Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:17:49 (281)


[16:17]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Ég byrja á því að bjóða velkominn á þingfundinn hv. 9. þm. Reykv. Ég hlustaði á fjálglegt viðtal við hv. þm. í útvarpinu eftir hádegið í gær þar sem hann kynnti skoðun sína á þessari stofnun fyrir þjóðinni. Honum fannst þetta heldur leiðinleg og ómerkileg stofnun og hann ætlaði að vera úti meðal fólksins og láta ljós sitt skína þar, ekki vera að prédika yfir þessum vesæla lýð sem hér situr og átti þá við hv. þm. Þess vegna þykir mér vænt um að hann sýni lítillæti og sitji með okkur eina stund. Ég vonast eftir því að þær geti orðið fleiri en þessi því að ég verð að játa að ég er höfðingjasleikja og hef gaman af því þegar hv. þm. er hér í salnum.
    Hv. þm. rifjaði upp nokkrar snjallar tilvitnanir í ræður mínar og greinar frá fyrri árum og ég þakka honum kærlega fyrir það. Það var virkilega ,,oplevelse``, ef ég má nota það orð, að heyra þessar snjöllu setningar, með leyfi að segja, koma út úr munninum á hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Hann hefur greinilega lagt á sig töluverða vinnu enda er maðurinn vinnusamur og við þekkjum það frá fyrri árum sem höfum séð til hans. Hann hefur lagt á sig töluverða vinnu í athuganir og heimildasöfnun og ég er mjög upp með mér að hv. þm. skuli hafa getað séð af hinum dýrmæta tíma sínum og yfirfljótanlegu gáfum í að leggja sig niður við það.
    Hv. þm. tilkynni í ræðustólnum að hann væri mannvinur og þætti vænt um alla og er ég sannfærður um að oft hefur hann sagt hluti sem eru ótrúverðugri í þessum ræðustól en hann væri mannvinur og þyki vænt um alla. En svo sló út í fyrir hv. þm., pínulítið, þótt snjall sé. Hann vildi meina að ég hefði skipt um skoðun á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það hef ég ekki gert. Ég er nákvæmlega sömu skoðunar og ég var þegar ég var að eiga orðastað við hann og aðra þáverandi stjórnarliða um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Ég talaði á móti samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og taldi að við Íslendingar ættum ekki að gerast aðilar að þeim samningi og ég dró ekkert af mér í þeirri baráttu. Ég sé ekki eftir neinu sem ég sagði þá og þarf ekki að taka neitt til baka. Staðreyndin er hins vegar sú að hv. 9. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson, sem þá var hæstv. utanrrh., vann þá lotu. Alþingi ákvað, þ.e. meiri hluti Alþingis ákvað illu heilli að Ísland skyldi verða aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Þáv. hæstv. utanrrh. barðist af ofurkappi fyrir því og maðurinn er kappsmaður og hann vílaði ekki fyrir sér að beita þráfaldlega blekkingum eins og hér hefur verið rifjað upp af hv. 4. þm. Norðurl. e. Síðan verð ég að játa, herra forseti, að ég trúi ekki alveg öllu sem hv. 9. þm. Reykv. segir. Ég gerði það lengi vel en svo gafst

ég upp. Og það eru fleiri en ég. Hv. 9. þm. Reykv. hefur satt að segja sáð ofurlitlum efa um eigin trúverðugleik í huga þjóðarinnar.
    Ég þarf ekki að rifja upp fyrir hv. 9. þm. Reykv. að við erum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og það er ekki mér að kenna. Ég ber virðingu fyrir staðreyndum og ég beygi mig meira að segja fyrir staðreyndum. Við erum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Ég hef ekki hugsað mér að skrúfa klukkuna til baka, ég get það ekki og Íslendingar eiga ekki neina greiða leið út af Evrópsku efnahagssvæði úr því sem komið er.
