Boðað verkfall á fiskiskipum

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 14:31:48 (245)


[14:31]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, spurði um afstöðu mína til brota á vinnulöggjöfinni. Ég get upplýst það að meðan núgildandi vinnulöggjöf er í gildi verður að sjálfsögðu að halda hana. Ef um brot á vinnulöggjöfinni er að ræða verður að taka á því og félmrn. mun fylgjast með því máli og þróun þess.
    Úr því að ég er kominn hingað get ég sagt frá því að ég hef mjög miklar áhyggjur út af þessu verkfalli. Ég vek athygli á því að ekki er einungis um að ræða deilu milli sjómanna og útgerðarmanna. Hún kemur kannski fyrst og fremst niður á fiskverkafólki í landi og hún getur orðið til þess að fiskverkun leggist bókstaflega niður í ýmsum sjávarplássum og þar með er grundvelli kippt undan búsetu í viðkomandi plássum. Ég sé ekki hér eða nú hvernig hægt væri að verða við ýtrustu kröfum sjómanna. Það réttlætir hins vegar ekki mjög óeðlileg tiltæki sumra útgerðarmanna. Þessi deila leysist ekki með því að annar láti alfarið undan. Menn verða að koma sér að því að semja.