Úrskurður umboðsmanns Alþingis um skráningargjald við Háskóla Íslands

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:37:02 (218)


[13:37]
     Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. þessar tvær fyrirspurnir. Varðandi fyrri liðinn um það hvernig á að bregðast við þessu áliti umboðsmanns Alþingis, þá þarf að lesa það náttúrlega og kynna sér það rækilega. Það kemur fram í álitinu við lauslegan lestur minn á því en það barst mér í gærkvöldi að í sjálfu sér er ekki dreginn í efa lagagrundvöllur undir álagningu skrásetningargjalds í Háskóla Íslands. Hins vegar ræðir umboðsmaður það í þessu tilviki eins og öðrum þar sem um slíka gjaldtöku hefur verið að ræða að stofnunin þurfi að sýna fram á að gjaldið byggist á kostnaði sem hún verður fyrir og um það snýst þetta mál að því er Háskóla Íslands varðar og þarf að sjálfsögðu að taka á því í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis. Hann dregur ekki í efa réttmæti þess að leggja á skrásetningargjaldið. Hann veltir fyrir sér hvernig upphæðin er fundin og með hvaða aðferðum menn ætla að komast að þeirri niðurstöðu að hún sé sú tala sem umræddur álitsbeiðandi þurfti að greiða á árinu 1992.
    Ef hv. 8. þm. Reykv. hefði lesið álit umboðsmanns Alþingis, þá hefði hann séð að þetta á ekki við um framhaldsskólana. Lagaákvæði um framhaldsskólana er annars eðlis heldur en um Háskóla Íslands þannig að sú fyrirspurn hv. þm. á ekki rétt á sér ef hann les álit umboðsmanns Alþingis.