    Við framsóknarmenn vildum tvíhliða samning á lokastigi þeirrar umræðu. Þá vildum við reyna tvíhliða samning og að breyta samningnum um Evrópskt efnahagssvæði í tvíhliða samning. Hins vegar er það eins og hv. þm. er mætavel kunnugt mjög flókin aðgerð. Jafnvel þó svo samningar tækjust þyrfti það samningsuppkast að ganga til allra þinga aðildarríkja Evrópusambandsins og það yrði dálítið torsóttur málarekstur. Þess vegna þykir mér skynsamlegast að reyna að gera sem best úr þeirri stöðu sem hér er. Ég dró aldrei neina dul á það að fyrir sumar útflutningsgreinar okkar gæti verið fjármunalegur hagur af því að vera aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Ég setti hins vegar fyrir mig galla samningsins, m.a. þann að með samningnum afsöluðum við hluta af ekki einasta löggjafarvaldi heldur einnig framkvæmdarvaldi og dómsvaldi. Allt er þetta deginum ljósara, allt er þetta að koma fram vegna þess að hendur framkvæmdarvaldsins og hendur löggjafarvaldsins eru bundnar að því leyti til að við verðum að taka við tilskipunum frá Brussel og gera þær að lögum okkar og haga okkur eftir því. Við getum ekki ákveðið það upp á okkar eindæmi að hindra frjálsa för launafólks. Það getum við ekki því að það er bakhliðin á samningnum. Aðrir íbúar á Evrópsku efnahagssvæði eiga jafnan rétt við okkur hér á Íslandi. Við eigum reyndar jafnan rétt og þeir í þeirra löndum annars staðar á svæðinu.
    Ég verð að fagna því, svo að ég víki nú aftur að hinu háleita og lítilláta viðtali hv. 9. þm. Reykv. við útvarpsmanninn í gær, og það gladdi mig ósegjanlega þegar hv. þm. sagðist ekki vera að hætta í pólitík. Hann átti tvö smáatriði eftir. Ég gladdist því að Alþingi væri náttúrlega ekki svipur hjá sjón ef hann hætti að líta hér inn öðru hverju. Hann átti eftir tvö smáverkefni, annað var að sameina jafnaðarmenn sem hann upplýsti hverjir væru, fyrir utan skárri partinn af Alþfl. sem reyndar var nú dálítið mislukkaður að vissu leyti, þá var það svona mikill hluti úr Sjálfstfl. Það er lítið af sjálfstæðismönnum hér inni, því miður --- jú, séra Hjálmar, hv. 2. þm. Norðurl. v. Ætli hv. þm. sé eitt af --- ég vil ekki segja fórnarlömbum sameiningar jafnaðarmanna? Já, það var þorrinn af stuðningsmönnum Sjálfstfl., það var Kvennalistinn sem mér skildist að hv. þm. teldi að hefði nú lokið hlutverki sínu, enda mundi Alþfl. nú taka upp mjög markvissa kvennabaráttu og gæta réttar þeirra í hvívetna og síðan það sem hann kallaði þetta Jóhönnuslys sem mér skildist að væri flokkurinn Þjóðvaki, hreyfing fólksins. Þetta voru jafnaðarmennirnir. Ég sperrti nokkuð eyrun hvort hann mundi nefna Alþb. en þar er mikið kapphlaup meðal forustumanna að sameina fólk en það var ekki nefnt á nafn í þessum sameiningartilraunum. Ég óska þeim til hamingju með það.
    Í öðru lagi átti hann annað smáviðvik eftir og það var að koma Íslandi í Evrópubandalagið. Þá sé ég fram á að hv. þm. verður enn um stund okkur til ánægju og upplyftingar og er ekki að taka við sendiherrastarfi í Ulan Bator en þar eigum við víst ekkert sendiráð enn þá. Ég tel að þetta frv. hafi víðtækan stuðning og ráðherrar Alþfl. og formaður Þjóðvaka eru búnir að flytja þetta mál í tvígang í þinginu. Ég vonast eftir að það verði afgreitt því að hver veit nema hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson ellegar þá hv. 9. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson kæri okkur til stóru mömmu úti í Brussel ef við leiðum þetta ekki í lög.