Aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði

8. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:50:10 (291)

[16:50]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til breytinga á lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds.
    Margir gestir komu á fund nefndarinnar vegna málsins og lögðu þeir mikla áherslu á að hraða yrði afgreiðslu þess því ófremdarástand væri að skapast í dómskerfinu.
    Frumvarp það, sem hér um ræðir, er tilkomið í framhaldi af dómi sem Hæstiréttur felldi 18. maí sl. þar sem meiri hluti Hæstaréttar komst að þeirri niðurstöðu að staða dómarafulltrúa, sem starfa samkvæmt lögum nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, uppfylli ekki grunnreglur stjórnarskrár um sjálfstæði dómsvaldsins, svo sem þær verða skýrðar með hliðsjón af 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sjálfstæða og óvilhalla dómara.
    Í 2. mgr. 6. gr. umræddra laga segir að þar sem héraðsdómarar eru fleiri en einn ákveði dómstjóri hvert sé starfssvið fulltrúa og undir umsjón hvaða héraðsdómara hann starfi hverju sinni. Í skýringum í greinargerð með frumvarpi að lögunum segir m.a. um þessa málsgrein: ,,Er með þessu orðalagi haft í huga að meiri áhersla verði lögð á starfsþjálfun dómarafulltrúa en nú er víðast reyndin. Þar á meðal fái fulltrúar þjálfun jafnt við úrlausn einkamála sem opinberra mála sem höfðuð eru fyrir héraðsdómstólunum.`` Reyndin hefur hins vegar orðið sú að dómarafulltrúar fara nánast með samsvarandi störf og embættisdómarar.
    Meiri hluti Hæstaréttar rekur í niðurstöðu sinni mismuninn á starfi héraðsdómara annars vegar og dómarafulltrúa hins vegar. Þar kemur fram að héraðsdómarar hafi yfirleitt meiri reynslu að baki. Þeir þurfi að gangast við ábyrgð af dómstörfum sínum í upphafi starfs með heiti um að virða stjórnarskrá lýðveldisins en dómarafulltrúar ekki og að héraðsdómurum verði ekki vikið úr embætti nema með dómi, sbr. 2. málsl. 61. gr. stjórnarskrárinnar, en dómsmálaráðherra hafi formlega heimild til að afturkalla löggildingu dómarafulltrúa og víkja þeim úr starfi án þess að bera það undir dómstóla. Framkvæmdarvaldið geti og með ráðstöfunum sínum bundið enda á ráðningu þeirra á skömmum tíma. Þá tekur Hæstiréttur fram að í málinu sé ekki tekin afstaða til stöðu þeirra sem fara tímabundið með dómsvald, sbr. 7. gr. laga nr. 92/1989, en þeir eru skv. 4. mgr. 8. gr. sömu laga í sams konar aðstöðu og dómarafulltrúar hvað frávikningu úr starfi varðar.
    Í frv., sem lá fyrir nefndinni, er gert ráð fyrir að staðið verði öðru vísi að ráðningu dómarafulltrúa til starfa en áður. Í stað þess að gera við þá almennan ráðningarsamning með þriggja mánaða uppsagnarfresti og láta dómsmálaráðherra síðan löggilda þá til að framkvæma dómsathafnir, verði þeir framvegis skipaðir til að framkvæma dómsathafnir í umboði og á ábyrgð dómstjóra eða héraðsdómara (þar sem ekki er skipaður dómstjóri). Í skipuninni felst m.a. það að þeir verða að vinna heiti um að virða ákvæði stjórnarskrárinnar í störfum sínum. Jafnframt er þar lagt til að um frávikningu dómarafulltrúa og settra dómara skv. 7. gr. aðskilnaðarlaganna gildi sömu reglur og um frávikningu héraðsdómara. Þeim verði þannig aðeins vikið frá störfum með því að höfða mál.
    Í bréfi því, sem dómarafulltrúar afhentu nefndinni, kemur fram að þeir telja sjálfstæði þeirra í starfi nægilega tryggt með því frumvarpi sem dómsmálaráðherra lagði fram en gagnrýna jafnframt núverandi kerfi að því leyti að í landinu séu í raun starfandi tvær ,,gerðir`` dómara þar sem önnur er lægra sett en hin. Í niðurlagi bréfsins segir síðan: ,,Einnig viljum við vekja athygli á að eftir aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði réðust til dómstólanna margir fulltrúar sem höfðu langa þjálfun og reynslu af dómstörfum og höfðu sumir haft setningu sem dómarar í lengri eða skemmri tíma. Hafa dómarafulltrúar starfað algerlega sjálfstætt að dómstörfum og farið með alla málaflokka og í sumum tilvikum til jafns við héraðsdómara. Í þeim tilvikum hefur einungis verið munur á ráðningar- og launakjörum.``
    Allsherjarnefnd tekur undir það að dómarafulltrúar hafi oftar en ekki mikla starfsreynslu að baki og flestir þeirra fari með alla málaflokka, jafnvel til jafns við skipaða héraðsdómara. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar var ekki tilgangur löggjafans með setningu aðskilnaðarlaganna að búa til tvær tegundir dómara með mismunandi starfsheiti og laun en sömu viðfangsefni. Ætlunin var að mismunandi heiti mundu spegla mismunandi verksvið. Þróunin hefur þó orðið önnur eins og fram hefur komið og hefur hún sætt gagnrýni bæði lögmanna og dómara, nú síðast með umræddum hæstaréttardómi. Frumvarp það, sem vísað var til nefndarinnar, gerir ráð fyrir auknu starfsöryggi hjá dómarafulltrúum en þar er ekki lögð til nein takmörkun á verksviði þeirra. Nefndin telur ekki vafalaust að þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir gangi nógu langt til að ráða bót á því réttarástandi sem skapast hefur með niðurstöðu meiri hluta Hæstaréttar. Nefndin telur því rétt að gera breytingu á frumvarpinu á þann veg að verksvið dómarafulltrúa verði takmarkað frekar en verið hefur. Hinn eiginlegi kjarni í starfi dómara er að dæma í munnlega fluttum einkamálum og alvarlegum sakamálum. Í samræmi við þessi sjónarmið eru gerðar tillögur um að heimildir fulltrúa til að framkvæma dómsathafnir verði takmarkaðar. Slík takmörkun á að tryggja að reyndir héraðsdómarar fari með erfiðustu málin.
    Formaður réttarfarsnefndar lagði mikla áherslu á það við nefndina að þessi breyting yrði gerð á frv. Er það í samræmi við þá vinnu sem þegar er hafin í þeirri nefnd að frv. til nýrra dómstólalaga.
    Í réttarfarsnefnd eiga sæti Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, sem er formaður nefndarinnar, Gunnlaugur Claessen hæstaréttardómari, Eiríkur Tómasson og Stefán Már Stefánsson, prófessorar í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands, Þórunn Guðmundsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, og Viðar Már Matthíasson hæstaréttarlögmaður.
    Efnislegt innihald þeirra breytinga sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali er:
    Forstöðumaður héraðsdómstóls geti falið fulltrúum að sinna hvers konar dómstörfum öðrum en að fara með og leysa að efni til úr einkamálum þar sem haldið er uppi vörnum eða opinberum málum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Samkvæmt þessu ákvæði munu fulltrúar áfram geta sinnt útivistarmálum, stýrt reglulegum dómþingum í einkamálum og kveðið upp réttarfarsúrskurði, afgreitt aðfararbeiðnir, kveðið upp úrskurði um gjaldþrotaskipti og opinber skipti á dánarbúum sem og í skriflega fluttum einkamálum, enda sé ekki haldið upp vörnum, og rannsóknarúrskurði í opinberum málum. Þá munu þeir geta sinnt meðferð ákærumála nema lögbundið sé að þau sæti aðalmeðferð eða til þess tíma að þau koma til aðalmeðferðar. --- En til aðalmeðferðar fara þau mál þar sem játning liggur ekki fyrir eða ef viðurlög við broti geta farið yfir átta ára fangelsi. --- Takmörkun á dómsvaldi fulltrúa felur í sér að þeim verður óheimilt að dæma í almennum einkamálum að efni til þar sem vörnum er haldið uppi og að fara með og leysa úr ágreiningsmálum um aðför, nauðungarsölu, dánarbússkipti, gjaldþrotaskipti og þinglýsingar en slík mál koma almennt ekki til dómstóla eðli máls samkvæmt nema vegna ágreinings þar sem haldið er uppi vörnum. Samkvæmt þessu ákvæði verður ekki útilokað að fulltrúar kveði upp úrskurði um gæsluvarðhald, en það hefur verið gagnrýnt að fulltrúar sinni slíkum dómsathöfnum. Þótt fallast megi á að slíkt sé óæskilegt er ekki talið unnt vegna aðstæðna utan Reykjavíkur að takmarka með lögum heimildir fulltrúa til að kveða upp slíka úrskurði. --- Hér er þó aðeins um heimild að ræða fyrir dómstjóra eða héraðsdómara sem vonir standa til að verði ekki almennt nýtt.
    Fram kemur í frumvarpinu að réttarfarsnefnd vinni nú að frumvarpi til dómstólalaga sem vænst er

