Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:43:09 (289)


[16:43]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Herra forseti. Við erum hér að ræða um vinnubrögð Alþingis, um löggjafarvaldið og spurninguna um það hvort því hafi verið haldið fram að um hafi verið að ræða framsal á löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi að því er varðar EES-samninginn. Það skortir ekki menn sem héldu því fram, bæði innan þings og utan. Ég læt það liggja á milli hluta.
    En nú er komið nýtt upp í málinu og það er þetta: Það er ekki bara að hæstv. félmrh. sé að flytja okkur boðskapinn frá Brussel þvert gegn vilja sínum, flytja mál sem hann er á móti, heldur er svo komið að hann er að flytja mál fyrrv. ríkisstjórnar. Og þá fer ég að skilja athugasemdir hv. 8. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, þegar hann sagði á miklu flugi í þingræðu 6. jan. 1993, og verði það nú að áhrínsorðum:
    ,,Alþingismenn Íslendinga eiga að hafa manndóm í sér til að verja heiður Íslands mót trylltri öld.``