykjavík í samanburði við sjúkrahúsin úti á landi?
    Svar: Mér er ljós vandi sjúkrahúsanna í Reykjavík vegna þeirrar bráðaþjónustu sem þau veita og þeirrar sérhæfðu þjónustu sem veitt er óvíða annars staðar eða hvergi. Það þarf því að sjá til þess að þessi mikilvæga starfsemi fái nauðsynlegt rekstrarfé. Hér er hins vegar um flókið mál að ræða því að samtímis sinna sjúkrahúsin út á landi veigamikilli þjónustu við heimabyggðir. Þessi sjúkrahús hafa ekki síður en sjúkrahúsin í Reykjavík þurft að taka á sig niðurskurð á undanförnum árum og fengum við umræðu um það í gær. Það er hins vegar nauðsynlegt að samræma betur hvernig dreginn er saman rekstur sjúkrahúsa.
    Fjórða spurningin er: Verður komið til móts við aðstandendur sjúklinga sem þurfa að annast sína nánustu heima meðan þetta ástand ríkir?
    Svarið er: Já, það verður gert. Heilbrrn. hefur á undanförnum árum aukið verulega framlög til heimahjúkrunar og hvíldarinnlagna á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Samtímis hefur heimahjúkrun verið aukin á heilsugæslustöðvum um allt land. Hvað varðar Reykjavíkursvæðið hefur verið veitt sérstök fjárveiting til aukningar heimahjúkrunar og hvíldarinnlagna, 25 millj. kr. árið 1994 og 31,5 millj. kr. árið 1995. Standa vonir til að takast muni að mæta öllum óskum um hvíldarinnlagnir á þessu sumri.
    Síðan kemur síðasta spurning frá hv. þm.: Telur ráðherra að um raunsparnað sé að ræða við að loka deildum yfir sumarmánuði þegar horft er til afleiðinga þeirra, bæði félagslegra og heilsufarslegra? Svarið er þetta: Það er ljóst að aldrei verður hjá því komist að einhverjar lokanir eigi sér stað á sjúkrahúsum því útilokað er að fylla allar stöður af faglærðu fólki á meðan sumarleyfi ganga yfir. Almennt er það mín skoðun að lokanir megi ekki leiða til óvissuástands fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Og biðlistarnir hafa lengst, það er rétt sem hv. þm. sagði, eftir mjög mikilvægum aðgerðum og af því hef ég sérstakar áhyggjur.