að liggi fyrir á næsta ári. Þar verði lagður grunnur að framtíðarskipulagi dómstólaskipunar í landinu og þar með hvort og með hvaða hætti viðhalda eigi fulltrúakerfinu. Allsherjarnefnd leggur áherslu á að því starfi verði hraðað svo sem kostur er. Til að tryggja það enn frekar leggur nefndin jafnframt til þá breytingu á frumvarpinu að sett verði inn sérstakt endurskoðunarákvæði þannig að þær breytingar, sem frumvarpið ásamt breytingum nefndarinnar hefur í för með sér, þurfi að endurskoða eigi síðar en 1. október 1996.
    Ég legg sérstaka áherslu á að hér er fyrst og fremst um ákveðið millibilsástand að ræða fram til þess tíma að ný dómstólalög hafa verið samþykkt.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um hvort ástæða væri til að skýra orðið ,,ábyrgð`` í 1. málsl. 1. efnismgr. frumvarpsins eitthvað frekar út. Á það var bent, m.a. af hálfu formanns réttarfarsnefndar, að þetta orð hafi verið skýrt með hliðsjón af 8. gr. a laga nr. 92/1989 sem fjallar um ábyrgð dómara.
    Þann 24. maí sl. kvað Hæstiréttur upp annan dóm sinn á skömmum tíma þar sem héraðsdómur, sem kveðinn hafði verið upp af dómarafulltrúa, var úr gildi felldur. Meiri hlutinn vísaði niðurstöðu sinni til dóms meiri hluta Hæstaréttar frá 18. sama mánaðar. Þann 26. maí sl. kvað Hæstiréttur svo upp annan dóm í kærumáli þar sem hann ómerkti sjálfkrafa héraðsdóm á sömu forsendum. Það er því alveg ljóst að skjótra aðgerða er þörf. Ekki er hægt að una mikið lengur við það ófremdarástand sem nú hefur skapast.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið raktar og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.