Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:20:37 (254)


[15:20]
     Pétur H. Blöndal :
    Forseti. Í gær áttum við mjög góða umræðu um jafnréttismál. Hún var mjög upplýsandi. Ég taldi mig hafa lært mikið á henni og núna heldur hún áfram og ég fagna því. Ég held að það sé eins og ég gat um í gær mikil nauðsyn fyrir þjóðina að jafnrétti komist á, ekki bara milli karla og kvenna, ég undirstrika það, ekki bara milli karla og kvenna heldur milli einstaklinga almennt. Þetta er ekkert sem ég þykist hafa lært núna í síðustu kosningabaráttu. Þetta er mjög gömul hugsun hjá mér og mér finnst því miður að ég hafi orðið var við ákveðna fordóma hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur í minn garð, sennilega vegna þess að ég er karlmaður og má því ekki hafa skoðun í þessum málum. Mér er mikið hjartans mál að jafnrétti náist fram og ég ætla að biðja menn um að trúa því.
    Ég gat um það í gær hvernig ég teldi að misrétti ætti sér stað. Það er við borðið þegar ráðningin á sér stað og ég tel að aðalmisréttið eigi sér ekki stað í því að ráðið sé í sömu störf hlið við hlið, karl og kona og karlinn með hærri laun. Það er aðallega eins og myndin benti til sem hér var sýnd áðan, það er aðallega í stöðuveitingunum. Þar sem er verið að ráða fólk í hærri stöður eru karlmennirnir ráðnir og það er mjög erfitt að finna út úr því hvort það sé um launamisrétti að ræða eða ekki. Hvernig finnið þið út úr því hvort það er um launamisrétti að ræða eða ekki hjá bankastjórum landsins? Bíðið nú við. Það er engin kona þar. Hvernig á að finna út launamisrétti í þeirri stétt? Þeir eru allir með sömu laun og ekkert misrétti. En misréttið felst í því að engin kona hefur verið ráðin bankastjóri. Í því felst misréttið. Kannski felst það líka í því að einhverjir karlmenn sem hefðu verið hæfari til að vera þar eru heldur ekki í þeim hópi.
    Ég er sammála því sem kemur fram í tillögunni að það þarf að finna út úr því hver eru raunveruleg laun. Það er nánast útilokað á Íslandi að finna út úr því hvað einn ákveðinn maður er með í laun. Meira að segja hér á Alþingi veit ég ekki hvað ég er með í laun því ég fæ einhvern bílastyrk og hann er einhvern veginn ómældur. Og svona er þetta víða. Margar stéttir þurfa að fara til útlanda til þess að ná í launin sín. Ferðin til útlanda er kjarabundin þannig að ég vil endilega að það sé sem mest sýnd launin sem greidd eru hér á landi.
    Varðandi fæðingarorlofið, sem ég gat um í gær að væri hugsanlega mótvægi við því að jafna kjör karla og kvenna, gleðst ég yfir því sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sagði. Ég er sömu skoðunar og hún. Það þarf að laga þessa stöðu. Við þurfum að gera karlmönnum, feðrum, skylt og það á að vera ljúf skylda að vera með börnum sínum og vera heima helminginn af fæðingarorlofinu. Það er nefnilega alls ekki svo slæmt að vera faðir. En það sem við þurfum kannski fyrst og fremst að ná fram er afstöðubreyting. Það er afstöðubreyting karla til kvenna sem er mjög ríkjandi, því miður, að menn sjá ekki að konur eru jafnhæfar og karlmenn. Þetta er mjög ríkt og svo þarf að breyta afstöðu kvenna til kvenna. Menn nefna hérna félmrn. að þar hafi ekki verið launajafnrétti og þar sem voru þó ráðherrarnir konur. Svo þarf að taka sérstaklega til skoðunar afstöðu kvennanna til sjálfs sín, þ.e. sjálfsmynd og sjálfsálit kvenna þarf að auka. Hvernig gerum við það? Ég sé það ekki alveg en ég vildi gjarnan að við ræddum það dálítið hvernig við aukum álit kvenna á sjálfum sér. Ég held að það yrði kannski best gert í menntakerfinu með því að leggja meiri áherslu á það að fólk stundi sjálfstæð verkefni. En fyrst og fremst bendi ég mönnum á það að fara í gegnum þá hugsun sem ég sýndi í gær að misrétti myndast við ráðningu í stöður og hvernig menn koma í veg fyrir það. Mér sýnist að það sé mest hjá þeim fyrirtækjum sem þurfa ekki að horfa í arð.
    Það segir sig sjálft og er rökrétt að ef ég þarf að reka fyrirtæki með hagnaði ræð ég að sjálfsögðu hæfasta starfsmanninn. Ef ég er í stjórn slíks fyrirtækis sem á að skila hagnaði ræð ég að sjálfsögðu sem framkvæmdastjóra þann einstakling sem er hæfastur til að skila því fyrirtæki áfram með miklum hagnaði. Ég horfi ekkert í það hvort sá maður er karl eða kona. Ég horfi ekkert í það hvort hann er í þessum eða hinum flokknum og ég horfi heldur ekki í það hvort hann er skyldur mér eða ekki. Ég ræð bara þann sem er hæfastur ef það eru markmið hjá mér nr. eitt, tvö og þrjú að fyrirtækið skili arði. Mín skoðun er sú að sá mikli vöxtur á fé sem enginn á, þ.e. fé frá ríkissjóði, fé sem er langt frá eigandanum eins og í lífeyrissjóðum, mín skoðun er sú að sá mikli vöxtur á fé án hirðis sem ég kalla svo valdi misréttinu, valdi því að menn hafi efni á því að ráða óhæfari einstakling til að stýra fyrirtækjum til að fara í valdastöður. Þessi aukning á fé án hirðis veldur misréttinu. Hvernig minnkum við þetta fé án hirðis? Það er með því að auka vald eigendanna á fjármagninu, t.d. í lífeyrissjóðnum, með auknu lýðræði og aðhaldi sjóðfélaganna á rekstri sjóðanna og svo hins vegar með því að einkavæða sem allra mest. Þannig er hægt að rökstyðja að jafnrétti er sama sem einkavæðing.